11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

1. mál, fjárlög 1968

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég flyt hér eina brtt. Hún er um það, að við liðinn Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins í fjárl. komi aths., er hljóði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt er að veita nokkrum öðrum en sendiherrum og sendifulltrúum erlendra ríkja afslátt frá hinu ákveðna útsöluverði á vörum verzlunarinnar. Þó má veita Eimskipafélagi Íslands h.f., Skipaútgerð ríkisins og Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli afslátt á verði á vörum, enda séu þær eingöngu seldar farþegum í utanlandsferðum, en komi ekki til neyzlu innanlands.“

Till. er sú 4. í röðinni á þskj.129.

Brtt. mín felur það í sér, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins skuli hætta að veita einstökum mönnum afslátt frá verði á vörum verzlunarinnar. En eins og kunnugt er, hafa ráðh. og fáeinir menn aðrir fengið vörur hjá verzluninni fyrir langtum lægra verð, en aðrir viðskiptamenn þurfa að borga.

Fyrir nokkrum árum voru launakjör ráðh. bætt verulega. Það tel ég, að hafi verið rétt að gera. En eftir þær kjarabætur eru þeir vissulega færir um að borga sjálfir mat og drykk handa sér og sínum, og ekki er sjáanlegt, að þeir hafi þörf fyrir styrk frá einni ríkisverzlun til að rísa undir þeim útgjöldum.

Um þessar mundir tala hæstv. ráðh. mjög um það, að nú verði allir landsmenn að taka á sig byrðar vegna erfiðleika, sem steðjað hafi að atvinnuvegunum. En um leið og þeir hugsa og mæla á þann veg og haga framkvæmdum í samræmi við það, ætti þeim og stuðningsmönnum þeirra á þingi að vera ljóst, að það er ósæmilegt, að nokkrir fyrirmenn í þjóðfélaginu skammti sér sjálfum hlunnindi hjá ríkisverzlun, sem aðrir njóta ekki.

Ég hef oft flutt till. um þetta efni á Alþ., bæði áður og eftir að núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda, ýmist einn eða með öðrum. En þær hafa ekki hlotið samþykki. Stuðningsmenn núv. hæstv. stjórnar hafa ætíð greitt atkv. á móti till. Lítur út fyrir, að þeir hafi gert það að flokksmáli að vera á móti þessari leiðréttinga. Meðal þeirra, sem hafa greitt atkv. gegn till. mínum, eru núv. hæstv. ráðh., svo og þingforsetar, a.m.k. í seinni tíð, og hefur komið fyrir ekki, þó að þeim hafi verið bent á ákvæði í þingsköpum, sem mælir svo fyrir, að alþm. sé ekki heimilt að greiða atkv. með fjárveitingum handa sjálfum sér. Vil ég enn vekja athygli á þessu ákvæði þingskapanna.

Eins og hér hefur verið lýst, hefur mikill meiri hl. þeirra manna, sem nú sitja á Alþ. og styðja núv. hæstv. ríkisstj., fallið á þessu prófi og margir þeirra oft. E.t.v. er lítil von um, að þeir hafi sig upp héðan af, en þó er þeim enn gefinn kostur á að þreyta prófið. Nú eiga sæti hér á hv. Alþ. 6 alþm., er fylgja stjórnarflokkunum að málum, sem ekki hafa áður setið á þingi, nema nokkrir þeirra fáar vikur sem varamenn. Þeir hafa því ekki áður gengið undir próf í þessari grein. Hvað segja þeir um þetta mál? Hljóta þeir ekki að viðurkenna, að rétt sé að afnema þau sérréttindi, sem fáeinir menn njóta í skiptum við Áfengisverzlun ríkisins? M.ö.o., hvernig reiðir þeim af á prófinu? Standast þeir það eða falla? Mér mun þykja leiðinlegt, bæði vegna þeirra og Alþingis, ef þeir falla á prófinu.