19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

1. mál, fjárlög 1968

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég sé, að hv. meiri hl. fjvn. hefur breytt nokkuð áætluðum tekjuliðum fjárlagafrv. En því aðeins minnist ég á það, að allar útgjaldatill. byggjast auðvitað á því, hverjar tekjur ríkissjóðs geta orðið og það er því jafnskylt að hafa tekjuáætlunina svo rétta sem verða má, eins og hitt, að gæta hófs um útgjaldatill. og vil ég því fara örfáum orðum um þær breytingar á helztu tekjuliðum frv., sem orðið hafa. Í þingbyrjun lagði hæstv. ríkisstj. fjárlagafrv. fyrir Alþ. og í því frv., eins og það var þá, eru tveir af stærstu tekjuliðum ríkissjóðs innflutningsgjöld og söluskattur. Þar voru innflutningsgjöldin áætluð samtals 1778 millj. og söluskattur 1225 millj. Þetta var að sjálfsögðu löngu fyrir gengislækkun og er ekki miðað heldur við neina breytingu á gengi. Það liggur því í hlutarins eðli, að tekjur ríkissjóðs hljóta að breytast mjög núna við breytingu á genginu og það hefur líka verið gert af hálfu ríkisstj. og meiri hl. fjvn. að breyta þessum tölum. Og hvað hafa þær nú breytzt mikið? Hvað áætla þeir, þessir aðilar, að tekjur ríkissjóðs muni nú vaxa við gengislækkun? Jú, innflutningsgjöldin eiga að hækka samkv. þeirra áætlun úr 1778 millj. í 1830, en þess ber að geta, að þá hafa þeir boðað tollalækkun, sem nemur 250 millj. kr. Það er þá hin raunverulega áætlun ríkisstj., að innflutningsgjöld verði 2080 millj., ef bætt er við hinni væntanlegu tollalækkun, sem boðuð er, við þá áætlun, sem nú er í brtt. fjvn. Þetta sýnist mér, að sé í kringum 17% hækkun á þeirri áætlun, sem ríkisstj. gerði sjálf í þingbyrjun. Nú er vitað, að erlendur gjaldeyrir hefur hækkað í verði um 32.6% hvað snertir vörukaup í öllum þeim löndum, sem ekki breyttu genginu. Og samkv. innflutningi landsmanna á árinu 1966 var 75–78% af öllum innflutningnum frá þessum löndum. Ég sé því ekki betur en innkaupsverð varanna verði nú mjög nálægt því 32–33% hærra en það var, áður en genginu var breytt, og þar sem mestur hluti innflutningsins var og kann að verða á næsta ári frá þessum löndum, eru allar horfur á því að mínum dómi, að innflutningsverð innfluttra vara í heild hljóti að hækka um 28–30% eða mjög nálægt því. Og eftir því að dæma ættu tolltekjur ríkissjóðs að hækka að sama skapi að óbreyttri tollalöggjöf. Nú áætlar hæstv. ríkisstj. og meiri hl. fjvn., að þessar tekjur hækki ekki nema um 17%, en hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. hækkar ekki tekjuáætlun af innflutningsgjöldum nema um 17%, ef innflutningsverð varanna hækkar um 28–30? Ég get ekki skýrt þetta með neinu öðru en því, að hæstv. ríkisstj. ætli sér að hafa ríflegan tekjuafgang til þess að ráðstafa. En það er ekki öll sagan sögð með þessu. Það er í gildi það sama um söluskattinn. Hann er ekki hækkaður nema lítið eitt. Hann hækkar að vísu ekki í sömu hlutföllum og tolltekjurnar. En hann hækkar mjög lítið í till. frá því, sem hæstvirt ríkisstj. var sjálf búin að áætla áður, eða mjög nálægt 10%. Það er því alveg augljóst mál að mínum dómi, að tekjur ríkissjóðs eru í þessu frv. áætlaðar nokkur hundruð millj. kr. minni en þær verða. Það er því ekki syndsamlegt að flytja einhverjar brtt. til útgjaldahækkunar.

Ég flyt ásamt hv. 3. þm. Vestf. og hv. 8. landsk. þm. örfáar brtt. við þetta frv., en ég mun aðeins gera tvær þeirra að umtalsefni. Ég get því miður ekki vitnað í þskj., þar sem það er ekki komið úr prentun. En það á ekki að koma að sök, því að þetta er ósköp einfalt mál og auðskilið. Önnur till., sem ég mun ræða hér, er um rafmagnslínur til tveggja héraða á Vestfjörðum. Það er rafmagnslína frá Patreksfirði um Patreksfjarðarflugvöll og Sandsheiði til Barðastrandar. Hin rafmagnslínan er af Selsströnd yfir Bjarnarfjarðarháls til Bjarnarfjarðar í Strandasýslu. Nú þykir kannske einkennilegt að vera að flytja till. um fjárveitingu í rafmagnslínur, þar sem allt slíkt á að heyra undir raforkumálastjórnina og koma þaðan alveg sjálfkrafa. En það hagar nú svo til um þessi héruð, Barðastrandarhrepp annars vegar og Bjarnarfjörð hins vegar, að það eru engar horfur á því, að þeir fái rafmagn í náinni framtíð, þó að aukið verði fé til raforkumálastjórnarinnar og þetta liggur í því, að raforkumálastjórnin hefur sett sér þær reglur að leggja ekki dreifilínur til þeirra byggðarlaga, þar sem meira en 11/2 km er á milli bæja að meðaltali. En látum það nú gott heita, þó að þessi regla sé í gildi. En það er annað verra, að þegar raforkumálastjórnin er að finna út þessa vegalengd á milli bæja, reiknar hún allar vegalengdir yfir fjöll og firnindi, sem þarf að leggja höfuðlínuna inn í héraðið. Það telur hún líka sem vegalengd á milli bæja, og þykir mér það nokkuð „kúnstugur“ reikningur. Það getur orðið nokkuð langt á milli bæja, þegar þannig er farið að og vegna þess er það svo, að Barðastrandarhreppur, sem er þéttbýll hreppur, fær ekkert rafmagn og hefur engar horfur á að fá það á næstunni, af því að það er um 20 km leið frá Patreksfirði inn í sveitina og henni er allri bætt við vegalengdina innan sveitarinnar. En hefur nú þetta verið svo annars staðar á landinu? Ég veit ekkert dæmi um það. Ég veit hins vegar dæmi um hitt, að vegalengd yfir heiði, sem þurfti að leggja línuna um inn í byggðirnar, var alls ekki reiknuð þarna með. Skal ég minna á það, þegar rafmagnslína var lögð frá Þverárvirkjun í Strandasýslu suður yfir Tröllatunguheiði til Geiradalshrepps og Reykhólasveitar og sem nú er komin til Saurbæjar í Dalasýslu. Það datt engum í hug að fara að reikna þessa línu með sem vegalengd á milli bæja. Ef það hefði verið gert, væru þessi byggðarlög ekki farin að fá rafmagn enn. En Barðaströnd skal sitja við þetta að fá ekki rafmagn, af því að það er reiknuð vegalengdin yfir heiðina. Við höfum ekki séð neinar útgöngudyr til að fá þennan vanda leystan, nema flytja um það till. hér, að ríkið leggi fé fram í þessar línur, ekki dreifilínurnar innan héraðsins, heldur aðallínuna yfir þessa tvo fjallgarða. Þegar línan er komin inn í sveitina, er hægt að fylgja reglunni, og bæði þessi héruð mundu þá geta fengið svo að segja strax rafmagn til afnota, því að vegalengdin þar er ekki meiri en svo, að hún rúmast innan þeirra marka, sem sett eru.

En nú kemur fleira til, hvað snertir rafmagnslínuna frá Patreksfirði inn á Barðaströnd. Það er nýlega búið að byggja flugvöll í Sandodda við Patreksfjörð, en það er ekkert rafmagn komið þangað. Það er ekki hægt að hafa þar ljós, það er ekki hægt að lenda þar, ef farið er að skyggja. Þegar þessi flugvöllur var opnaður, var haldið smávegis hóf á Patreksfirði, og voru þar mættir þm. Vestfjarða í boði flugmálaráðh. Þar voru margar skemmtilegar ræður haldnar og menn yfirleitt ákaflega ánægðir yfir því að fá þessa miklu samgöngubót, enda er þetta geysimikil samgöngubót fyrir Vestur-Barðastrandarsýslu að fá flugvöll í Patreksfirði. Meðal annarra hélt ræðu forstjóri Flugfélags Íslands, og hann minnti á það, að flugvöllurinn væri eins og fokhelt hús. Það vantaði svo mikið á flugvöllinn, þó að brautin væri í sjálfu sér góð, m.a. vantaði rafmagnið. En við búum nú enn við þetta fokhelda hús. Ég veit, að það stendur til að leggja þessa línu einhvern tíma, en hún er innifalin í þessari línu, sem ég er að flytja till. um. Mikill hluti af þeim kostnaði, sem við þetta er, er það að koma rafmagni á flugvöllinn. Till. okkar um þessar tvær rafmagnslínur er 31/2 millj. kr. Það er allur kostnaður við að leggja þessar tvær línur. Það er út úr hreinum vandræðum, að slík till. sem þessi er flutt. Það er út úr þeim erfiðleikum, að það virðist sem þessi tvö héruð séu dæmd til þess að vera rafmagnslaus, bókstaflega dæmd til þess. Þess vegna verðum við að reyna að finna einhverjar aðrar leiðir. Ég vona því, að það sé skilningur fyrir því hér, að þetta fólk í þessum byggðarlögum fái rafmagn, en horfi ekki í vonleysi fram á það, að heiðar eða háls útiloki þetta með aðstoð þeirrar reglugerðar, sem einhvern tíma hefur verið sett um það, hvar eigi að leggja rafmagnslínur og hvar ekki. Barðastrandarhreppur er þéttbýll. Þar eru t.d. 28 bæir í röð og meðalvegalengd á milli þeirra talsvert innan við 11/2 km. Það hefur ekkert að segja. Þeir fá ekkert rafmagn fyrir það, nema þessi vandi verði leystur á einhvern hátt.

Hin till., sem ég mun gera hér að umtalsefni, er um ferjubryggjur, tvær ferjubryggjur við Ísafjarðardjúp. Í Ísafjarðardjúpi eru tvö gömul og ný höfuðból, það eru Æðey og Vigur, einhverjar allra kostamestu og beztu bújarðir á Vestfjörðum. Í Vigur má segja, að bændurnir séu í raun og veru þrír. Í Æðey verða þeir væntanlega innan skamms tveir. Hvað hefur nú ríkið lagt af mörkum í samgöngumálum til þessara tveggja höfuðbóla? Það er fljótsagt. Ekki neitt, nema þessar eyjar njóta flóabátsins, sem fer um allt Ísafjarðardjúp og víðar. Ríkið hefur ekki lagt í neina brú handa þessum bændum, ríkið hefur ekki lagt í neinn veg handa þeim, ekki einu sinni rafmagn. Ég held, að það séu nokkur dæmi um það, að byggðar hafa verið brýr, jafnvel til þess að tengja einn einasta sveitabæ við þjóðvegakerfi landsins. Og er ekki nema gott um það að segja, þegar svo stendur á, að jörðin færi annars í eyði. Ég veit dæmi um það, að slík brú hafi kostað hálfa millj. og allt upp í heila millj., þótt hún væri ekki nema fyrir einn bæ. Nú leggjum við til, að það sé varið einum 300.000 kr. í ferjubryggju á hvorn þessara staða. Okkur er ljóst, að þetta er ekki endanlegur kostnaður, ekki nema byrjunin. En fólkið þarf nú loksins að fara að sjá það, að það sé einhver vilji fyrir því á Alþ., að það búi áfram í þessum eyjum, því að verði ekkert gert til þess að skapa betri aðstöðu handa þessu fólki en að hafa gagn af þessum eina flóabáti, sem fer þarna um, þá endar það með því, að fólkið fer í burtu.

Það er ekki því að leyna, að bændurnir þarna hafa verið ákaflega hófsamir í kröfum hvað þetta snertir. Ég held helzt til hófsamir. En ég vil ekki láta þá gjalda þess, að þeir hafa verið svona hófsamir. Ég held það ætti að viðurkenna það loksins, að þeir eigi það sannarlega skilið, að þeir fái smáfjárveitingu til þess að bæta aðstöðu sína, svo að þeir geti þó notað þennan eina bát, sem þeir eiga von á þangað. Og hvað skeður, þegar vont er veður, eða ef karlmenn eru ekki heima viðlátnir að sinna þessum bát, sem á að koma þarna. Þá verður hann að fara þarna fram hjá! Þá koma menn ekki mjólkinni frá sér, og þá koma þeir ekki nauðsynjum að sér. Það er gjörsamlega óviðunandi að búa við þetta lengur. Við gerum ekki kröfur um háar fjárveitingar að þessu sinni, en ef það fengist viðurkenning á því, hvað þetta fólk á skilið, sem þarna býr, og hvers virði þessar miklu og góðu bújarðir eru fyrir mjólkurneytendurna á Ísafirði, þá held ég menn myndu ekki fella þessa till. að athuguðu máli. Ég geri mér því vonir um að fá skilning hv. þm. á þessum tveimur till., sem ég hef hér talað fyrir.