19.10.1967
Sameinað þing: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

1. mál, fjárlög 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er dálítið ömurlegt að sitja undir umr. hv. stjórnarandstæðinga hér í kvöld, ekki vegna þess að það sé neitt nýtt að hlusta á þann málflutning, sem þar er fluttur, heldur vegna hins, að við stöndum nú andspænis svo alvarlegum vandamálum, ekki ríkisstj., heldur þjóðfélagið í heild, að það verður að vænta þess, að menn tali um vandamálin á dálítið annan hátt heldur en í æsingatón og hótanatón. Það kann vel að vera, að það sé hægt með æsingum að fá fram það, sem hv. síðasti ræðumaður talaði hér hlakkandi um áðan, að það væri hægt að sameina verkalýð landsins til þess að lama atvinnuvegina, stöðva þjóðfélagið. (Gripið fram í: Hvað verður úr ríkisstj. þá?) Ég held, að það skipti minnstu máli, hvað verður úr ríkisstj. Það skiptir mestu máli, hvað verður úr þjóðinni. Það, sem þarf að horfast í augu við nú í dag, er alvara, sem snertir hvern einasta þjóðfélagsborgara og sem er lífsnauðsyn, að verði snúizt við með réttum hætti. Við erum ekki á þeim tímum í dag, að það sé hægt að leyfa sér að halda uppi áróðri einum saman, vafningum, eins og hér hefur verið gert, heldur þarf að horfast í augu við vandamálin af raunsæi og alvöru. Það er í rauninni ákaflega erfitt að ræða við menn, sem ekki vilja með neinu móti ræða vandamálin málefnalega. Það er furðulegt að hlusta á reynda þm. halda því fram, að ríkiskassinn og afkoma hans komi þjóðinni í raun og veru ekkert við, það sé eitthvert einkamál ríkisstj., hvernig fari um hag ríkissjóðs og skipti atvinnuvegina engu máli, og það, sem sé verið að gera hér með því að brúa 750 millj. kr. bil, sé í rauninni einkamál ríkisstj. og leysi á engan hátt vanda atvinnuveganna. Það er erfitt að ræða málefnalega við menn, þegar þeir koma fram með svona firrur.

Vitanlega er meginvandinn hér vandi atvinnuveganna, og vitanlega hefur vandi ríkissjóðs orðið til vegna þess, að atvinnulifið hefur komizt í það ástand, sem það er í í dag, og það þarf beinlínis mikla aðstoð því til handa. Verðlagi hefur verið haldið niðri með niðurgreiðslum úr ríkissjóði fyrst og fremst vegna atvinnuveganna og við erum nú að tala um það, að við verðum að afla fjár til þess að geta staðið undir þeirri aðstoð, sem útflutningsframleiðslan hefur notið nú á þessu ári og mundi ekki vera hægt að hafa fé til nema með þeim sérstöku ráðstöfunum, sem við erum að ræða um. Það kemur svo raunar líka kynduglega út, þegar annað veifið er verið að tala um, að það sé höfuðnauðsyn að taka nú fyrir vandamál atvinnuveganna, þá væntanlega á þann hátt að auka aðstoð við þá,en hins vegar er talað um, að það sé alveg ástæðulaust, að ríkissjóður fái fé. Mér skilst, að það sé ætlunin, að ríkissjóður eigi að leggja fram aukið fé til atvinnuveganna, beint eða óbeint, annaðhvort með því að afsala sér tekjustofnum eða beinlínis að afla fjár. Í ofanálag kemur svo sá furðulegi málflutningur, að það sé í rauninni enginn vandi hjá atvinnuvegunum, eftir að þessu hefur verið lýst, það hafi enginn aflabrestur orðið og það sé alveg fjarstæða að tala um það, að það sé þess vegna við einhvern alveg sérstakan vanda að glíma núna. Það er jafnan talað um það að vísu, að atvinnuvegirnir séu að sligast núna vegna viðreisnarinnar, en mér er nú spurn, hvað ætli hefði veiðzt mikið af síld núna á þessu sumri, ef viðreisnarskipin hefðu ekki sótt hana út á haf? Ég er ósköp hræddur um, að það hefðu orðið fáar bröndur, sem á land hefðu komið.

Það er reynt að afgreiða þetta vandamál á þann billega hátt að segja, að það sé í rauninni ekkert annað en annars vegar að innheimta betur skatta og hins vegar að spara hjá ríkissjóði. Ég gerði í frumræðu minni grein fyrir því, að það hefði verið lögð á það rík áherzla að synja um allar hækkanir á útgjöldum til ríkisreksturs, en ég gerði jafnframt, að ég hélt, skilmerkilega grein fyrir því, sem öllum hv. þm. er ljóst, að það er með engu móti hægt að koma í veg fyrir vissar hækkanir á þeim útgjöldum. Reynt er svo að tala til tilfinninga manna á þann hátt, að ríkisstj. ætti að reyna að draga úr veizlukostnaði og þ.u.I. til þess að leysa þennan vanda. Ég er ósköp hræddur um, að þó að dregið verði úr öllum veizlukostnaði og öllum veizlum hætt, öllum utanförum hætt, stjórnarráðið lagt niður og allar þess nánustu stofnanir, mundi það hrökkva skammt til að mæta þeim fjárhagsvanda, 750 millj. kr., sem hér er við að glíma. Svona má ekki taka á málunum. Hv. þm. Lúðvík Jósefsson sagði, að þeir hefðu ótal sinnum minnt á sparnaðarráðstafanir. Það er rétt. Hann taldi upp nokkra liði og sagði, að ótal margt annað mætti telja. Þeir hafa komið með þessa liði ár eftir ár og aldrei neina aðra liði, þannig að það virðist vera, að sparnaðarhugsjónirnar og —hugmyndirnar séu þrotnar, þegar þeim dæmum er lokið, og sannleikurinn er sá, að þó að allt hafi verið gert, sem þeir leggja til, er þar aðeins um örfáa milljónatugi að ræða til þess að mæta þessu reikningsdæmi, sem við nú stöndum andspænis. Það er staðreynd, að núv. ríkisstj. hefur tekið skattrannsóknamálin alveg nýjum tökum og það var eftirtektarvert, þegar hv. þm. Lúðvík Jósefsson var að vitna í þá dóma, sem nú hafa verið kveðnir upp, þungir dómar út af misferli í skattamálum, að mér er ekki minnisstætt, að slíkir dómar hafi nokkurn tíma áður verið kveðnir upp og bendir það ekki einnig til þess, að nú séu þessi mái tekin öðrum og traustari tökum heldur en var, meðan jafnvel hv. þm. Lúðvík Jósefsson var í ríkisstj.? Þá var lítið gert af skattrannsóknum og býst ég þó varla við, að neinn treysti sér til að halda því fram, að þá hafi engin skattsvik átt sér stað.

Vitanlega hafa útgjöld ríkissjóðs vaxið, en sannleikurinn er sá, að útgjöld ríkissjóðs hafa þó, þrátt fyrir allt, ekki vaxið meira heldur en þjóðarframleiðslan undanfarin ár. Það er talað um, að niðurgreiðslurnar komi illa við almenning og yfirleitt allar þessar álögur. Vitanlega koma þær illa við almennning. En það tjóar ekki að horfa á það eitt saman. Það verður þá að benda á úrræði, sem koma betur við almenning, og það er það, sem verið er að auglýsa eftir. Það er vandalítið að tala til almennings um það, að niðurgreiðslurnar séu teknar af fátæku fólki. Vilja menn taka þetta fé með einhverjum öðrum hætti og af hverjum á að taka það? Manni skilst, að atvinnuvegirnir þoli ekki meiri kvaðir, þannig að erfitt er að sjá, hvar á að taka peninga. Það er nauðsynlegt að leggja áherzlu á það, að miklum niðurgreiðslum er vitanlega enn haldið áfram, þrátt fyrir þá lækkun þeirra, sem hér hefur átt sér stað. T.d. er smjör enn þá niðurgreitt um 43% af verði þess, mjólk í flöskum er niðurgreidd um 37% og kjöt er niðurgreitt enn þá um 18%. Það, sem hefur verið fellt niður, eru aðeins niðurgreiðslurnar, sem voru lögleiddar á s.l. hausti.

Því hefur verið óspart haldið hér fram, að ríkið reyndi ekki að spara. Hins vegar hefur verið vegið að ríkisstj. jafnmikið hér af hv. talsmanni Framsfl. fyrir það að verja ekki enn þá meira fé einmitt nú á næsta ári í þessu fjárlagafrv. til alls konar framkvæmda í landinu. Þannig rekur sig eitt á annars horn.

Núv. stjórnarflokkar hafa lagt fram sínar till. Þær till. hafa fengið þá dóma, sem menn hafa heyrt hér í kvöld, en spurningin er aðeins eftir þessi: Hvaða úrræði eru fyrir hendi? Þau úrræði hafa ekki fengizt fram í þessum umr. Hins vegar höfðu núv. stjórnarandstöðuflokkar einu sinni aðstöðu til að sýna, hvað þeir gerðu í þessum efnum, og þó að það þjóni ekki miklu að vera að rekja söguna langt aftur í tímann, er það þó lærdómsríkt vegna þess, að það eru einu dæmin um það, hvernig núv. stjórnarandstöðuflokkar halda á málum, þegar þeir ráða í reynd og tala ekki aðeins hér háum stöfum í sölum Alþingis. Þeir voru saman og mynduðu meiri hluta vinstri stjórnarinnar á sínum tíma. Fyrsta verk þeirrar stjórnar var að fella bótalaust niður 6 vísitölustig, sem svaraði til 3% kjaraskerðingar, sem nú er talin dæmalaus óhæfa. Aðeins fáum mánuðum síðar kom svo jólagjöfin fræga: 238 millj. í nýjum álögum, sem mundu svara til 1100 millj. nú, miðað við sama hlutfall af þjóðarframleiðslunni. Og þessar álögur fengu launþegar aðeins að litlu leyti bættar. Næstu stórálögur urðu svo í maí 1958. Þær álögur námu 344 millj. kr. umfram launahækkun þá, sem veitt var, og mundi samsvarandi tala vera í dag 1280 millj. Lokaafrekið var svo það að leggja til, aðeins nokkrum mánuðum seinna, að skerða kaupgreiðsluvísitölu um 17 stig. Mér hugkvæmist ekki að halda því fram, að þessar aðgerðir vinstri stjórnarinnar hafi verið ástæðulausar, miðað við þá efnahagsstefnu, sem hún fylgdi. En er það ekki að ganga einum of langt, þegar stjórnarandstæðingar með þessa afrekasögu að baki telja sig þess umkomna að fordæma efnhagsstefnu núv. ríkisstj. og till. hennar til að mæta vanda, sem er miklu meiri en vinstri stjórnin þurfti nokkru sinni að standa andspænis, en er þó einmitt vegna skynsamlegri stjórnarstefnu nú hægt að mæta með miklu minni kjaraskerðingu en vinstri stjórnin varð að grípa til? Sumir kunna að segja, að lítið sanni aðgerðir vinstri stjórnarinnar um viðbrögð stjórnarandstæðinga, ef þeir mættu ráða nú. En sannleikurinn er því miður sá, að að svo miklu leyti sem hægt er að fá nokkra brú í stefnu stjórnarandstæðinga nú, virðist hún bera óhugnanlega mikinn keim af vinnubrögðum vinstri stjórnarinnar, en þeim hagstjórnaraðferðum hefur verið hafnað af öllum þróuðum löndum í dag.

Hv. stjórnarandstæðingar segja, að vandamálin séu algerlega óleyst, þrátt fyrir þær till., sem fram hafi verið bornar. Vitanlega er þetta algerlega út í hött. Þó að hér sé verið að leysa vandamál ríkissjóðs, er um leið verið að leysa vanda atvinnuveganna, eins og hann er í dag og eins og bezt verður um hann vitað, þegar fjárlagatill. eru gerðar. Hvort frekari aðstoð þarf að koma til, það er mál, sem er í athugun nú og enginn getur fullyrt um. Það er auðvitað undirstöðuatriði, að framleiðslan geti gengið, og þjóðin verður að taka á sig þær kvaðir, sem til þess þarf. En þá er líka grundvallaratriðið að mæta þó fyrst, með nauðsynlegum hætti, þeim vanda, sem við vitum, að við stöndum andspænis, áður en við förum að stíga næsta skref.

Nei, því miður er það sorglega staðreyndin, sem við okkur blasir eftir þessar umr. í kvöld, að það hefur enginn orðið neinu fróðari um það, hver sé raunveruleg stefna stjórnarandstæðinga í þessum vandamálum, sem þeir segja, að skipti höfuðmáli nú, annað en almennar hugleiðingar um það, að það þurfi að koma atvinnuvegunum á traustan grundvöll. Hvernig eigi að gera það, hefur ekki heyrzt nokkurt orð um. Leiðin til að leysa vandann, sagði hv. talsmaður Framsfl. hér, væri það að gera sér grein fyrir honum. Vissulega er það rétt. En það verður ekki gert með innihaldslausum áróðri, sem á að láta vel í eyrum allra. Það tjóar ekki að neita að horfast í augu við þá staðreynd, að 750 millj. kr. vantar til að jafna halla á fjárl. með einum eða öðrum hætti. Þetta fé vantar fyrst og fremst til að mæta vandamálum atvinnuveganna, en ekki til þess að mæta einhverjum sérstökum útgjöldum í ríkisrekstrinum. Því gerði ég mjög rækilega grein fyrir í minni framsöguræðu, að aukning fjárlaga af þeim ástæðum er ekki nema 1,8%, og mun ekki hafa áður þekkzt, a.m.k. um langan aldur, að fjárlagafrv. hafi ekki hækkað meira frá ári til árs eða hinn almenni ríkisrekstur.

Að skella skollaeyrum við staðreyndunum, sem við blasa, er því tvímælalaust að bregðast skyldu sinni sem þingfulltrúi. Það má deila um leiðirnar efnislega, en að velja þá aðferð að forðast efnislegar umr. til þess að losna við að nefna úrræði, sem koma við einhverja, er ábyrgðarleysi, og við vitum í dag, að það eru ekki til nein úrræði í þessum vanda önnur en þau, sem koma við einhverja í þjóðfélaginu. Þetta skulum við alveg gera okkur ljóst. Við getum haft mismunandi skoðanir á því, hvernig þessar byrðar eigi að jafnast niður, en það liggur í augum uppi og þjóðin er allt of skynsöm til þess að skilja ekki þá staðreynd, að þegar þjóðarbúið missir 1500 millj. kr. tekjur á einu ári, þurfi ekki neitt að gera og það sé hægt að ana áfram, án þess að horfast í augu við það vandamál, sem skapast af þessum ástæðum. Það er grundvallarnauðsyn, að þjóðin geri sér rétta grein fyrir eðli þessa vandamáls, sem nú er við að fást. Það er því illt verk að reyna að villa um fyrir fólki. Hverjum þetta eða hitt sé að kenna, má ekki verða kjarni umr. um vandamálin, heldur málefnalegt mat aðstæðna og úrræða. Ríkisstj. hefur lagt fram sínar till., svo sem vera ber, og vitanlega er ekki hægt að láta við það sitja að fordæma þessar till. og reyna að æsa til úlfúðar gegn þeim. Stjórnarandstaðan ber einnig ábyrgð gagnvart þjóðinni á jafnalvarlegum tímum. Hún kemst ekki undan því að benda á önnur úrræði, er æskilegri séu eða léttbærari, ef hún vill láta taka mark á árásum sínum á þær till., sem ríkisstj. hefur gert. Ríkisstj. heldur því ekki fram, að hennar till. séu þær einu réttu, en meðan ekki er bent á úrræði, er séu þjóðinni léttbærari, hlýtur hún að fara sínar leiðir. Ríkisstj. vill af alvöru skoða allar till., sem raunsæjar geta talizt, en því miður hafa áróðursræður stjórnarandstæðinga til þessa ekki gefið mikla von um ábyrga afstöðu úr þeim herbúðum.

Verkalýðshreyfingin hefur óskað viðræðna og ber að fagna því. Allir vona, að þar ráði jákvæð viðhorf og gifta þjóðarinnar reynist næg til þess að fá nægilega samstöðu um nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fleyta þjóðinni yfir þá alvörutíma, sem hún nú lifir á. Það er ástæðulaust, eins og ég sagði í lok minnar frumræðu, að vera með óeðlilega svartsýni. Það, sem meginmáli skiptir, er að kunna að bregðast rétt við örðugleikunum, takast með raunsæi á við þá, forðast áróður og moldviðri, en reyna í fullri alvöru, hvar sem menn eru í flokki og hvar í stétt, að láta ekki við það eitt sitja að mótmæla og mótmæla, heldur að gera sér grein fyrir því, að það er framtíð þjóðarinnar, sem er hér í veði, ef ekki tekst að leysa þessi mál á giftusamlegan hátt. — Góða nótt.