14.12.1967
Neðri deild: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

41. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Ed. og hlaut þar einróma samþykki. En meginefni þess er að breyta núgildandi lögum um Bjargráðasjóð Íslands eftir till., sem fram koma í grg. frv. frá svonefndri kalnefnd, sem hæstv. landbrh. skipaði hinn 8. ágúst s.l. Niðurstöður n. eru raktar mjög greinilega í grg. frv., eins og það var upphaflega flutt. En þar segir svo:

„Nefndin leyfir sér að benda á, að nauðsynlegt sé að efla Bjargráðasjóð Íslands, til þess að hann geti staðið undir áföllum vegna uppskerubrests og annarrar óáranar. Ræddi n. þá hugmynd við forráðamenn bænda á fundum sínum í sumar og var henni vel tekið. Fyrir liggur frv. til l. um Bjargráðasjóð Íslands, samið af stjórnskipaðri n. samkv. þál. frá 1. apríl 1964. Frv. það var lagt fyrir búnaðarþing árið 1966, að tilhlutan landbrn. Búnaðarþing mælti með samþykkt frv. með nokkrum breytingum. Var frumvarpið ásamt brtt., með bréfi dags. 24. marz 1966, sent landbrn., félmrn. og Bjargráðasjóði Íslands. N. leggur til, að frv. þetta verði lagt fyrir Alþingi til samþykktar með þeim breytingum, sem búnaðarþing gerði við það, þó með eftirgreindum viðbótarbreytingum,“ eins og þar greinir.

Og meginefni þessa frv. er að verða við þessum tilmælum nefndarinnar.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn., en vil leggja áherzlu á það, að vegna framkvæmda á þeim nýju ákvæðum, sem frv. gerir ráð fyrir, væri mjög æskilegt, ef því yrði við komið, að frv. hlyti endanlega afgreiðslu fyrir þinghlé Alþingis.