19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

1. mál, fjárlög 1968

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja mjög umr., en ég kvaddi mér hljóðs til að segja nokkur orð í tilefni af þeirri ræðu, sem hæstv. fjmrh. flutti hér áðan. Sú ræða var að vísu ekki löng og nokkuð almenns eðlis, en ég verða að segja það, að mér geðjast ekki að þeim ummælum, sem hann hafði í þessari ræðu um brtt.-flutning hér við 2. umr. Ég hef lýst því áður í ræðu minni hér í kvöld, hvernig undirbúningur fjárl. hefur verið að þessu sinni og meðferð fjárlagafrv. og hvern tíma þm. hafa til þess að taka afstöðu til einstakra atriða í sambandi við þau, gera sér grein fyrir þessum meginatriðum eins og t.d. tekjubálkinum, og hvernig búið hefur verið í hendur þeim af hæstv. fjmrh. og hv. fjvn. eða meiri hl. hennar. Nú er það svo, að hér liggja fyrir við umr. allmargar till. til breytinga, sem mjög margar, eins og verða vill, eru um breytingar á gjaldabálki fjárl. Í fyrsta lagi eru þarna till. frá meiri hl. n., sem mér skilst, að hæstv. ráðh. vilji samþykkja. Í öðru lagi eru það svo till. frá minni hl. fjvn. og loks till. frá ýmsum einstökum þm. Nú hefði ég álitið. þegar þannig stendur á, að fyrir liggja margar till., væri nokkuð einsýnt, hvernig hæstv. fjmrh. bæri að fara að. En það, sem hæstv. fjmrh. segir nú í ræðu sinni áðan, er það, að hann hafi lagt saman á blaði, hve hárri upphæð þessar till. nemi samtals. Þar í eru víst ekki till. meiri hl. n., en till. minni hl. n. og einstakra þm. Hann hafi lagt þetta saman á blaði og út hafi komið 260 millj. Og svo segir hæstv. ráðh.: Þetta sé ekki hægt að samþykkja. Það er sem sé leyfa það ekki.“ Það hefur nokkuð verið rætt hér um tekjuáætlunina. Ég ætla ekki að gera það. En hann segir, að tekjurnar leyfi það ekki. Þetta er ekki hægt að samþykkja. Það er sem sé bara afgreitt með einu pennastriki.

Nú veit ég ekki, hvernig hæstv. ráðh. hefur lagt saman, hvort hann t.d. tekur með brtt. um heimildir á 6. gr. fjárl. En ef það er gert, er það náttúrlega einkennilegur reikningur, því að 6. gr. er ekki í niðurstöðutölum fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. En það getur verið, að þetta hafi ekki verið gert. Ráðh. getur sjálfsagt upplýst það. En niðurstaða hans varð sú, að þarna væri um að ræða sem næst 4% hækkun á fjárl., ef allar þessar till. yrðu samþ. En eins og ég sagði áðan, hef ég haldið, að hæstv. fjmrh. ætti að fara öðruvísi að, þegar till. liggja fyrir á þennan hátt. Að hann ætti að taka till. til skoðunar og meta þær, en ekki segja um þær allar í einu: „Ekkert af þessu er hægt að samþykkja.“ Slíkt ber að meta. Ég man mörg dæmi þess hér á Alþ., að eftir að till. hafa verið bornar fram af einstökum þm., hefur fjvn. komið saman og rætt till. og fallizt á sumar þeirra. En svona snöggsoðinn dauðadóm yfir öllum till., sem fram koma við frv., eins og það liggur fyrir, frá hæstv. fjmrh. kann ég ekki við. Það er kannske ekki mikið meira um þetta að segja. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh. og aðra þá, sem standa fyrir því að stjórna vinnubrögðum í sambandi við afgreiðslu þessa fjárlagafrv.: Hvernig eiga þingmenn að fara að í þessu máli, þegar ekki er um neitt samráð að ræða og enginn tími til neins undirbúnings eða til þess að leita samkomulags? Ég vil spyrja t.d. um það, hvað ætti að falla niður í staðinn fyrir það, sem lagfært er, ef talið er, að heildarupphæðin megi ekki breytast. Þetta sýnast mér ekki vera góð vinnubrögð, og þó að nú sé áliðið orðið og sagt skammt eftir af þingi, vildi ég nú aðeins nefna það hér, af því að þetta er nú allt með þeim hætti, sem það er, hvort ekki sé möguleiki til þess að draga þingfrestun um einn dag frá því, sem fyrirhugað er, þannig að fjvn. geti komið saman ásamt fjmrh., til þess að reyna að leggja eitthvert mat á þær till., sem þm. og minni hl. n. hafa leyft sér að flytja við þessa umr., leggja eitthvert mat á þær, ekki strika yfir allt svona í einu lagi, án þess að gera sér nokkra grein fyrir, hvað það er, sem farið er fram á.