19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

1. mál, fjárlög 1968

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. gerði ég nokkuð að umtalsefni þau vinnubrögð, sem hv. alþm., fjvn.-mönnum og öðrum, er boðið upp á í sambandi við undirbúning og afgreiðslu fjárl. Og ég vil aðeins undirstrika það, að ég tel stefna í algera óhæfu í þessu efni. Við 2. umr. hafði fjvn. t.d. ekki fengið nein gögn varðandi hafnarmálin, eins og ég átaldi þá sérstaklega, og afgreiðsla þessa máls síðan hefur verið í samræmi við það, sem á undan er gengið, og algerlega er óhafandi, að fjvn.- mönnum og öðrum þm. gefist ekki kostur á því að athuga þessi mál ofan í kjölinn áður en þeir taka endanlega ákvörðun um skiptingu hafnarfjárins. Það er sjálfsagt ekki til neins að vera að ergja sjálfan sig og aðra með því að beina huga manna að þessum vinnubrögðum og ekki annað að gera en vænta þess, að allur undirbúningur fjárl. og afgreiðsla verði með skaplegri hætti á næsta ári. Á því er brýn þörf. Hv. 3. þm. Vesturl. hefur gert grein fyrir þeim brtt., sem við, sem skipum minni hl. fjvn., stöndum að sameiginlega. En ég vildi fara hér nokkrum orðum um eina brtt., sem ég flyt ásamt hv. 2. og 5. þm. Reykn.

Þessi till. er á þskj. 199 og efnislega á þá leið, að framlag til Hafrannsóknastofnunar verði hækkað um 1 millj. kr. og þeirri upphæð sérstaklega varið til fiskrannsókna í Faxaflóa. Það hefur löngum verið skoðun manna, að Faxaflói sé mikilvæg uppeldisstöð hinna nytjamestu fiskstofna, og á sínum tíma var það talin hin nauðsynlegasta ráðstöfun til viðgangs þessum stofnum að friða flóann fyrir veiðum með dragnót og botnvörpu. Eftir að sett voru l. nr. 4 9. júní 1960 um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi undir vísindalegu eftirliti, hefur dragnótaveiði verið leyfð í Faxaflóa á ári hverju. Um afleiðingar þeirra ráðstafana hafa staðið miklar deilur meðal þeirra, sem hagsmuna hafa að gæta og láta sér annt um skynsamlega nýtingu fiskimiðanna. Vegna sérstakra fjárhagsörðugleika þeirra, sem gera út hina smærri vélbáta, sem ekki geta stundað síldveiðar, hafa mjög aukizt og orðið háværari kröfur um, að til viðbótar dragnótaveiði smæstu bátanna í Faxaflóa verði þeim bátaflokki, sem ég áðan nefndi, heimiluð veiði með botnvörpu í flóanum. Til alþm. í Reykjaneskjördæmi hafa borizt langir undirskriftalistar frá útgerðarmönnum og skipstjórum um, að þessar veiðar verði leyfðar í Faxaflóa, og verður að sjálfsögðu ekki lengi undan því vikizt, að þeir sem aðrir hv. alþm. taki afstöðu í þessu máli. Eins og ég áðan gat um, eru mjög skiptar skoðanir um það, hver áhrif það hefði á fiskigengd í Faxaflóa og annars staðar, ef veiðar með botnvörpu væru að nýju leyfðar þar. Og jafnhliða kröfunum um leyfi til þessara veiða, heyrast því í ríkum mæli aðvaranir annarra, sem telja, að með slíkum ráðstöfunum yrði viðgangi nytjafiskstofna stefnt í mikla hættu. Á því er enginn vafi, að þegar svo algerlega skiptar skoðanir ríkja innan raða útgerðarmanna og sjómanna um þetta mál, hvort leyfa á vélbátum að veiða með botnvörpu innan fiskveiðilandhelgi í Faxaflóa eða ekki, mun þm. þeim, sem ákvörðunina eiga að taka um málið, sérstök þörf á því að geta stuðzt við niðurstöður fiskifræðinga, sem byggðar séu á þeim ýtarlegustu athugunum og rannsóknum, sem við verði komið.

Nú er það mála sannast, að fjárveitingar Alþ. til haf- og fiskirannsókna eru ótrúlega lágar miðað við það, að Íslendingar byggja alla afkomu sína á sjávarafla. Þess ber einnig að gæta að þeirri takmörkuðu fjárhæð, sem Alþ. hefur veitt til haf- og fiskirannsókna, hefur einkum og að langmestu leyti verið varið til rannsókna á djúpmiðum, en grunnsævið, uppeldisstöðvarnar, setið meira á hakanum og minna upplýst um mikilvægi þess fyrir viðgang fiskstofnanna. Varðandi rannsóknir í Faxaflóa, sem kröfur beinast nú að í ríkum mæli, að verði opnaður fyrir veiðum með botnvörpu, liggur m.a. fyrir svo hljóðandi umsögn forstöðumanns Hafrannsóknastofnunarinnar, sem fram kom við umr. á Alþ. hinn 13. marz 1963, og ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m.a.:

„Til eru samhangandi árlegar rannsóknir á fiskistofnum í Faxaflóa á árunum 1924–1939 og frá árinu 1953 og fram á þennan dag. Á fyrra tímabilinu var farin ein rannsóknarferð á ári, en síðara tímabilið hafa verið farnar allt að fjórum rannsóknarferðum árlega. Hætt er við, að svo fáar veiðitilraunir gefi ekki rétta mynd af hinu raunverulega ástandi að því er snertir magn fiskistofnsins.“

Og forstöðumaðurinn getur þess enn fremur á þeim tíma, 1963, að ekki megi draga of fljótfærnislegar ályktanir af þeim takmörkuðu rannsóknum og tilraunum, sem gerðar hafa verið. Að sjálfsögðu er auk þessara rannsókna stuðzt við árlegar aflaskýrslur um veiði í Faxaflóa og annars staðar, en ljóst ætti þó að vera, að svo fáar rannsóknarferðir og veiðitilraunir, sem framkvæmdar eru af hálfu Hafrannsóknastofnunarinnar, geta ekki verið fullnægjandi til þess, að unnt sé með góðri samvizku að byggja á þeim svo afdrifaríkar ákvarðanir, sem í því geta falizt að leyfa veiðar með botnvörpu í Faxaflóa. Hitt kynni svo einnig að verða leitt í ljós með sérstökum viðbótarrannsóknum, sem Alþ. ætti að veita fé til á fjárlögum, að ástæðulaust væri að óttast, að slíkar veiðiheimildir yrðu til þess, að gengið yrði á fiskstofnana eða uppvaxtarskilyrðum fisksins yrði spillt. Ég tel því, að þótt skoðanir manna séu skiptar um, hvernig beri að hagnýta fiskimiðin í Faxaflóa, sé ekki ágreiningur um það meðal útgerðarmanna og sjómanna, að efla beri og auka vísindarannsóknir á þessu svæði, og það ætti þó einkum að vera sérstakt kappsmál hv. alþm., sem verða fyrr en varir að taka ákvarðanir í þessum efnum, að þessar rannsóknir séu auknar svo, að niðurstöður geti verið tryggari en nú er unnt að búast við, að þær séu. Ef svo fer, að veiðar með botnvörpu verði leyfðar á næstunni, er líka enn meiri ástæða til þess, að samhliða þeim verði vísindarannsóknir á svæðinu auknar, svo að unnt sé að fylgjast með áhrifum veiðanna. Af þessum sökum flytjum við þessa brtt. um 1 millj. kr. framlag til sérstakra fiskrannsókna í Faxaflóa. Ég hef borið þessa till. undir fiskifræðing, útgerðarmenn og sjómenn, og þeir hafa allir verið á einu máli um, að hún væri þörf og nauðsynleg, ekki sízt nú með tilliti til þeirra krafa, sem uppi eru um auknar veiðiheimildir í flóanum. Ég vænti þess, að hv. alþm. séu sama sinnis og þessir aðilar og geti fallizt á að samþykkja till.