13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

4. mál, innheimta gjalda með viðauka

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við 2. umr. um frv. þetta hér í d. lá fyrir nál. frá fjhn., þar sem allir nm., 7 að tölu, mæltu með því, að frv. yrði samþ. óbreytt. Svo gerðist það nú, að formaður n., hv. 1. þm. Reykn., ber hér fram brtt., og hann talaði um það við 2. umr., að það mundi verða athugað milli 2. og 3. umr. að gera einhverjar breytingar á frv. Ég bjóst þess vegna við því, að hann mundi taka það mál upp í fjhn., sem búin var að afgreiða málið frá sér, ef hann vildi nú, þrátt fyrir það, að hann er búinn að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt, gera einhverjar breytingar á því. En þetta hefur hann ekki gert.

Hv. þm. segir, að það hafi komið óskir um það, að mér skilst frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, að ekki verði lögð svona há aukagjöld á stimpilgjöld, sem menn þurfa að greiða lögum samkv., þegar um er að ræða kaup og sölu á skipum. Skilst mér því, að það sé meiningin með þessari breytingu að setja það í lög, að heimilt sé að slaka á þessu í þeim tilfellum. En þá tel ég, að það hefði átt að ganga hreint til verks og láta Alþ. ákveða það, hvort eitthvert álag eða hve mikið ætti að koma á þessi gjöld, þegar um slík viðskipti er að ræða, en hitt tel ég ófæra leið, að samþykkja þessa brtt., ef hana ber að skilja þannig, að hæstv. fjmrh. hafi það á valdi sínu hverju sinni að meta, hve hátt álag á þessi gjöld eigi að reikna hjá hverjum aðila, sem hefur einhver viðskipti, sem eru stimpilgjaldsskyld. Þetta tel ég ótækt, ef ber að skilja þetta þannig.

Ég hefði nú viljað fara fram á það við hv. 1. þm. Reykn., formann fjhn. að hann fengi þessu máli frestað. Hann er búinn að boða fund í fjhn. kl. 11 á morgun, og þá væri hægt að ræða nánar um þetta. En fáist hann ekki til þess, legg ég eindregið á móti því, að þessi brtt. verði samþ. eins og hún er hér formuð. Ég tel það mjög óeðlilegt að veita ráðh. vald til þess að ákveða álög á þessi gjöld hverju sinni eftir eigin geðþótta.