19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

1. mál, fjárlög 1968

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. flutti ég nokkrar till. til breytinga og dró þær síðan til baka, til þess að fjvn. og önnur fjármálayfirvöld gætu tekið þær til athugunar, og ég vil ekki láta hjá líða að þakka þeim fyrir, að þau hafa að verulegu leyti gengið til móts við þessar till. mínar, svo að í flestum tilfellum má þar sæmilega vel við una. Og raunar eru til dæmi um það, að þeir hafa farið fram yfir mínar óskir. Og sem sagt, ég vil láta í ljósi ánægju mína yfir því. Ég tek þess vegna hinar fyrri till. mínar ekki upp að einni undanskilinni, sem ég flyt hér enn við 3. umr. málsins. Það er brtt. um, að á heimildargr. verði ríkisstj. heimilað að láta 15% af heildarsölu Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins í Vestmannaeyjum árið 1968 renna til stofnkostnaðar Vatnsveitu Vestmannaeyja. Þessa till. flutti ég nú í dálítið víðtækara formi við 2. umr. fjárl. þannig, að ég vildi láta heimildina ná yfir 10 ára tímabil, en ég get að sjálfsögðu skilið það, að n., sem var að undirbúa fjárlög fyrir árið 1968, var ekki reiðubúin til þess að samþykkja heimild, sem náði yfir svo langt tímabil, og því flyt ég till. núna og þá eingöngu miðað við það ár, sem fjárl. eiga að gilda um. Að öðru leyti vitna ég til þess, sem ég mælti fyrir till. í það skipti og hef ekki fleiri orð um hana nú.

Á hinn bóginn var ekki komið svo langt í afgreiðslu fjárl. við 2. umr., að þar lægi fyrir, hvernig fjvn. hugsaði sér fjárveitingar til hafnarmannvirkja. Nú liggur það fyrir, og að athuguðu máli hef ég gert eina till. um breytingu á fjárveitingum til hafnarmannvirkja og lagt til, að til hafnar á Stokkseyri, sem ekki er á þeim lista, sem lagður er fram af fjvn. eða meiri hl. fjvn., að til þess staðar verði ætlaðar 400 þús. kr., sem raunar er smáfjárveiting. Ég tók eftir því, að hv. formaður fjvn. sagði hér í sinni framsöguræðu, að nú væri unnið með nokkrum nýjum hætti að fjárveitingum til hafnarmannvirkja og það mætti í rauninni telja, að nú væri í fyrsta skipti unnið eftir áætlun um framkvæmdirnar, þar sem vita- og hafnarmálastjórnin hefði gert áætlanir um vissa áfanga í hafnargerð. Ég fagna því að vissu leyti, að svo skuli vera, en á þessu er nú að vísu sá galli, að alþm. hafa yfirleitt ekki séð þessa áætlun og er hún því nokkru þokukenndari í hugum manna, heldur en hún máske væri, ef hún hefði verið lögð hér fyrir eða samþ. hér á þinginu. Mér er ekki ljóst, hvort það stendur til að leggja hana hér fyrir til samþykktar eða með hverjum hætti á að framkvæma hana. Ég efast um, að það væri til mikilla bóta, ef það ætti beinlínis að flytja fjárveitingarvaldið til hafnargerðanna beint inn á skrifstofu vita- og hafnarmálastjórnarinnar og gera það eins og Alþ. lítið eða ekki viðkomandi. Ég vil ekki draga í efa, að sérfræðingar í hinum ýmsu greinum geti gert góðar till. um framkvæmdir, en ég tel þó, að það sé ekki nema önnur hlið málsins. M.a. vil ég vitna til þeirrar hafnar, sem ég geri hér till. um, Stokkseyrarhafnar. Það má vel vera, að það sé útreiknanlegt dæmi á skrifstofum í Reykjavík, að hagkvæmara kunni að vera að veita fé í einhverjar aðrar hafnir. En það breytir ekki því, að á þessum stað er byggð. Þar búa sjómenn. Þeir stunda sjó á sínum bátum og þeir munu gera það einnig, þó að þeir fái ekki framkvæmdafé til hafnargerðar á næstu árum. Mér er kunnugt um það, að íbúar þessa héraðs og þeirra hreppsnefnd hefur í hyggju að gera þarna nokkrar framkvæmdir á næsta ári. Þeir hafa í hyggju að setja þarna upp innsiglingarljós og reyndar lýsingu við höfnina á bryggjunni o.s.frv. og nokkrar fleiri minni háttar framkvæmdir. Ég er sannfærður um það, að jafnvel þó að þeir verði gripnir því vonleysi við að eiga ekki von í því að fá fjárveitingu á næsta ári, að allt þetta farist fyrir að meira eða minna leyti, mun þarna áfram verða stundaður sjór. Hann verður bara stundaður við verri aðstæður og aukið öryggisleysi. Ég efast um það, að til slíkra hluta hafi verið tekið fullt tillit á skrifstofu vita- og hafnamálastjóra og þar af leiðandi held ég, að það sé rangt, að fulltrúar þessa fólks hafi ekki einnig eitthvað um málið að segja.

Nú er ekki því að leyna, að ég hef heyrt ávæning af því, að þau yfirvöld, sem hér virðast vera búin að ná undirtökum á hlutunum, muni hafa haft orð um það að taka þessa hafnargerð inn á sína áætlun, þótt síðar yrði. Ég fagna því, ef svo kynni að vera og ef það kæmu fram í umr. málsins hér á Alþingi óyggjandi upplýsingar um, að því mætti treysta, að svo yrði gert kæmi til mála, að ég drægi þessa till. mína til baka, því að ég viðurkenni það, að það er ekki allt málið fyrir íbúa viðkomandi hrepps, fyrir viðkomandi verstöð, hvort þeir fá 400 þús. kr. í ár. Það er líka stórt atriði og máske stærra og reyndar miklu stærra, að þeir komist inn á einhverja verulega framkvæmdaáætlun um þetta, sem þá tæki gildi á næstu árum.

Ég hef svo ekki meira um þessa till. að segja, en vænti þess, að hjá hv. alþm. ríki skilningur á því, að þeir hafa líka hlutverki að gegna og það er ábyrgðarhluti af þingi og stjórn að varpa allri áhyggju slíkra mála yfir á embættismannakerfið í landinu, þó að það hafi sérfræðingum í hafnarmannvirkjagerð á að skipa.