18.12.1967
Neðri deild: 45. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

23. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv. og er hún á þskj. 172. Það var verið að útbýta henni hér rétt áðan. Ég held, að það sé rétt, að ég, með leyfi hæstv. forseta, lesi till. upp. Hún er um það, að við ákvæði til bráðabirgða bætist ný mgr., svo hljóðandi:

„Athuga skal möguleika á að draga úr kostnaði við rekstur Tryggingastofnunar ríkisins með því að semja við banka eða sparisjóði um, að þær stofnanir annist útborgun á bótum frá almannatryggingunum.“

Snemma á þessu þingi bar ég fram fsp. um kostnað við rekstur Tryggingastofnunar ríkisins. Hæstv. félmrh. svaraði þessari fsp. minni greinilega á fundi í sameinuðu þingi 25. okt. Þar kom m.a. fram, að rekstrarkostnaður lífeyristrygginganna á árinu 1966 hefði orðið nokkuð yfir 21 millj. kr.

Ég geri ráð fyrir, að allir séu sammála um, að það væri gott, ef hægt væri eitthvað að minnka þennan kostnað, án þess að skerða nokkuð starfsemi trygginganna. Mér hefur komið í hug, að það mætti spara eitthvað með því að koma útborgunum á lífeyri og öðrum bótum frá tryggingunum þannig fyrir, að það væri samið við banka eða sparisjóði um að annast þessar útborganir. Mér finnst a.m.k. ástæða til að kanna það mál, hvort ekki mætti verða af því nokkur sparnaður.

Nú er þetta þannig, að Tryggingastofnunin sjálf eða aðalskrifstofa hennar hér í Reykjavík borgar þetta út hér í borginni, en út um land mun þetta að ég hygg vera þannig, að umboðsmenn Tryggingastofnunarinnar annist um þetta yfirleitt. Ég minnist þess, að ég heyri stöku sinnum auglýsingar í útvarpinu frá einum sýslumanni, sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, þar sem hann tilkynnir, að hann verði á ákveðnum dögum á þingstöðum hreppanna í sínu umdæmi og borgi þar út lífeyri og annað fyrir almannatryggingarnar. Ég hef nú sérstaklega tekið eftir þessum auglýsingum, en það getur vel verið, að fleiri sýslumenn hafi þennan hátt á að ferðast um eða láta ferðast um héruðin og borga þetta út á þingstöðunum. Mér er ekki kunnugt um það. En ég held, að þetta sé ekki vel hentugt fyrirkomulag. Þetta kostar þá, sem eiga von á greiðslum frá tryggingunum, að gera sér ferð á þingstaðina til að sækja peningana, en þangað eiga þeir yfirleitt ekki önnur erindi. Ég held, að það væri hentugra fyrir þetta fólk, ef bankaútibú eða sparisjóður, sem starfaði á þeirra verzlunarstað, annaðist um þessar greiðslur, því að þangað liggja yfirleitt leiðir manna úr héruðunum. Og þá gætu líka sýslumenn sparað sér ferðalög út um sveitir til að borga þetta út. Mér finnst því, að það væri full ástæða til þess að kanna það, hvort það mætti ekki koma þessu öðruvísi fyrir á hagkvæmari hátt og um leið að spara einhver útgjöld. Þó að þessu yrði ekki komið á samtímis um land allt, gæti orðið af því gagn eigi að síður, og ég hygg, að ef þetta yrði athugað og að þessu ráði yrði horfið, mundi þetta fyrst og fremst verða tekið upp í stærstu kaupstöðunum eins og t.d. hér í Reykjavík. Við vitum það, að hér í höfuðhorginni eru margir bankar og þjónustustarfsemi banka er fullkomin hér. Og mér þykir bara mjög sennilegt, að bankarnir mundu fást til þess að taka þetta að sér, þessar greiðslur, eða annast þær fyrir það lítið gjald, að þar gæti orðið um sparnað að ræða.

Ég vil að vísu ekkert fullyrða um þetta, till. mín er aðeins um það að kanna þetta mál og það kostar ekki mikið að athuga málið. Og ég vil benda á það, sem reyndar ætti að vera óþarfi, að þessi till. mín, sem er um þessa viðbót við bráðabirgðaákvæðið, raskar ekki á nokkurn hátt efni þess frv., sem hér liggur fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að skýra þessa till. mína með fleiri orðum, vænti þess, að öllum hv. þdm. sé það ljóst, hvað hér er á ferð, og vænti þess, að þeir geti á þetta fallizt, að þessi athugun verði látin fara fram.