21.11.1967
Efri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

23. mál, almannatryggingar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er til umr., er fyrirhugað að gera breytingar á l. um almannatryggingar og fella úr gildi lög um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Höfuðbreytingarnar, sem í frv. felast, eru: Ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla, sem verið hefur deild í félmrn., verður lögð niður, en hlutverk hennar fengið í hendur Tryggingastofnun ríkisins, héraðssamlögum og sjúkrasamlögum kaupstaðanna. Breytingin tekur þó ekki til fávitastofnana. Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins, sem fram til þessa hefur einvörðungu haft með höndum umsjón og yfirstjórn sjúkratrygginga, á samkv. ákvæðum frv. að reka sjálfstæða tryggingastarfsemi, því að deildin á að tryggja greiðslu sjúkrahúskostnaðar vegna sjúklinga, sem hafa legið lengur en 12 mánuði á undangengnum tveimur árum, svo og greiðslu kostnaðar við vistun sjúklinga með ellikröm og langvinna sjúkdóma á stofnunum öðrum en sjúkrahúsum. Verksvið héraðssamlaganna er aukið og er þeim ætlað að greiða allan kostnað vegna sjúkrahúsvistar, sem eigi fer fram yfir 12 mánuði á tveimur árum. Þetta kann að vera spor í áttina að því, að héraðssamlögin taki algerlega að sér hlutverk sjúkrasamlaganna í hreppunum.

Þetta frv. felur fyrst og fremst í sér skipulagsbreytingu, sem gerir mál þessi einfaldari í sniðum og er tvímælalaust til bóta. Réttur hinna tryggðu er hinn sami og áður, útgjaldabyrðunum er skipt niður á mjög svipaðan hátt og áður milli ríkisins, sveitarfélaganna og hinna tryggðu.

Þessu frv. var vísað til heilbr.- og félmn. N. kvaddi á sinn fund Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóra, sem er formaður n. þeirrar, sem samdi þetta frv., svo og Guðjón Hansen tryggingafræðing, sem vann að undirbúningi frv. Þessir menn skýrðu málið fyrir nm. og svöruðu ýmsum fsp. frá þeim varðandi ákvæði frv. N. sendi þetta frv. Sambandi ísl. sveitarfélaga til umsagnar og fékk þaðan svofellda umsögn, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:

„Með bréfi dags. 2. þ.m. sendi hv. þn. til umsagnar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frv. til l um breyt. á l. nr. 40/1963 um almannatryggingar. Þar sem upplýst þykir, að meginbreytingar þær, sem frv. felur í sér, hafi ekki í för með sér nein aukin útgjöld fyrir sveitarfélögin og þær skipulagsbreytingar á sjúkratryggingunum, sem frv. gerir ráð fyrir, virðast eðlilegar og sjálfsagðar, mælir stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga með samþykkt frv. Þetta tilkynnist hv. þn. hér með.“

Þetta var umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Heilbr.- og félmn. varð sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt, eins og fram kemur í nál. á þskj. 67.