15.12.1967
Neðri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

76. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjhn. Nd. hefur ekki getað orðið sammála um þetta frv. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. leggur til, að það verði fellt.

Með frv. er gert ráð fyrir að heimila ríkisstj. að leggja söluskatt ofan á gjöld pósts og síma. Nú er það hvort tveggja, að minni hl. n. lítur svo á, að með gengisbreytingunni aukist tekjur ríkissjóðs mikið og að á því sé enginn vafi. Á hinu leitinu er það öllum lýðum ljóst, að kostur þegnanna þrengist um þessar mundir, það þarf ekki að rökstyðja þá fullyrðingu hér með mörgum orðum. Kvartanir berast hvaðanæva. Síðast í gærkvöldi komu fréttir af fundum verzlunarmanna og þar voru samþ. mjög ákveðnar ályktanir í þá átt, að ekki gæti verzlunarstéttin þolað þær aðgerðir, sem nú er verið að framkvæma. Þannig er það á einu leitinu, að okkar dómi, alveg augljóst, að frv. er algerlega að tilefnislausu fram komið. En hér við bætist svo það, að enda þótt það væri nú talið nauðsynlegt að hækka gjaldskrár pósts og síma, virðist okkur þetta vera fráleitasta aðferðin til þess að framkvæma slíka hækkun. Póstur og sími eru hreinar ríkisstofnanir, og stjórnarvöldin hafa það algerlega í sínum höndum að hækka gjaldskrár þessara fyrirtækja, þegar þeim þykir ástæða til. Okkur sýnist það alveg fráleitt, þó nú að stjórnarvöldum sýnist það rétt að hækka þessi gjöld, og það er kannske í samræmi við stefnu þeirra um þessar mundir að slaka í engu til á gjaldheimtunni að fara nú að reikna út söluskatt af þessum gjöldum. Manni er það satt að segja ekki ljóst, hvernig bað yrði framkvæmt, t.d. af frímerkjasölu. En það liggur í augum uppi, að það væri töluverð fyrirhöfn og það gerði bókhald þessara fyrirtækja töluvert þyngra í vöfum en það nú er, að taka upp slíkan útreikning, og er þó sjálfsagt sízt á bætandi þar fremur en annars staðar í stjórnkerfinu.

Minni hl. fjhn. leggur til, að frv. verði fellt.