19.12.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

1. mál, fjárlög 1968

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef hugsað mér að segja hér nokkur orð um menningarmál og vildi þá mjög óska þess, að yfirmaður þeirra mála, hæstv. menntmrh., væri í kallfæri við mig. Ég vil því fara fram á það við hæstv. forseta, að hann geri mér þann greiða að kanna, hvort hæstv. menntmrh. er hér svo nærstaddur, að það sé hægt að hafa samband við hann til að vita, hvort hann gæti verið í sínu sæti hér á Alþ. um stund. Ég get nú raunar aðeins byrjað mína ræðu, því að það er hér inngangur, sem ekki snertir þann sérstaka ráðh. sérstaklega.

Fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er að þessu sinni í nýju formi. Þetta er mikil bók, upphaflega 227 blaðsíður. Hópur valinna þm. er búinn að fletta bókinni í nokkrar vikur og kynna sér efni hennar. Það verð ég að segja, að þeim mönnum er ekki fisjað saman, ef þeir eru búnir að læra kverið. Meiri hl. af þessu stóra riti hefur að geyma sundurliðun á þeim gjöldum, sem ætlazt er til, að ríkissjóður borgi á næsta ári. Þeir eru orðnir margir pinklarnir á Magnúsar-Skjóna og þungir, þegar þeir koma allir saman. Það er margt og af ýmsu tagi, sem má sjá í þessari bók. Í henni má m.a. sjá, að núv. hæstv. ráðh. eru miklir ferðamenn, en það er ekki nýtt í sögunni, að Íslendingar ferðist. Þeir hafa átt erindi til útlanda á öllum tímum. Í gamla daga fóru þeir allt suður til Rómaborgar á fund páfans, sem lengi var æðsti maður kirkjunnar hér á landi, og yfirstjórn landsins í veraldlegum efnum var lengi utanlands. Á þeim öldum þurftu Íslendingar að ferðast til Kaupmannahafnar á fund kóngsins og annarra stjórnarherra. Nú er stjórnin komin inn í landið, en þó telja menn sig oft eiga erindi til annarra landa. Fyrr á öldum voru ferðalög til útlanda ákaflega erfið. Þá voru menn lengi að velkjast á hafinu á seinfærum skipum, sem ekki myndu þykja nothæfir farkostir á okkar tímum. Nú er öldin önnur. Nú fara menn í loftköstum til útlanda á fáum klukkustundum. En þrátt fyrir það eru núv. hæstv. Íslandsráðh. stundum svo þjakaðir eftir ferðalögin og setur í fínum veizlum, að þeir eru hálfvegis miður sín í námunda við útlendinga. Þetta er einn þátturinn í andlegri gengislækkun síðustu ára.

Margar ríkisstofnanir koma við sögu í fjárlagafrv. Ein af þeim nefnist Ríkisútgáfa námsbóka. Hennar er getið í menntamálakafla frv., eins og eðlilegt má kalla, og hún heyrir undir hæstv. menntmrh. Hann skipar stjórn fyrir stofnunina og er æðsti yfirmaður hennar. Á því ári, sem nú er senn liðið, gaf ríkisútgáfan út bók, sem ber heitið „Nútímaljóð handa skólum“. Þar birtast verk eftir tólf íslenzka höfunda, sem allir eru 20. aldar menn. Ég hef komið auga á þessa bók og mig langar til að vekja athygli á henni hér með nokkrum orðum og jafnvel lesa upp nokkrar setningar, sem hún hefur að geyma, ef hæstv. forseti vill vera svo góður að leyfa mér það. Eitt af mörgu, sem þar er prentað handa skólum, er á þessa leið:

„Hljóðlega ekur þú í þetta sinn þungfærum gripavagni drottinn minn. Hver er úti?“

Hvaða vagn ætli þetta sé, sem skáldið er hér að lýsa, og hvað hefur hann að geyma? Mér hefur komið í hug, að þarna væri höfundur að lýsa ferðalagi núv. hæstv. ríkisstj. Ég er þó engan veginn viss um þetta. Sumt mælir með því, að svo gæti verið, en annað á móti. T.d. fyrsta orðið „hljóðlega“, getur tæpast átt við stjórnarvagninn, því að það er mikið skrölt í honum. Hins vegar gefa orðin „í þetta sinn“ í skyn, að drottinn aki ekki vagninum að staðaldri og það getur vel átt við stjórnarvagninn, því að manni sýnist, að þar grípi annar oft í stýrið, og „þungfærum gripavagni“ getur einnig átt þar við, því að auðvitað er sá vagn þungfær, sem flytur alla hæstv. ríkisstj. og hennar hafurtask. Eins og ég sagði áðan, tel ég mig ekki geta skýrt þetta, svo að öruggt sé, og svo er um fleiri verk í bókinni. En við alþm. ættum ekki að þurfa að veikjast lengi í vafa um þessi atriði, því að við erum svo vel settir að hafa hér á meðal okkar æðsta mann ríkisútgáfunnar, sjálfan hæstvirtan menntmrh. Auðvitað hefur hann sem slíkur fullkominn skilning á þessu öllu, og ég tel víst, að hann sé fús til þess að halda ræðustúf yfir okkur og útlista þar efni ljóðanna í bókinni, ef þess verður óskað, en hann er sem kunnugt er þaulvanur ræðuhöldum.

Á einum stað í bókinni eru þessar línur: „Sannleikur. Tvær stúlkur á einhverri sæ- og sólbitinni strönd“. Svo koma níu orð innan sviga og þau eru svona: „Tjörukeimur og salts blandast heilt sumar á tungu þeirra“. Síðan er framhaldið á þessa leið, svigalaust: „Tvær stúlkur sem virtust algerlega eins og voru með öllu ósambærilegar“. Fróðlegt væri að fá skýringar hæstv. menntmrh. á þessu, og ekki síður á því, sem hér fer á eftir og er á öðrum stað í bókinni:

„Það tendrar loga í leyndinni,

allt lendir í fumi hjá greindinni

og tvennt verður eind,

og eind verður neind,

ein endileysa í reyndinni.“

Í bókinni eru líka verk, sem segja má, að ekki sé örðugt að skilja, eins og t.d. þetta:

„Svo álfamærin undurfríð og góð

varð út af þessu ljótum sorgum slegin

og sagði við Ólaf sinn:

Sjáðu nú, garmurinn.

Leiðist mér þessi leikur einhvern veginn.“

Svo er í bókinni ljóð um Maríu, sem er að flengja englabörnin smáu með stórum vendi. Það eru aðeins örfá sýnishorn af nútímaljóðum, sem ég hef birt hér. Æskilegt væri að nefna fleira af efni bókarinnar, því að margt er þar merkilegt, en við höfum skamman tíma svona rétt fyrir jólin, og ég læt þessar fáu tilvitnanir nægja í bili.

Það er gæfa hverri þjóð að hafa menntmrh., sem skilur að æskufólkið þarf að eiga þess kost að fá gott lesefni. Um síðustu aldamót komu út skólaljóð, Kvæðasafn handa unglingum til að lesa og nema, eins og sú bók var nefnd. Þórhallur Bjarnarson, síðar biskup, valdi kvæðin í þá bók og bjó til prentunar. Í henni voru kvæði eftir 22 skáld frá 18. og 19. öld. Ég og mínir jafnaldrar lásum þessi kvæði á okkar æskudögum og lærðum mörg af þeim. Það voru til sönglög við mörg af þeim; mörg af kvæðunum í skólaljóðunum, eftir innlend og erlend tónskáld og þau voru sungin af mörgum, eldri og yngri. Lögin hafa vafalaust átt mikinn þátt í því, að margir lærðu þessi góðu kvæði. Ég hef ekki heyrt nútímaljóð sungin. E.t.v. vantar sönglög við þau. Hér á landi eru til góðir sönglagasmiðir. Gaman væri að sjá framan í tónskáld, sem vildi semja lög við nútímaljóðin.

Það er fróðlegt að bera gömlu skólaljóðin, sem ég nefndi, saman við nútímaljóðin. Til þess að menn geti haft full not af skáldverkunum í hinni nýju bók, tel ég að lesendur þurfi að eiga þess kost að fá útskýringar á efni þeirra. E.t.v. hefur hæstv. menntmrh. í hyggju að láta ríkið gefa út skýringarrit með ljóðunum. Ég veit það ekki, hef ekki frétt það. Það er mikils vert, að börnin öðlist réttan skilning á því, sem þau eru látin lesa, og þar sem ljóðin eru gefin út handa skólum, þykir mér trúlegt, að strax þegar bókin kom út, hafi hæstv. ráðh. sent hana til Kennaraskólans og falið skólastjóra þess skóla að hlutast til um, að kennaraefnin, sem þar eru við nám, kynni sér skáldverkin sem bezt og búi sig undir að geta skýrt efni þeirra glögglega fyrir börnum og unglingum, sem þeir eiga að kenna, þegar þeir sjálfir hafa lokið kennaraprófi.

Það er mín skoðun, að framtak einstaklinganna þurfi að hafa hæfilegt svigrúm í okkar þjóðfélagi. Ég tel því, að vel hefði mátt lofa einkaframtakinu að fást við úfgáfu og sölu á verkum hinna ungu skálda. En hæstv. menntmrh. hefur talið, að þetta ætti að vera verkefni ríkisins og ríkisstj., og hæstv. fjmrh. virðist hafa verið honum sammála um það.

Um þessar mundir eru liðin 8 ár síðan Sjálfstfl. og Alþfl. mynduðu samsteypustjórn hér á landi. Þá stóð mikið til að þeirra sögn. Gefin var út prentuð ferðaáætlun á kostnað almennings og henni dreift um landið. Samkv. þeirri áætlun ætlaði stjórnin að leiða þjóðina upp á sólroðna tinda og þar átti hún að vermast, því að nú skyldi sótt á brattann. En sú ferð var aldrei farin. Stjórnin komst ekki upp brekkuna. Hún datt aftur á bak strax við fjallsræturnar. Og hún er löngu hætt að minnast á ferðaáætlunina frægu. En þrátt fyrir það eru hæstv. ráðh. orðnir örþreyttir af amstri stjórnaráranna. Þeir þurfa að fá hvíld og þjóðin á skilið að fá hvíld frá þeirra ráðsmennsku. En þegar núv. hæstv. ráðh. hverfa úr ráðherrastólunum, þurfa þeir að fá eitthvað til að dunda við sér til dægrastyttingar. Það er till. mín, að þá sendi Ríkisútgáfa námsbóka hverjum þeirra eitt eintak af Nútímaljóðunum, sem hún gaf út 1967. Þeir geta þá skemmt sér við að lesa þau og haft það göfuga viðfangsefni að reyna að læra utan að ljóðin í þessari fallegu bók.

Núv. ríkisstj. er búin að lækka gengi íslenzku krónunnar þrisvar sinnum á valdatíma sínum. Hún segist ætla að halda óbreyttri stefnu og samkv. því ætlar hún að undirbúa fjórðu gengislækkunina. Gengislækkanir gjaldmiðilsins með stuttu millibili hafa skaðleg áhrif í efnahagslífinu. En hin andlega gengislækkun er þó öllum krónulækkunum verri.