05.02.1968
Efri deild: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

121. mál, tollskrá o.fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Við þessa 1. umr. frv. til breytingar á tollskrárlögum tek ég að sjálfsögðu ekki afstöðu til einstakra liða eða gr. frv., en í heildina tekið get ég lýst því yfir, að það er mér fagnaðarefni, og munum við Alþb.- menn styðja það að því leyti, sem það miðar að tollalækkunum á nauðsynjavörum, eins og frv. við fljóta yfirsýn ber með sér að til stendur að mestum hluta. En frv. sjálft, undirbúningur þess og vinnubrögð þau, sem uppi eru höfð í sambandi við það, gefa óneitanlega tilefni til þess, að málið sé skoðað á nokkuð víðara sviði, heldur en sjálft frv. gefur beinlínis tilefni til. Við minnumst þess, eins og hæstv. fjmrh. tók hér fram í sinni framsöguræðu, að við afgreiðslu fjárl. var í rauninni gefið fyrirheit um verulegar tollalækkanir á nauðsynjavörum, þar eð afgreiðsla fjárlagafrv. gaf tilefni til þess að meta það svo, að ríkissjóður væri með allmiklar umframtekjur, sem hægt væri að verja í því skyni að lækka tolla á nauðsynjum. Hæstv. fjmrh. nefndi í því sambandi nokkuð hlaupandi tölur, en inni í þeirri tölu, sem hann nefndi, var talan 250 millj. kr., sem ég hygg, að nokkuð almennt hafi verið reiknað með að hlyti að koma fram í því frv., sem boðað var, að ríkisstj. mundi leggja fram þegar að afloknu jólahléi Alþingis, en hefur nú dregizt fram á þennan dag.

Hæstv. ráðh. hefur nú hér í umr. upplýst það, að stjórnin hafi verið búin að láta semja frv. til tollalækkunar, sem gert hafi ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs af tollum lækkuðu um 270 millj. kr. Því miður er það frv., sem hér liggur fyrir, allt saman minna og mjórra í endann heldur en hið eldra virðist hafa verið. Hér liggur sem sagt fyrir frv., sem gerir ráð fyrir 159 millj. kr. tollalækkun. Hér hafa líka komið fram skýringar á því, hvers vegna þessi tollalækkun hefur rýrnað svo frá því, sem fyrirhugað var, og það liggur í því samkv. upplýsingum ráðh., sem við drögum ekki í efa almennt hér alþm. að því er ég til þekki, að ríkisstj. hefur gefið fyrirheit um greiðslur úr ríkissjóði á þessu yfirstandandi ári um 300–400 millj., 320 millj. held ég, að ég hafi tekið rétt eftir, að hæstv. forsrh. mat þetta hér í ræðu sinni. Þetta eru uppbótargreiðslur til útvegsins, báta og frystihúsa. Ég verð að gera nokkra aths. við það, að svo skuli vera háttað um hagi og stjórnarháttu okkar þjóðar, að ríkisstj. getur eins og getið þess í framhjáhlaupi hér á Alþingi, að hún hafi skuldbundið ríkissjóð fyrir 320 millj. kr. greiðslu á árinu, skömmu eftir að fjárlög hafa verið samþ. Alþm. hafa þarna hvergi komið nærri, ekki fjallað um málið á einn eða neinn hátt. Þessi tala er að því leyti ekki alveg ný, t.d. fyrir mér, að ég hef séð þessa tölu í blöðum. En fyrir Alþingi hefur hún ekki verið lögð og engin rök, sem Alþ. gæti metið fyrir því, hvort það væri eðlilegt, að ríkissjóður tæki á sig þessar greiðsluskuldbindingar.

Í öðru lagi er vert að minnast þess, að þessar greiðsluskuldbindingar koma rétt í kjölfar fjárlagaafgreiðslu hjá Alþ., og við þá fjárlagaafgreiðslu kom það mjög til tals og umr., að þær tölur, sem þar stóðu, væru allar saman útreiknaðar. Þær hefðu verið vegnar og metnar af sérfræðingum ríkisstj. í efnahagsmálum, af Efnahagsstofnuninni fyrst og fremst. Það hefur sífellt sótt meira og meira í það horf á hinum síðustu tímum, að Alþ. hefur verið látið hafa sem minnst afskipti af málunum. Fyrir það hafa verið lögð af mikilli skyndingu og til mjög hraðrar afgreiðslu margs konar mál, flókin og mikilvæg, og þær upplýsingar, sem Alþ. hefur fengið, eru nánast þær, að Efnahagsstofnunin eða sérfræðingar ríkisstj. telji þar vera á ferðinni hverju sinni þær einu sönnu og réttu tölur, sem ekki tjái að vefengja.

Ég vil alvarlega vara ríkisstj. Íslands við því sem föstum vinnubrögðum að gera hlut Alþ. þannig miklu minni heldur en ætlazt er til í stjórnarskrá landsins, að nota Alþ. svo að segja eingöngu sem stimplunarstofnun til þess að gefa útreikningum sínum eða sinna sérfræðinga lagagildi, án þess að Alþ. fái sjálft eðlilega aðstöðu til að vega og meta það, sem á ferðinni er hverju sinni. Því miður sýnist mér það einnig, að við afgreiðslu þessa frv. ætlist hæstv. ríkisstj. til þess, að þessi sami háttur, sem svo illa hefur gefizt að undanförnu, verði enn viðhafður. Þessar 320 millj. kr., sem ég hef hér aðeins minnzt á og ríkisstj. hefur skuldbundið ríkissjóð til þess að standa skil á til ákveðinna framleiðsluaðila, hvernig eru þær til komnar? Jú, sjálfsagt eru þær nú útreiknaðar af Efnahagsstofnuninni eða einhverjum sérfræðingum ríkisstj., en þær eru þó fyrst og fremst misreikningur þessara aðila frá því á s.l. hausti, að gengi íslenzkrar krónu var breytt. Það var gefið hér í skyn óspart, þegar gengislækkunin var til umr. á Alþingi, að hún væri reist á traustum rannsóknum, sem framkvæmdar hefðu verið einmitt af þeim sérfræðingum, sem hér koma við sögu enn þá. Og að sú gengisfelling væri miðuð við það, að atvinnuvegir þjóðarinnar gætu haldið áfram snurðulaust. Því miður reyndist þetta ekki vera á rökum reist. Nú er það mannlegt, að mistök séu gerð, en það er jafn sjálfsagt, að þeir, sem mistökin gera, og þeir, sem ábyrgð bera á mistökunum, ég á hér við ríkisstj. Íslands og efnahagssérfræðinga hennar, læri eitthvað af sínum mistökum. Þeir hætti að misþyrma Alþ. með þeim hætti, sem gert hefur verið, að draga málin raunverulega úr höndum þess og láta afgreiða þau að öllu nema forminu til annars staðar.

Það var ekki einasta, að gengisfellingin væri ákveðin og útreiknuð af efnahagssérfræðingum ríkisstj. og hafði hennar samþykki, heldur kom hér líka alllangur og merkur lagabálkur um það, hvernig ætti að ráðstafa þeim gengishagnaði, sem myndaðist við gengisbreytinguna, og Alþingi varð að fara æði fljótt yfir sögu við afgreiðslu þess máls, enda þótt þar væri um að ræða nokkur hundruð milljónir kr., vegna þess að þinginu voru fengnar allar tölur og öll vizka, sem til niðurstaðnanna hafði leitt, upp í hendurnar frá hinum óyggjandi sérfræðingum, sem við vitum nú, að eru ekki eins óyggjandi og þeir hafa stundum verið álitnir.

Ég vil vekja athygli á því, að öll þessi vinnubrögð hafa leitt til þess, að ríkisstj. Íslands hefur nú komið fram algerri nýjung í efnahagsmálum. Sú nýjung liggur í því, að í sömu andránni og gengisbreyting er gerð, gengi íslenzkrar krónu lækkað verulega, er einnig komið á fót nýju uppbótakerfi, og það mun aldrei hafa gerzt í sögunni fyrr, að þetta tvennt gerist í sömu andránni. Ég segi „í sömu andránni“ vegna þess, að þótt liðinn sé milli þessara tveggja atburða kannske 11/2 mánuður, hafa framleiðslutæki þjóðarinnar svo að segja ekki hreyft sig þennan tíma eða legið í dauðadái, lömuð. Þau hafa ekki framleitt til handa þjóðinni eitt eða neitt, að kallazt geti, fyrr en báðar ráðstafanirnar voru komnar í kring. Því leyfi ég mér að hafa þetta orðalag um þetta, að gengisbreytingin og nýja uppbótakerfið hafi verið sett á í sömu andránni. Að svo miklu leyti sem tími hefur liðið þarna á milli, hefur hann verið þjóðinni mjög dýr að því leyti, að hún hefur misst af framleiðslu, vegna þess að slík handvömm var á afgreiðslu efnahagsmála af stjórnarinnar hálfu.

Ef við lítum nú örlítið lengra aftur í tímann, til upphafs þeirrar stjórnar eða þess stjórnarsamstarfs, sem nú fer með völd í landinu, þá minnumst við þess, að stjórnin hafði að leiðarsteini, þegar hún hélt út á sína valdabraut, stefnu, sem hún kallaði viðreisn. Og þó að víða hafi nú verið komið við í því riti, sem stjórnin gaf út um ágæti sinnar stefnu, virðist mér þó, að þar hafi verið um þrjá hornsteina að ræða. Þeir voru í fyrsta lagi það, að afnema skyldi uppbætur og niðurgreiðslur, í öðru lagi, að krónan yrði að vera traustur gjaldmiðill og í þriðja lagi, að landsmenn yrðu að gera ráðstafanir til þess að vera sem mest óháðir afkomu sjávarútvegsins og annarra gamalgróinna atvinnuvega í landinu.

Í þessu augnamiði hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir. Það skal að vísu tekið fram, að uppbótakerfið var aldrei afnumið. Það var nokkuð dregið úr því, en afnumið var það ekki. Og ef litið er til hinna síðustu ráðstafana, verður ljóst, að sú stjórn, sem ætlaði að afnema það og setti sér það að marki m.a., hefur síður en svo gert það, heldur hefur hún þvert á móti aukið það svo, að nú mun það vera stærra fyrirferðar en það hefur nokkru sinni verið fyrr. Traust krónunnar virðist ekki heldur vera eins mikið og æskilegt væri að það væri, því að á sínum ferli, sem nú er að komast á áttunda ár, hefur ríkisstj. formlega fellt gengi krónunnar ekki sjaldnar en þrisvar. Og því miður getum við ekki verið örugg um það, að það sé í traustara sessi nú en það var við upphaf stjórnartímabilsins. Stjórn, sem gefið hefur slík fyrirheit og síðan stjórnað á áttunda ár, lengst af við hina mestu árgæzku og raunar lengst af meiri árgæzku en dæmi eru til um í íslenzkri sögu fyrr á árum, og verður svo að standa frammi fyrir því í dag, að allir meginþættir stefnu hennar eru ruslatunnumatur og eiga ekkert raunhæft gildi í þjóðlífinu á Íslandi, hvað ætlar hún að gera? Væri ekki eðlilegt, að hún tæki saman nýjan pésa, hvort sem hann héti nú Viðreisn II eða eitthvað annað, og gæfi út handa þjóðinni og segði, hvernig ástandið er í þjóðmálum eftir þessa 7–8 ára stjórn hennar? Ég vil beina þeim orðum til stjórnarinnar að athuga þetta og hvort það sé ekki eins mikil þörf á því núna, að þjóðin fái að vita um það, hvernig raunverulegt ástand er, eins og það var við upphaf stjórnartímabilsins. Ég fyrir mitt leyti mæli með því, að þetta sé gert.

Herra forseti. Ég vil ekki eiga hlut að því, að afgreiðsla þessa máls sé tafin úr hófi fram. Og með því að ég er ekki reiðubúinn til þess að ræða hér einstaka liði þess, mun ég ekki hafa mál mitt lengra að þessu sinni. En ég vildi gjarna óska eftir því að fá að heyra álit hæstv. ráðh., sem hér hefur mælt fyrir frv., um það, hverjar eru fyrirætlanir ríkisstj. í framtíðinni. Ætlar hún að leggja sér til nýja stefnu? Eða ætlar hún að halda áfram gömlu stefnunni, þó að sýnt sé, að hún geti ekki gefizt þjóðinni öðruvísi en illa, enda þótt gæfa Íslands og landgæði, gæði hafsins eða gæði fiskimiðanna í kringum landið hafi raunar mátt sín svo mikils um skeið, að engin stjórnarstefna, hversu slæm sem hún hefði verið, hefði megnað að koma í veg fyrir góðæri, sem hér var um skeið.