11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

1. mál, fjárlög 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru tvö atriði, sem ég vildi minnast á í ræðu hv. 6. þm. Sunnl. Fyrra atriðið var það, að hann leggur til í einni till. sinni, að veittar verði 600 þús. kr. til orlofsheimilis Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Svo sem hann réttilega gat um, afhenti ríkisstj. á nýafstöðnu afmæli bandalagsins því land fyrir orlofsheimili, og það gefur raunar auga leið, að það er ekki hægt að gera mikið á því landi, nema einhver fjárráð séu til staðar. Það er ljóst og eðlilegt, og ég tel heldur ekkert óeðlilegt við það, að ríkið leggi eitthvert fé af mörkum til þess að greiða fyrir þessum framkvæmdum opinberra starfsmanna, eins og gert hefur verið við Alþýðusamband Íslands, því að það má segja, að í rauninni sé þá ríkinu vandameira við sína eigin starfsmenn. Ég vildi aðeins láta það koma hér fram út af þessari till., að þetta mál er í athugun, og mun verða gerð ákveðin till. um það fyrir 3. umr., þannig að ég teldi æskilegt, að hv. þm. vildi af þeirri ástæðu taka þessa till. sína aftur.

Þá var síðara málið, sem er að vísu alvarlegt mál. Það er um vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Ef mér leyfist kannske eins og hv. þm. að líta svolítið á till. hans gamansömum augum, enda fannst mér hann ekki geta stillt sig um það, því að hann er nú gamansamur maður, þó að alvarlega þenkjandi sé einnig í lok ræðu sinnar, að bregða nokkuð á glens yfir þessari till. Ég hef nefnilega aldrei séð nein rök fyrir till. önnur en þá hugsanlegast þau, að það vantaði vatn í Eyjum til að blanda í áfengið. Ég held, að það séu einu hugsanlegu rökin fyrir að flytja till., og eru þau rök þó raunar nokkuð langsótt. En sannast sagna er það rétt, að hér er um stórmál að ræða, sem auðvitað getur aldrei orðið leyst með þessum hætti, og það veit ég nú, að hv. þm. gerir sér fulla grein fyrir. Hann er það þingvanur maður, fyrrv. fjvn.- maður, að hann þekkir öll vinnubrögð í því sambandi, að það eru auðvitað engin haldbær rök fyrir því að fara þessa leið. Það minnir nú nánast á „hina leiðina“, til þess að leysa þennan vanda. Það er svo fjarstætt. En hitt er annað mál, að það er mikið vandamál með vatnsveituna í Eyjum, og eins og hv. þm. mun vafalaust kunnugt var búið að vinna mikið í því máli og hafa farið fram rækilegar athuganar á því í Efnahagsstofnuninni í samráði við bæjaryfirvöld í Eyjum og það var gengið út frá ákveðinni aðstoð til Vestmanneyinga í sambandi við þetta mál eftir eðlilegri leið, þ.e.a.s. í sambandi við l. um aðstoð til vatnsveitna, sem er auðvitað hinn eðlilegi grundvöllur til þess að standa á í þessu sambandi. Það er svo annað mál, hvort mikil verðhækkun á þessari vatnsveitu gerir nauðsynlegt að endurskoða þær áætlanir, sem þá vora gerðar. Það tel ég vel geta komið til álita að gera, og það er auðvitað ljóst, að það verður einhvern veginn að stuðla að því, að Vestmanneyingar ráði við þetta mikla og erfiða vandamál. En ég tel, að það, sem eðlilegast væri að gera í því efni, væri, að bæjaryfirvöld Vestmannaeyja hefðu þá samband við viðkomandi rn. og Efnahagsstofnunina um það að athuga það mál niður í kjölinn, hvort ástæða er til þess að gera þar breytingar á, og þá kemur vitanlega til álita, hvort á að auka með einhverjum hætti aðstoðina við Vestmannaeyjar, og þá, mundi ég segja, eftir þeirri eðlilegu leið, sem l. um aðstoð til vatnsveitna gera ráð fyrir. Ég tel ekkert óeðlilegt að impra á málinu, en ég get ekki fallizt á, að það sé eðlileg leið, sem hv. þm. talar um, þó að hann að vísu lofi því, að Vestmanneyingar muni hamast við að drekka sem mest, til þess að þetta mundi ekki verða aukinn baggi fyrir ríkið. Ég skal engum getum að því leiða, en það vill nú svo til a.m.k. að Vestmanneyingar drukku töluvert, áður en útsalan var sett á laggirnar, þannig að ekki eru það nú allt hreinar tekjur, sem frá henni koma.