18.01.1968
Efri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

4. mál, innheimta gjalda með viðauka

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, er það að framlengja heimild til handa hæstv. ríkisstj. til þess að innheimta tiltekin gjöld með viðauka. En slík heimild hefur nú um alllangt skeið verið framlengd frá ári til árs með sérstökum lögum og hefur yfirleitt ekki verið ágreiningur um það hér á hv. Alþingi á undanförnum árum. Af einhverjum ástæðum, sem mér eru ókunnar, þar sem ég var fjarverandi frá þingsetu nokkrar vikur fyrir s.l. jól, hefur málið ekki náð afgreiðslu fyrir áramót, en vonandi kemur það ekki að sök. Eins og nál. á þskj. 216 ber með sér, mælir n. með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, en einn nm., hv. 5. landsk. þm., hefur þó skrifað undir nál. með fyrirvara, sem ég vænti, að hann geri grein fyrir. Enn fremur var hv. 4. þm. Norðurl. e. fjarstaddur, þegar nál. var afgreitt.