12.12.1967
Efri deild: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

23. mál, almannatryggingar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Brtt. á þskj. 115 er í þremur töluliðum og er þar um þrjú efnisatriði að ræða, eins og frsm. hv. heilbr.- og félmn. var að gera grein fyrir. Fyrsta efnisatriði till. er það, að eftirleiðis eiga daggjöld opinberra sjúkrahúsa og hæla og annarra stofnana í heilbrigðismálum, sem 49. gr. almannatryggingalaganna tekur til, að vera ákveðin af 5 manna n. En eins og þetta er nú í l. og ákvæði frv. fjallar um, er fyrst leitað samninga um hæð daggjaldanna, en ef samningar nást ekki, eru þau ákveðin af heilbrmrn. Út af fyrir sig sé ég ekki mjög mikinn efnismun á þeirri skipan, sem verið hefur að þessu leyti, og því, sem ráðgert er í brtt., þar sem heilbrmrn. fær að skipa oddamann n. og verði atkv. jöfn í n., ræður atkv. formanns, þ.e.a.s. þess manns, sem heilbrmrn. skipar í n. En í 2. tölul. till. eru ákvæði, sem fela í sér allmikla breytingu á gjöldum til Tryggingastofnunarinnar, annars vegar frá ríkinu og hins vegar frá sveitarfélögunum í landinu. Ég ætla að leyfa mér að fara örfáum orðum um þann þáttinn, sem að sveitarfélögunum snýr.

Eins og gildandi lög eru, greiðir ríkið til sjúkrasamlaganna 110% af iðgjöldum samlagsmanna og hlutaðeigandi sveitarsjóður leggur fram 50% af samanlögðum iðgjöldum samlagsmanna. Eins og frv. var úr garði gert, var gert ráð fyrir því að breyta þessum hlutföllum þannig, að ríkið átti að greiða 170% af iðgjöldum samlagsmanna, en hlutaðeigandi sveitarfélag 65%. Á móti þessari hækkun hjá sveitarfélaginu átti það að koma samkv. frv., að sveitarfélagið losnaði við að greiða 1/5 hluta af kostnaði vegna sjúklings, sem kynni að vera úr því sveitarfélagi á ríkisframfærslunni.

Nú með þessari brtt. er þessum hlutföllum enn þá breytt í það horf, að hluti sveitarfélagsins í greiðslu til sjúkrasamlaganna á ekki að vera 50% af iðgjöldum, eins og hann hefur verið samkv. gildandi l., heldur 85% af iðgjöldum.

Í tímariti Tryggingastofnunarinnar er birt grg. um fjárhagsáætlun Tryggingastofnunarinnar fyrir árið 1967 og þ. á m. fjárhagsáætlun sjúkratrygginganna í landinu. Samkv. fjárhagsáætlun Tryggingastofnunarinnar fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir, að gjöld hinna tryggðu til sjúkrasamlaganna nemi 173.3 millj. kr. Ríkisframlagið 190.6 millj. kr., en framlag sveitarfélaganna samtals til sjúkrasamlaganna 86.6 millj. kr. Ef þetta hlutfall er nú hækkað með þessari brtt. úr 50% í 85% af iðgjöldum, skilst mér, að hér sé um að ræða í kringum 60 millj. kr. hækkun, sem þetta stuttorða ákvæði felur í sér, þannig að ætlað er, að sveitarfélögin í heild greiði um 60 millj. kr. hækkun. Á móti þessu kann að koma það, að halli, sem einstök sveitarfélög hafa orðið að bera vegna sjúkrahúsareksturs, lækki eða hverfi.

Nú má segja, að með því að breyta þessum hlutföllum þannig og leggja auknar byrðar á sveitarsjóðina, gæti af því leitt það, að iðgjöldin, sem einstaklingar greiða, gætu lækkað við aukna hlutdeild ríkisins og sveitarsjóðanna í tekjuöfl un sjúkrasamlaganna. En ég hygg, að með þessari brtt. sé ekki stefnt að því, heldur sé þessi hækkun ætluð til þess að mæta auknum kvöðum á hendur sjúkrasamlögunum og þess vegna sé ætlunin að hækka framlög ríkisins og sveitarfélaganna í þessu skyni. Ef þetta leiðir til þess, að halli, sem einstök sveitarfélög hafa orðið að bera af sjúkrahúsarekstrinum, minnkar, felst raunar í þessu það, að þeim kostnaðarliðum er dreift út á meðal sveitarfélaganna meira heldur en gert hefur verið. Það má vissulega færa ýmis rök fram fyrir því sjónarmiði, og orðið jöfnuður hefur vitanlega mjög góða merkingu í sér fólgna og ekki þarf að vera ágreiningur um það, að hjúkrun sjúkra manna í þjóðfélaginu þarf að vera svo fullkomin sem kostur er á.

En ég vil í þessu sambandi aðeins benda á örfá atriði, sem vel mættu verða þm. til íhugunar. Í fyrsta lagi, ef þeirri reglu verður fylgt að ákveða daggjöld sjúkrahúsanna þannig, að þau séu miðuð við, að sæmilega vel rekið sjúkrahús beri sig, greiðir í raun og veru hvert sveitarfélag með daggjaldinu fyrir þá þjónustu, sem það fær hjá viðkomandi sjúkrahúsi fyrir þann aðila, sem er tryggingaskyldur í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Í öðru lagi vil ég leyfa mér að benda á það, að þó að þau sveitarfélög, þar sem sjúkrahús eru rekin, verði að bera einhvern beinan halla af rekstrinum, njóta þau ýmissa hlunninda aftur á móti. Það fólk, sem starfar við stofnunina, er gjaldþegnar í því sveitarfélagi, þar sem sjúkrahúsið er rekið, og það er að víssu leyti alltaf stuðningur að fá stofnanir til að starfa innan vébanda sveitarfélaganna, það eykur umsvif þeirra og bætir aðstöðu þeirra á ýmsan hátt. Í þriðja lagi vil ég leyfa mér að benda á það, að þær sveitarstjórnir, þar sem sjúkrahúsin eru rekin, eiga að hafa aðstöðu til þess að fylgjast með rekstrinum og hlutast til um, að breytingar séu gerðar í hagkvæmnisátt, ef sýnt er, að þessa er ekki nægilega gætt. En þau sveitarfélög, þar sem sjúkrahús eru ekki, en greiða fyrir samlagsmenn á því svæði til annarra sveitarfélaga, hafa enga möguleika til þess að fylgjast með rekstri sjúkrahúsanna og engin tök á því að hafa nein afskipti af því, hvernig rekstrinum er hagað. Þau verða einungis að standa skil á þeim fjárhæðum, sem krafizt er, eða greiða þá reikninga, sem þeim eru sendir í þessu sambandi.

Í fjórða lagi vil ég láta það sjónarmið koma hér fram, að þau sveitarfélög, sem reka sjúkrahús, eru svona yfirleitt meðal þeirra sveitarfélaga, sem eru fjölmenn og hafa af þeim sökum meira fjárhagslegt bolmagn heldur en hin fámennu hreppsfélög viða úti um land. Og þegar á þetta er litið, er nokkur ástæða til þess, að ekki sé seilzt til þess að ná alveg fullum jöfnuði milli sveitarfélaganna í þessu efni.

En hvað sem um þetta er að segja, þessi atriði, sem ég hef varpað hér fram, mun það vera staðreynd, að með þessu stuttorða ákvæði í 2. tölul. brtt. er stefnt að því að hækka framlög sveitarfélaganna til sjúkrasamlaga alls í landinu um eigi minna en 60 millj. kr. Í sjálfu sér er þetta ekki svo há fjárhæð, að út af fyrir sig sé ástæða til að hafa mörg orð um það. En ég vek athygli á þessu, vegna þess að þetta er alls ekki eins dæmi. Það er oft svo, að okkur hér — löggjöfunum — tekst að hafa inni í löggjöf ákvæði, sem leggja aukna kvöð á sveitarfélögin, án þess að sveitarstjórnirnar fái sjálfar nokkru um það að ráða, hvaða fjárhæðir koma þar til útborgunar. Sveitarstjórnirnar fá engu um það að ráða, hvað iðgjöld til trygginganna eru ákveðin há, heldur er framlag þeirra aðeins prósentureikningur af þeim grunni, og þetta framlag verða þær að greiða, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Aðalerindi mitt upp í ræðustólinn að þessu sinni var því það, þar sem ég sé tvo hæstv. ráðh. sitja hér, að bera fram þá fsp. til hæstv. ráðh., hvort fyrirhugað sé í sambandi við breytingu á tollalöggjöf og e.t.v. breytingu á söluskatti sem afleiðingu af gengisfellingunni, að auka hlutdeild sveitarfélaganna í þeim tekjustofnum frá því, sem verið hefur. Ég vil af þessu tilefni bera fram þessa fsp. til hæstv. ráðh.