18.12.1967
Neðri deild: 45. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

23. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er komið frá hv. Ed. Heilbr.- og félmn. þeirrar d. tók málið til gaumgæfilegrar athugunar og varð hún sammála um að mæla með samþykkt þess, eins og fram kemur á þskj. 67, sem er nál. heilbr- og félmn.

Ed. Milli 2. og 3. umr. í Ed. hélt n. enn á ný fund um málið vegna tilmæla, sem fram höfðu komið frá heilbrmrn. og félmrn. um, að gerðar yrðu breytingar við 8. og 10. gr. frv. Tók n. tilmæli rn. til athugunar og lagði fyrir 3. umr. um málið fram brtt., sem fram komu á þskj. 115, og voru brtt. n. samþ. shlj. í hv. Ed. og frv. með áorðnum breytingum einnig samþ. shlj. og þannig vísað hingað til þessarar hv. d.

Heilbr.- og félmn. Nd. hafði frv. til athugunar á tveimur fundum hjá sér og fékk til sín ráðuneytisstjóra félmrn., Hjálmar Vilhjálmsson, og gerði hann n. ýtarlega grein fyrir efni frv. og svaraði fsp. einstakra nm. Leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá hv. Ed.

Efni þessa frv. er tvíþætt. Í fyrsta lagi gerir það ráð fyrir, að ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla, sem félmrn. hefur hingað til annazt, verði lögð niður, en sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins taki í sínar hendur þá fyrirgreiðslu, sem félmrn. hefur nú með höndum varðandi þetta mál, þó að sjálfsögðu þannig, að þeir sjúklingar, sem notið hafa fyrirgreiðslu samkv. l. um ríkisframfærslu, njóti framvegis ekki minni aðstoðar af hálfu þess opinbera en þeir hafa gert og gera nú.

Má segja, að hér sé nánast um hagræðingaratriði að ræða og er n. sammála um, að frv. stefni í rétta átt hvað þetta snertir og sé einnig til hagræðis fyrir sveitarfélögin, sem fram að þessu hafa haft veruleg afskipti af þessum málum, en frv. gerir ráð fyrir, að eftirleiðis verði þetta atriði tryggingalaganna í höndum hinna einstöku sjúkrasamlaga, héraðssjúkrasamlaganna og sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins.

Í öðru lagi gerir sú breyting, sem gerð hefur verið við 8. gr. frv., ráð fyrir verulega bættri aðstöðu sjúkrahúsanna frá því, sem verið hefur, þar sem ráð er fyrir gert, að frá og með 1. jan. 1969 miðist daggjöld og gjaldskrár hinna einstöku sjúkrahúsa við að standa straum af eðlilegum rekstrarkostnaði þeirra, enda séu gjöldin í samræmi við hagkvæman rekstur og þá þjónustu, sem stofnunin veitir. Verður þetta að teljast eðlileg og hagkvæm breyting. Fram að þessu hafa sennilega flest sjúkrahús á landinu verið rekin með stórfelldum halla, sum svo milljónum skiptir á ári. Verður þetta að teljast óeðlilegt og getur í sumum tilfellum jafnvel verið hættulegt. Stafar þetta af því, að samningar, sem sjúkrahúsin hafa náð við sjúkrasamlögin hvert á sínu svæði um daggjöld og aðra veitta þjónustu, hafa hvergi nærri borið uppi beinan kostnað við rekstur sjúkrahúsanna. Þeir, sem ekki eru þessum málum kunnugir, geta e.t.v. hugsað sem svo, að einu gildi, þótt sveitarsjóðir, þar sem sjúkrahús eru, taki á sig verulegan halla af rekstri þeirra. En málið er ekki svona einfalt. Í fyrsta lagi er nokkur hætta á því, ef sveitarstjórn þarf að hækka verulega heildarupphæð útsvara hverju sinni vegna rekstrarhalla á sjúkrahúsi sínu, að rekstur þessarar stofnunar líði við það og hún verði af þeim ástæðum ekki fær um að veita þá þjónustu, sem sjálfsögð er og eðlileg. Ég er ekki að segja, að þetta hafi átt sér stað, en með árlega vaxandi halla á rekstri sjúkrahúsanna gæti verið hætta á, að málin þróuðust í þessa átt. Verði þetta frv. að lögum eins og það liggur hér fyrir, verður að telja, að málefnum sjúkrahúsanna hafi verið komið í betra horf en áður var og má þá einnig hafa í huga hin stórauknu framlög ríkisins til byggingar sjúkrahúsa, sem lögleidd voru með læknaskipunarlögum nú fyrir nokkrum árum og telja verður, að hafi gert sveitarfélögunum kleift að ráða fram úr þessum málum á mun betri hátt en áður var. Og ég hygg, að allir séu sammála um, að aukin og bætt heilbrigðisþjónusta sé eitt af frumskilyrðunum fyrir því, að fólk uni áfram búsetu í dreifbýlinu.

Í öðru lagi hefur nokkurt misræmi átt sér stað á milli þeirra sveitarfélaga, sem sjúkrahús hafa rekið með verulegum rekstrarhalla, og hinna, sem rekstur slíkra stofnana hafa ekki þurft að annazt. Kemur þetta fram í því, að eins og ég sagði áðan, hafa þau sveitarfélög, sem sjúkrahús reka, árlega orðið að jafna rekstrarhallanum niður í auknum álögum á gjaldendur sína og þá einnig fyrir utanhéraðssjúklinga, sem á sjúkrahúsunum hafa dvalið. En þess ber þó að sjálfsögðu að geta, að daggjöld fyrir utanhéraðssjúklinga, þ.e.a.s. sjúklinga, sem búsettir eru utan sveitarfélags, sem sjúkrahús er staðsett í, greiða nokkru hærri daggjöld en íbúar sveitarfélaganna, en þó hvergi nærri eins og kostnaður við hvern legudag hefur verið. Ákvæði frv. um, að daggjöld og gjaldskrá sjúkrahúsanna skuli frá og með 1. jan. 1969 miðast við tekjuþörf hverrar stofnunar fyrir sig, eru verulega til samræmingar í þessum efnum og verður það að teljast eðlileg breyting og til bóta.

Eins og ég sagði, herra forseti, hefur heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. haft frv. til athugunar og er hún sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt eins og það liggur hér fyrir.