12.12.1967
Efri deild: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

23. mál, almannatryggingar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins í tilefni af fsp. hv. 2. þm. Austf., sem ég kveð mér hér hljóðs. Mér skildist, að hún væri þess efnis að leita eftir upplýsingum um það, hvort fyrirhugað væri í sambandi við endurskoðun tollalöggjafar og e.t.v. söluskatts að auka hlutdeild sveitarfélaganna í þessum tekjustofnum. Það er ekki fyrirhugað. Það er ekkert sérstakt, sem liggur fyrir um breyt. á söluskatti í því efni, en ætlunin er, að þær tollabreytingar eða tollalækkanir, sem hægt er að koma við, verði gerðar fyrst og fremst til þess að mæta vandamálum, sem hafa skapazt vegna gengisbreytingarinnar, s.s. hækkun á vöruverði erlendis frá, og öll sú upphæð, sem ríkissjóður hefur hugsanlega aflögu til slíkrar breytingar, verður notuð til tollalækkunar, en það er auðvitað ekki samtímis hægt að lækka tollana og auka hlutdeild annarra aðila í núverandi tolltekju- eða aðflutningsgjaldastofni. Hvort þetta leiðir af sér krónulega hækkun, er allt önnur saga. Það fer auðvitað eftir innflutningnum, hvernig hann verður. Það er heldur ekki ætlunin að rýra á neinn hátt hlutdeild sveitarfélaganna í aðflutningsgjöldum og söluskatti frá því, sem verið hefur.