19.12.1967
Efri deild: 39. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

76. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur fjallað um þetta frv., og hæstv. fjmrh. hefur veitt n. ýmsar upplýsingar. N. hefur ekki getað orðið ásátt um afgreiðslu frv. Meiri hl. leggur til, að það verði samþ., en efni þess er, eins og kunnugt er, að felld sé niður undanþága fyrir póst- og símaþjónustu frá söluskatti, þannig að söluskattur verði greiddur af henni svo sem annarri hliðstæðri þjónustu.

Hæstv. fjmrh. hefur þó veitt þær upplýsingar, að það fari eftir atvikum, hvort hann mundi veita pósti og síma undanþágu eftir sem áður skv. þeirri heimild, sem hann hefur í l. um söluskatt í þeim efnum. Þannig er spurningin um það, hvort hv. d. vill fallast á að veita fjmrh. þessa heimild og leggja það í hans vald, hvort um greiðslu söluskatts verður að ræða af þessari þjónustu. Meiri hl. fjhn. taldi rétt að veita hæstv. ráðh. þessa heimild.

Persónulega vil ég láta í ljós þá skoðun mína. að ástæða sé til þess að kanna, hvort rekstur á vegum þess opinbera eigi ekki í víðtækari mæli en nú að greiða opinbera skatta og gjöld. Þótt segja megi, að verið sé að flytja á milli vasa hjá sama aðila, gæti af þessu skapazt betri grundvöllur til samanburðar á hagkvæmni opinbers reksturs og þjónustu á ýmsum sviðum.