24.11.1967
Neðri deild: 23. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur nú farið fram á það, að það væri frekar reynt að greiða fyrir þessu frv., því að það væri þannig vaxið, að æskilegt væri að fá það afgreitt nokkuð fljótt eða fyrir helgi. Ég get að sumu leyti skilið þær ástæður, sem hún færir fyrir því, og ég skal þess vegna ekki verða til þess að tefja það með mörgum orðum, enda gefst ærin ástæða til þess að ræða þetta mál nánar, gengismálin nánar í sambandi við önnur mál, sem vafalaust eiga eftir að koma hér fyrir þingið, en mér finnst samt rétt, vegna þess að ég tel, að hér sé um slíkt stórmál að ræða, að ekki sé rétt að láta það ganga svo til 2. umr., að ekki láti nokkrir þm. til sín heyra.

Ég hafði nú reyndar búizt við því, að hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. forsrh. mundi svara ýmsum þeim fsp., sem hér hafa verið lagðar fram af hálfu þeirra, sem hafa talað á undan mér, en mér virtist samt vera þannig ástatt, þegar ég kvaddi mér hljóðs, að það mundi enginn vera á dagskrá og ekki horfur á því, að stjórnin mundi neitt láta til sín heyra, vegna þess að ég sé, að þeir ráðh., sem þetta mál er nú skyldast, hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., eru horfnir úr salnum og voru það, þegar ég bað um orðið.

Ég verð nú að segja það, að mér finnst það heldur undarlegt, að þegar hæstv. ríkisstj. hefur farið fram á það, að þetta mál fái greiða afgreiðslu gegnum þingið, og þeir, sem hafa talað, hafa mjög stillt máli sínu í hóf, — þá skuli hún ekki sýna þinginu og þessum þm. þann sóma að svara þeim fsp., sem fram hafa verið bornar. En vissulega eru þær þess eðlis, að þm. eiga heimtingu á því að fá svör við þeim nú þegar.

Það, sem mér finnst alveg sérstök ástæða til þess að minnast á í sambandi við þetta mál, er það, að í dag hefur fallið mjög athyglisverður dómur, dómur um málflutning stjórnarliða og okkar stjórnarandstæðinga á undanförnum missirum og mánuðum, og ekki sízt í sambandi við seinustu þingkosningar. Þm. er það áreiðanlega í fersku minni, hvert hefur verið eitt helzta deiluefni milli stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar að undanförnu. Helzta deiluefnið hefur verið það, hvaða afleiðingar viðreisnarstefnan svonefnda hefur haft fyrir efnahagslífið í landinu. Við í stjórnarandstöðu höfum haldið því fram og fært að því ýmis rök, að þannig hafi verið haldið á málum af hæstv. ríkisstj. á undanförnum árum, þrátt fyrir það óvenjulega góðæri, sem þjóðin hafði búið við, að svo væri komið málum hennar, að atvinnuvegirnir væru komnir í mikla þröng og það væri ekki hægt að tryggja sæmilegan rekstur þeirra, án þess að gripið væri til einhverra meiri háttar ráðstafana. Þetta sögðu þeir alveg hiklaust fyrir seinustu kosningar. Þá var sagt af stjórnarliðinu, af ráðh., frambjóðendum stjórnarflokkanna og stjórnarblöðunum, að þetta væri ekki annað en barlómur. Það var sagt, að þetta væri þessi gamli barlómur Framsfl. að vera að halda slíku fram eins og þessu. Þeir héldu því fram hins vegar, að hér stæði allt með hinum mesta blóma. Viðreisnin hefði tryggt örugga undirstöðu atvinnuveganna og það mundi ekki þurfa að grípa til neinna stórfelldra ráðstafana á næstunni til þess að tryggja afkomu þeirra.

Í dag hefur fallið dómur um þennan málflutning okkar stjórnarandstæðinga og stjórnarinnar. Og það verður ekki sagt, að þessi dómur sé kveðinn upp af aðila sem sé óvilhallur ríkisstj., því að þennan dóm hefur hún kveðið upp sjálf. Og hann er í stuttu máli sá, að þannig sé komið afkomu útflutningsatvinnuveganna eftir mesta góðæri, sem þessi þjóð hefur nokkru sinni búið við um 6–7 ára tíma og eftir þá viðreisnarstefnu, sem ríkisstj. hefur haldið uppi og hún hefur talið, að væri sú bezta stjórnarstefna, sem hér hefur nokkru sinni verið fylgt, að það verður að fella gengi íslenzkrar krónu um 20%, þegar frá er dregið það, sem segja má kannske, að sé vegna falls sterlingspundsins. Þessi dómur er í raun og veru miklu þyngri heldur en sá, sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram að undanförnu, því að þó að við höfum talið, að svo væri komið atvinnuvegunum, að óhjákvæmilegt mundi vera að gera sérstakar ráðstafanir þeim til viðréttingar, hefur engum okkar dottið í hug að halda því fram, að ástandið væri svo alvarlegt, að það væri útilokað að rétta við hag atvinnuveganna öðruvísi en gripa til jafn stórfelldrar gengislækkunar og þeirrar, sem hér er um að ræða.

Í þessu deilumáli okkar stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna hefur þannig verið felldur dómur, sem við frá því sjónarmiði, að við höfum haldið réttu fram, megum vel við una og sem stjórnarsinnar eiga áreiðanlega erfitt með að hnekkja, þar sem það er ríkisstj. sjálf, sem hefur kveðið þennan dóm upp. Mér finnst það nú heldur leiðinlegt og ekki bera vott um það, að forsrh. sýni Alþ. sérstaka virðingu, þegar hann hefur lagt fram mál eins og þetta og óskað eftir, að því sé hraðað gegnum þingið, þá getur hann ekki einu sinni verið viðstaddur, þegar umr. fara fram um þessi mál. Ég segi þetta m.a. vegna þess, að ég hafði ætlað mér að rifja hér upp örstutt ummæli forsrh. og segja nokkur orð í því sambandi. Ég kann hálfilla við að þurfa að gera það að ráðh. fjarverandi, svo að — ja, ég er ekki í neinu tímahraki, svo að ég get vel beðið eftir því, að ráðh. sýni sig hér. (Gripið fram í.) Nú, eru þeir í sjónvarpinu. Það er mjög leiðinlegt, en væri það ekki athugandi þá, að herra forseti gæfi aðeins fundarhlé, þannig að ráðh. hefði aðstöðu til þess að vera viðstaddur, þegar umr. fara fram um þetta mál. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þrír hæstv. ráðh. eru viðstaddir í hv. þd.) En nú er þessu þannig háttað, að það er hæstv. forsrh., sem hefur mælt fyrir þessu frv., og það er sérstaklega til hans, sem ég vil beina orðum mínum. (Gripið fram í.) Ja, eftir því, sem hæstv. forseti segir, mun vera von á ráðh. innan skamms, og kannske maður reyni þá að snúa sér að einhverjum öðrum atriðum á meðan, þannig að maður þurfi ekki ... (Gripið fram í.) Ja, það er nokkuð langur tími. En það er svo sem vel hægt að halda út klukkutímann, ef maður kærir sig um, því að það er vissulega það mikið að segja um þetta mál. En stjórnin hafði nú, skilst mér, farið fram á, að það væri gert frekar við annað tækifæri heldur en þetta — ég held, að það hafi verið hæstv. landbrh., sem skaut því fram, að það yrði eftir 2. umr. og 3. umr. um málið, og ég get alveg eins talað við þær umr. eins og þessa. Það kemur nokkuð út á eitt. Og af því að mér finnst heldur leiðinlegt að vera að ávarpa þá, sem fjarstaddir eru, því að mest af því, sem ég vildi segja, er nú beint til hæstv. forsrh., þá skal ég verða við þeim tilmælum landbrh. að geyma þetta annaðhvort til 2. eða 3. umr. En ég verð ekki stuttorðari fyrir það.