19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

1. mál, fjárlög 1968

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það er ekki í sambandi við fjárlagafrv. eða stefnuna í fjármálum, sem ég hef kvatt mér hljóðs. Frsm. minni hl. fjvn. hefur gert rækilega grein fyrir stefnu Framsfl. og afstöðu hans til þess máls, og ég ætla ekki að ræða það. En ég kvaddi mér hljóðs aðallega í sambandi við ræðu hv. 6. þm. Sunnl., ekki þó til þess að andmæla því, sem hann sagði, heldur til þess að leggja enn frekari áherzlu á visst atriði í því máli. Þegar till. vitamálastjóra um hafnarframkvæmdir komu til athugunar í fjvn., var þar engin fjárveiting ætluð til framkvæmda á Eyrarbakka, og ekki heldur á Stokkseyri á því næsta ári, 1968. Okkur þm. Sunnl. þótti þetta ekki gott, að svo skyldi vera, að ekkert væri áætlað á þessa staði, þar sem sjósókn er mjög erfið vegna hafnarskilyrða og mikil þörf á að vinna þar að framkvæmdum.

Á Eyrarbakka hafa t.d. á síðustu árum verið gerðar verulegar umbætur við bátaleguna þar. Það er nauðsynlegt, að okkar dómi, að ljúka þessum áfanga, sem þar er fyrirhugaður, svo að þessar framkvæmdir geti komið að því gagni, sem þeim er ætlað og vonir allra standa til að megi verða í sambandi við þær. Á Stokkseyri búa, eins og hv. 6. þm. Sunnl. nefndi, einhverjir duglegustu sjósóknarar, og þar eru líka hyggnir útgerðarmenn, því að það er nú svo, að á mörgum undanförnum árum og mjög lengi aftur í tímann, má ég segja, hefur útgerðin borið sig þar betur heldur en hjá flestum öðrum. Þeir hafa farið svo hyggilega að ráði sínu í sambandi við útgerðarmálin, þrátt fyrir það að þar sé nú mjög slæm aðstaða og mjög slæm innsigling inn á höfnina og hættuleg, og mikil þörf er þar á hafnarframkvæmdum eins og á Eyrarbakka og ekki síður. Eins og ég sagði áðan, urðu það okkur þm. Sunnl. ekki lítil vonbrigði, þegar í ljós kom, að í till. vitamálastjóra var ekki gert ráð fyrir að halda áfram á Eyrarbakka á næsta ári, til að ljúka þeim nauðsynlega áfanga, sem þar hefur verið gert ráð fyrir að ljúka. Í drögum að áætlun, sem vitamálastjóri hefur gert um fjögurra ára framkvæmdir í hafnamálum, var gert ráð fyrir, að Eyrarbakki yrði þar tekinn með. En á Stokkseyri var hins vegar þannig ástatt, að sá staður var ekki einu sinni á blaði hjá vitamálastjórn á þessum drögum að fjögurra ára áætluninni. Að því er varðar Eyrarbakka, þá breytti vitamálastjóri till. sínum á meðan málið var til meðferðar í fjvn. Og nú er gert ráð fyrir því, að Eyrarbakki fái til framkvæmda hjá sér 1,7 millj. kr. á næsta ári, samkv. þeim till. frá meiri hl. fjvn., sem liggja hér fyrir nú til umr. Hv. 6. þm. Sunnl. hefur borið hér fram till. um, að Stokkseyri fái fé til hafnarframkvæmda á næsta ári. Ég vil gefa hér — og það var erindi mitt hér í ræðustólinn — skýringu á því, ef hverju við, hinir þm. Sunnl., höfum ekki borið fram till. um það efni eða verið meðflm. hv. 6. þm. Sunnl. að þessari till. Ástæðan til þess er sú, að þegar till. um hafnir voru til meðferðar í fjvn., töldum við réttast, að á næsta ári yrði lögð áherzla á Eyrarbakka, og að fá fé til þess að bæta við það, sem þar er búið að gera, en síðar yrði snúið sér að Stokkseyri. Þessi mál voru rædd við hæstv. sjútvmrh. og lofaði hann okkur Ingólfi Jónssyni, hæstv. landbrh., að vinna að því, að Stokkseyrarhöfn verði tekin á næstu fjögurra ára áætlun, sem undirbúin verður núna í vetur, og ætti það loforð að vera trygging fyrir því, að þetta nauðsynjamál Stokkseyringa verði leyst á næstu árum. Ég segi fyrir mitt leyti, og ég held ég megi segja það einnig fyrir hönd annarra þm. Sunnl., annarra þá heldur en hv. 6. þm., að við viljum treysta á þetta loforð ráðh., og það er skýringin á því, að við töldum ekki ástæðu til tillöguflutnings hér í þessu máli nú. Þetta vildi ég láta koma fram hér við þessa umr., svo það lægi fyrir um það, sem fram hefur komið í þessum efnum.