12.02.1968
Efri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

121. mál, tollskrá o.fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Þetta frv. og aðdragandi þess hefur orðið til þess að vekja hér nokkrar umr., sem hafa nú sumpart verið í eldhúsdagsstíl. Menn hafa almennt gert aths. við fjármálaástandið í landinu og það, hvernig ríkisstj. hefur staðið að þeim málum öllum saman. Um þessa hluti fór ég fáeinum orðum við 1. umr. málsins og mun ekki endurtaka neitt af því, og ég er hér kominn eingöngu til þess að gera aths. við eitt atriði í þeim brtt., sem hv. fjhn. d. leggur hér fyrir, og það er 1. liðurinn í þeim brtt., sem frá n. koma. Hann er á þá leið, að kaffi í smásöluumbúðum, 2 kg eða minna, skuli tolla með 10% tolli, þar sem enginn tollur var áður.

Þegar þetta frv. var lagt fyrir, var mjög talað um það, að það vissi á tollalækkun og tilgangur þess væri sá að draga nokkuð úr þeim álögum, nokkuð úr þeirri dýrtíð, sem af gengisbreytingunni hlaut að leiða, alveg sérstaklega með tilliti til þess, að tollurinn yrði miklum mun hærri í krónum talið, ef tollskráin stæði með sömu tollprósentu og áður var. Úr þessu átti að draga, og þetta var yfirlýsing, sem fylgdi frá ríkisstj. hálfu, og hún var talin góðra gjalda verð af stjórnarandstöðunni í þessum efnum. Það kom einnig fram í grg. ríkisstj. um þetta mál, að það væri ekki til þess gert að koma á réttan kjöl iðnaði eða iðngreinum, sem reknar eru í landinu, heldur miðað við það að gera aðstöðu þeirra ekki verri en áður. Undir hvorugt af þessum atriðum, sem voru höfuðforsendur frv., getur það fallið að taka upp að nýju toll á vörum, sem enginn tollur var á áður. Ég vil vekja athygli d. á þessu atriði, og ég leyfi mér að láta í ljós þá hugmynd, að á bak við svona till. muni það fyrst og fremst búa, að hér hefur verið að unnið með miklum hraða, sem við höfum allir, sem til máls höfum tekið um þetta mál hér í d., tekið undir, að við teldum ekki óeðlilegt, að á væri hafður við afgreiðslu þessa máls eins og allt er í pottinn búið.

En ég vil sem sagt ekki láta þessa brtt. fara í gegn hér í þessari d. án þess að d. veiti því athygli, að hér er verið að taka upp nýjan toll, sem ekki var áður. Og mér finnst það algerlega ósæmandi, ekki sízt í sambandi við þetta frv., sem borið er fram til tollalækkunar. Ég álít, að eðlilegast væri að hv. n. kæmi saman einu sinni enn fyrir atkvgr. um frv. og skoðaði það, hvort henni er það raunverulega alvara að ætla að flétta slíkum málum hér inn í þetta frv., af því að ég hygg, að hér sé frekar um slys að ræða heldur en hitt, að n. finnist þetta viðeigandi. En ef n. sæi ekki ástæðu til þess arna, vil ég skora á þessa hv. þd. að láta málið ekki frá sér fara þannig, að hér hafi verið bætt inn í frv. ríkisstj. lið um nýjan toll á eina almennustu neyzluvöru þjóðarinnar, kaffi, sem hér er greinilega upp tekinn með þessari brtt., og til þrautar, ef ekki koma neinar till. frá n. um að taka þessa till. til baka, ætla ég að biðja hæstv. forseta d. um að bera þennan lið upp sérstaklega, svo að þm. gefist þá kostur á því að greiða atkv. á móti honum, þeim, sem annars fella sig við frv. og samþykkja það að öðru leyti.