19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

1. mál, fjárlög 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það væri náttúrlega ástæða til þess að ræða margar þær brtt., sem fram hafa komið frá háttvirtum þm., en ég skal láta það hjá líða í þetta skipti, því ég tel ekki heppilegt að fara að vekja upp aftur umr. og lengja þingtíma. Hv. þm. hafa talað fyrir sínum till. og það verður svo að sjálfsögðu að meta það, þegar til atkvgr. kemur, hvernig menn líta á þær. Hins vegar er það skoðun mín, að þó þar sé um margar þarfar till. að ræða, þá sé ekki auðið eins og sakir standa að samþ. þær. Ég vil aðeins varðandi brtt. frá hv. 5. þm. Norðurl. e. og fleiri þm. í því kjördæmi um heimild fyrir ríkisstj. til þess að verja allt að 10 millj. kr., ef til niðurskurðar kæmi á búfé vegna búfjársjúkdóms, sem þar herjar á nokkrum bæjum, taka það fram, að ég lif svo á, að lögin um búfjársjúkdóma og varnir gegn þeim veiti nægilega heimild fyrir ríkisstj. til þess að verja fé í þessu skyni, ef og þegar heppilegt þykir að gripa til slíkra aðgerða. Það liggja ekki fyrir um þetta enn nokkrar ákvarðanir eða niðurstöður. Hins vegar hefur átt sér stað niðurskurður á vissum tegundum bústofns á þessum bæjum og gildandi l. hefur verið beitt í því efni og ég tel, að þau lög mundu einnig ná til þess, ef allsherjar niðurskurður þyrfti að fara fram á þessum bæjum. Þetta tel ég rétt að komi hér fram, því ef til þess kynni að koma, að til niðurskurðar þyrfti að grípa, þá væri óheppilegt, ef búið væri að fella um það till. hér á hinu háa Alþ. — ef það yrðu örlög till. — og ég tel naumast um annað að ræða nú, vegna þess að ef ætti að samþykkja hana í því formi, sem hún er nú, yrði litið á það sem yfirlýsingu um það, að þessi niðurskurður skuli fram fara. Ég er ekki dómbær um það, hvort til þess þurfi að grípa á síðara stigi málsins eða ekki, en a.m.k. ætti ekki á þessu stigi málsins að slá því föstu, að til slíkra úrræða verði gripið.

Sumir hv. þm. hafa í þessum umr. haldið því fram, að tekjuáætlun fjárlagafrv. væri mjög varleg og það mætti gera ráð fyrir tekjum sem skiptu hundruðum milljóna til viðbótar. Mjög væri það ánægjulegt, ef þeir spádómar rættust, en ég fyrir mitt leyti er meira uggandi um, að tekjuáætlunin skili sér ekki, heldur en að um miklar umframtekjur verði að ræða. Ég skal taka það skýrt fram, að ég hef engin áhrif haft á áætlun Efnahagsstofnunarinnar um tekjurnar, og sannast sagna hefur mér þótt stofnunin allt að því óvarfærin um það, hvað hún áætlar tekjurnar hátt. Það hefur þó hins vegar verið talið rétt og skylt að reyna að fara eins djarflega í það efni og auðið hefur verið. Það er vitanlega allt önnur aðstaða, sem við stöndum andspænis nú, heldur en var um áramótin 1965 – 66 og þróunin á því ári með allt öðrum hætti en hugsanlegt er, að hún geti orðið á næsta ári. Það er alveg augljóst mál, að ef við ætlum ekki að halda áfram á þeirri braut að éta upp allan gjaldeyrisvarasjóðinn, hlýtur að koma til einhvers töluverðs samdráttar á innflutningi á næsta ári. Og miðað við það, að líkur eru til, að kaupgeta almennings verði eitthvað minni, er það einnig ljóst, að það mun verða sá innflutningurinn, sem gefur hæstar tolltekjur, sem fyrst og fremst mun draga úr. Þetta leiðir til þeirrar niðurstöðu, sem Efnahagsstofnunin hefur komizt að með nákvæmri athugun á þjóðhagsáætluninni, og því hve talið er mögulegt að áætla tekjur hátt á næsta ári, og er þar bæði gengið út frá betri aflabrögðum en í ár og einnig hærra verði, þannig að þar er miðað við slíkar forsendur, en ekki jafnslæmt ástand í þessu efni og nú er. Hins vegar er öllum hv. þm. kunnugt um það, að síðustu mánuði hefur streymt fé út úr gjaldeyrisvarasjóðnum og m.a.s. verið tekið bráðabirgðalán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess að mæta innflutningsþörfinni og vitanlega er ekki hægt að halda þannig áfram á næsta ári. Ég held, að það sé því alveg ljóst, að boginn er mjög hátt spenntur í þessu efni og væri alveg fráleitt að miða fjárlagaafgreiðslu nú við það, að um yrði að ræða hundraða millj. kr. tekjur umfram það, sem Efnahagsstofnunin hefur áætlað. Hitt er annað mál, að ef til slíks tekjuauka kemur, er það áform ríkisstj. að verja þeim tekjum til þess að draga sem mest úr áhrifum gengisbreytingarinnar, þannig að vissulega hverfa þær tekjur ekki út í loftið. En það er heldur óvarlegt, vægast sagt, að ráðstafa þeim fyrir fram, jafnmikil óvissa og er um það, að hugsanlegt sé, að slíkar tekjur komi í ríkissjóð á næsta ári.

Það hefur mikið verið um það rætt í þessum umr., bæði nú og við 2. umr., að lítil gætni væri í fjárl. og verið vikið allóblíðum orðum að mér sem fjmrh. fyrir mína stjórn á fjármálunum og fyrir það, hvað þenjist út ríkisútgjöldin.

Ég hef bent á það í sambandi við þær hugleiðingar, að hv. stjórnarandstæðingar, sem mest hafa á ríkisstj. og fjmrh. deilt í því efni, hafi ekkert sérstaklega lagt sitt lið til þess að draga úr þeim útgjöldum. Út í þá sálma skal ég ekki fara hér eða efna til neinna umr. um það, en mér þykir rétt, að það komi hér fram, ef hv. þm. hafa ekki athugað það, að mér telst svo til, að það sé um 260 millj. kr., sem hv. stjórnarandstæðingar ætlast til, að fjárl. hækki, — þessi voðalegu fjárl., sem þeir eru að tala um — frá því, sem gert er ráð fyrir í till. fjvn., og þar að auki, eftir því sem hv. 3. þm. Vesturl. upplýsti hér áðan, að gert væri ráð fyrir 120 millj. kr. lántöku, sem að vísu er ekki bein útgjöld úr ríkissjóði. Hann sagði, að undanfarin ár hefði verið gengið lengra í því efni. Það er alveg rétt. Ég upplýsti hins vegar, bæði við 1. umr. fjárl. og einnig nú í ræðu minni í kvöld, að nú væri gengið miklu skemur en undanfarin ár í þessu efni, einmitt vegna þess, að það væri sjáanlegt, að fjárþörf atvinnuveganna yrði það mikil á næsta ári, að það yrði að draga mjög saman seglin varðandi þær fjárkröfur, sem ríkissjóður eða ríkisstj. gerði til bankanna í sambandi við framkvæmdaáætlunina. Og það er því þannig nú, að gert er ráð fyrir, að um verulegan samdrátt verði að ræða í lánsútboði vegna framkvæmdaáætlunar á næsta ári. Sú röksemd varðandi þetta atriði, sem ég gat um áðan, liggur því fyrir óhögguð, að hér er mjög óvarlega að farið, miðað við þessar aðstæður atvinnuveganna, og hlýtur að sjálfsögðu að draga úr fjáröflunarmöguleikum þeirra, sem þessu nemur. Hitt er annað mál, að það væri mjög æskilegt að greiða þetta fé, það er ég hv. þm. sammála um, en ég held, að menn hafi með hliðsjón af því ástandi, sem er, hugsað sér að fara nokkuð geyst í sakirnar, og ég er þeirrar skoðunar og ríkisstj. hefur þá stefnu, sem ég lýsti í mínu áliti í dag, að verði um að ræða umframtekjur á þessu ári, er ætlunin að nota þær til þess að mæta erfiðleikum vegna gengisbreytingarinnar og létta kjör almennings og draga sem mest úr þeirri kjaraskerðingu, sem óhjákvæmilega fylgir ella í kjölfar hennar. Og það er meginástæðan til þess, að ég tel ekki fært að samþ. þær mörgu brtt., sem hér hafa komið fram frá hv. þm. og hv. minni hl. fjvn., þó ég hins vegar játi, að meginhluti þessara mála eru þörf og góð mál, sem vissulega væri æskilegt að gefa gripið til.