24.11.1967
Neðri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Fjhn. beggja d. hv. Alþ. hafa á sameiginlegum fundi nú í kvöld tekið frv. til athugunar. Meiri hl. fjhn. þessarar hv. d. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu við 5. gr. þess, sem tilgreind er á sérstöku þskj., sem síðar mun verða útbýtt. Nál. meiri bl. fjhn, hljóðar þannig, með leyfi forseta:

N. hefur athugað frv. Mæla undirritaðir nm. með því, að það verði samþ. með þeirri breytingu við 5. gr. þess, sem fram kemur á sérstöku þskj.

Undir þetta nál. skrifa Guðlaugur Gíslason, Sigurður Ingimundarson, Gunnar Gíslason og Axel Jónsson. En sú breyt., sem þarna er getið, að síðar muni koma fram á sérstöku þskj., er, eins og fyrr segir, við 5. gr. þess, nánar tiltekið við 2. mgr. og 2. málslið. Málsl. þessi, eins og hann er í frv., hljóðar þannig:

„Ákvæði þetta gildir ekki um greiðslufrestsábyrgðir, þegar skjöl hafa verið afhent innflytjanda fyrir gengisbreytinguna.“

Af tæknilegum ástæðum var talið eðlilegra, að þetta orðalag yrði gert nokkuð skýrara og var þar farið eftir ábendingu þeirra aðila, sem undirbjuggu frv., og hljóðar brtt. þannig, með leyfi forseta:

„2. málsl. 2. mgr. 5. gr. frv. hljóði þannig: Ákvæði þetta gildir ekki um gjaldfallnar ábyrgðir með greiðslufresti, sem greiddar eru erlendis, ef vöruskjöl hafa verið afhent innflytjanda fyrir gengisbreytinguna.“

Efnisbreyting er þetta ekki, en eins og ég sagði talið eðlilegra af þeim aðilum, sem undirbjuggu frv., að þessi málsl. þess væri gerður nokkuð skýrari.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er aðeins að finna þau ákvæði, sem nauðsynlegt er að lögfesta, áður en gjaldeyrisviðskipti hefjast að nýju, sem stefnt er að, að orðið geti n.k. mánudag hinn 27. þ.m. og þá á grundvelli hins nýja stofngengis, ef frv. þetta verður samþ. Ég tel ekki, herra forseti, ástæðu til lengri framsögu eða að gera frekari grein fyrir efni frv. Hæstv. forsrh. gerði það mjög greinilega, þegar hann lagði frv. hér fram síðdegis í dag, þá fyrir málinu í heild og einnig fyrir hverri sérstakri gr. þess, og tel ég því ekki ástæðu til þess að hafa þessa framsögu lengri, en eins og ég sagði í upphafi, leggur meiri hl. fjhn. til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem lögð hefur verið fram og ég vil leyfa mér að afhenda forseta hér til fyrirgreiðslu.