13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

121. mál, tollskrá o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur nú fyrir til umr. um lækkun á tollum til ríkissjóðs, er gott, svo langt sem það nær. Með því er gert ráð fyrir því, eins og hér hefur fram komið í umr., að lækka tolla sem nemur í kringum 160 millj. kr. á ári, sem gæti haft þau áhrif á framfærsluvísitölu, að hún lækkaði um u. þ. b. 11/2 stig.

Í sambandi við framlagningu þessa frv. vildi ég segja það, að ég tel, að vinnubrögðum þeim, sem ríkisstj. hefur viðhaft við undirbúning þessa máls, sé verulega áfátt og að þeim beri að finna. Ég hef gert það áður við nokkuð svipað tækifæri. Því er þannig farið og það vita allir hv. alþm., að breytingar á tollskrá eru þess eðlis, að það er ekkert hlaupið að því fyrir einstaka þm. að setja sig inn í þær, svo flóknar sem þær eru og svo flókin sem löggjöfin er um það efni. Því hefur það alltaf þótt nauðsynlegt, að sérstök n. starfaði í alllangan tíma að undirbúningi slíkra breytinga, og ýmsir aðilar hafa verið kallaðir til ráða, og svo hefur jafnan þótt þurfa að kalla eftir því á Alþingi, þegar frv. hefur verið lagt fram til breyt. á tollskrá, að það þyrfti að hraða afgreiðslu málsins og þingnefndir þar að taka sér miklu skemmri tíma til að athuga málið en mörg önnur, þó þm. hafi naumast haft neina aðstöðu til að fylgjast með þeim undirbúningsvinnubrögðum, sem fram hafa farið. Ég tel, að sjálfsagt hefði verið, og sjálfsagt sé í svona tilfellum eins og þessu, að kalla til fulltrúa frá þingflokkunum og hafa þá með í ráðum um þessar flóknu breytingar, sem unnið er að á tollalöggjöfinni, en nú hefur sá háttur verið hafður á, eins og reyndar oft áður, að ríkisstj. hefur aðeins rætt þessi mál við sérstaka n. embættismanna og borið sig eitthvað saman við nokkrar starfsgreinar, eins og samtök verzlunarmanna og iðnaðarmanna og nokkrar fleiri. Og þm. hafa heyrt það af frásögnum þessara aðila, sumum, sem hafa verið að birtast í blöðum löngu áður en málið kom hér inn á Alþingi, hvað til stæði í sambandi við breytingar á tollalöggjöfinni. Þetta eru óeðlileg vinnubrögð að mínum dómi, og það ber að leiðrétta þetta. Og enn einu sinni fer ég fram á það, að þegar til þess kemur, að rétt þykir að breyta tollalöggjöfinni á ný, verði hér hafður á annar háttur en nú hefur verið í þessum efnum, þ.e. að fulltrúar þingflokkanna yrðu kallaðir til, svo að þeir hefðu aðstöðu til að fylgjast með undirbúningi málsins og gætu þá á eðlilegan hátt unnið hraðar að afgreiðslu þess, eftir að það kemur inn í þingið.

Ég sé hins vegar enga ástæðu til þess að tefja á nokkurn hátt afgreiðslu þessa máls hér á Alþingi. Ég tel meira að segja sjálfsagt að reyna að verða við beiðni hæstv. ráðh. um það, að hægt yrði að afgreiða þetta mál hér út úr d. n.k. fimmtudag, þótt sá tími sé auðvitað mjög stuttur fyrir þn. til þess að fjalla um þetta stóra mál. En ég býst við því, að hvort tveggja sé, að ráðið sé í öllum aðalatriðum, hvernig málið skuli afgreitt, og eins er það, að hér er um svo samanslungið og flókið mál að ræða, að það er mjög erfitt að koma þar fram einstökum brtt. og nokkuð vafasamt að gefa sig mikið í það, nema þá eftir allýtarlegan samanburð og athugun. Við Alþb.- menn munum því ekki á neinn hátt tefja fyrir afgreiðslu málsins og viljum ljá því fylgi okkar, því að við teljum, að út af fyrir sig stefni það í rétta átt. En þetta mál er ekki hægt að ræða eingöngu út frá því sjónarmiði, að hér sé um almenna tollalækkun að ræða. Þetta frv. er auðvitað alveg tvímælalaust einn liðurinn í efnahagsmálaaðgerðum ríkisstj. nú á þessum síðustu tímum.

Við vitum, að um það var að ræða, að í byrjun þings í októbermánuði s.l. kom ríkisstj. fram með sínar till. um ráðstafanir í efnahagsmálum. Nokkru síðar kom svo ríkisstj. með till. sínar um gengislækkun og þar stuttu á eftir kom hún með till. um ráðstöfun á gengishagnaði útflutningsatvinnuveganna, og í þessu sambandi var einnig um stórfelldar breytingar á tekjum ríkissjóðs að ræða. Og í beinu samhengi við þetta var svo það, að það þótti rétt og sjálfsagt að lækka nokkuð tollstigana frá því, sem áður hafði verið. Þessi atriði öll hanga því saman, fjalla í rauninni öll um sama meginvandamálið, og það er engin leið að ræða einn þátt þessara mála út af fyrir sig án þess að víkja nokkuð að öðrum þáttum málsins um leið.

Þegar ríkisstj. lagði í októbermánuði s.l. fram efnahagsmálatill. sínar, sem hún kallaði ráðstafanir í efnahagsmálum, gerði hún ráð fyrir því í þeim till., að hægt mundi að leysa aðalvandamál efnahagslífsins á þann hátt, að tekjur ríkissjóðs yrðu auknar um sem næmi 750 millj. kr. frá því, sem verið hafði. Að nokkru leyti átti þetta að gerast með því, að ríkissjóður minnkaði niðurgreiðslur á vöruverði og þannig yrði létt ef ríkissjóði útgjöldum, og að öðru leyti á þann hátt að leggja átti á þjóðina nokkrar nýjar álögur. Þegar ríkisstj. lagði þessar till. fram, spurðum við í stjórnarandstöðunni, hvort hún virkilega héldi, að vandi atvinnulífsins væri ekki meiri en svo, eins og komið var, að aðeins væri um það að ræða, að auka þyrfti nokkuð tekjur ríkissjóðs frá því, sem áður hafði verið gert ráð fyrir, með tekjustofnum hins opinbera. Og þá komu þau svör af hálfu ríkisstj., að það lægi ekkert fyrir um það í októbermánuði, að gera þyrfti neinar sérstakar ráðstafanir til stuðnings útflutningsframleiðslunni. Það yrði að vísu athugað eitthvað síðar, en ekkert lægi fyrir um það, að það þyrfti að veita þar frekari aðstoð en veitt hafði verið áður. Þetta var margundirstrikað hér í umr. og alveg sérstaklega af hæstvirtum forsrh. og þannig stóðu málin allt fram að þeim tíma, að til þess kom, að Bretar felldu gengið á sterlingspundinu í nóvembermánuði. Fram að þeim tíma virtist ríkisstj. líta þannig á vandamál atvinnuveganna, að hægt yrði að komast áfram með þann opinbera stuðning, sem verið hafði, en vandamálin lægju aðallega ríkissjóðsmegin, því að það þyrfti að auka við tekjur ríkissjóðs.

Þegar Bretar felldu síðan gengi sterlingspundsins um miðjan nóvembermánuð, virtist renna upp það ljós fyrir ríkisstj., að það mundi gera talsvert umfram þær till., sem hún hafði áður lagt fram um sérstakar ráðstafanir í efnahagsmálum til stuðnings útflutningsframleiðslunni. Og þá var það, sem hún komst að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að lækka gengi íslenzkrar krónu um 24,6%. Og þá var því lýst yfir, að þessar ráðstafanir hefðu nú verið ákveðnar að nákvæmlega yfirveguðu ráði og þeir, sem ákváðu skráningu gengisins, þ.e.a.s. stjórn Seðlabankans, komust þannig að orði í opinberri tilkynningu um þetta atriði:

„Eftir gengisfellingu sterlingspundsins varð gengisbreyting krónunnar hins vegar ekki lengur umflúin.“

Og var það skoðun Seðlabankans, að við þær aðstæður kæmi ekki annað til mála, en miða hina nýju skráningu við heildaraðstæður í íslenzkum þjóðarbúskap eins og þær eru nú, miða því nýja gengið við það, að hægt verði að reka útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar í heild hallalaust og án styrkja úr ríkissjóði.

Við þetta var hin nýja gengisskráning miðuð og því var lýst yfir af efnahagssérfræðingum ríkisstj. og endurtekið hér á Alþ. í umr., að þeir útreikningar, sem lægju að baki gengisskráningunni nýju, væru þeir nákvæmustu og beztu, sem um hefði verið að ræða í sambandi við ákvörðun á gengi íslenzkrar kr. Nú hefði farið fram mjög nákvæm athugun á afkomu hinna ýmsu þátta sjávarútvegsins og útflutningsframleiðslunnar, og reyndar höfðu alþm. verið upplýstir um það, hvað hinir ýmsu þættir sjávarútvegsins þyrftu í rauninni á mikilli gengislækkun að halda, til þess að þeir væru allvel settir á eftir.

Nú var það svo, að við því var að sjálfsögðu búizt, þegar ríkisstj. hafði ákveðið þessa miklu gengislækkun og birt þessar tilkynningar, að e.t.v. mundi hún nú falla frá fyrri till. um ráðstafanir í efnahagsmálum, þ.e.a.s. þeim ráðstöfunum að ætla að lækka niðurgreiðslur á nauðsynjavörum um yfir 400 millj. kr. á ári og hækka þar með allt verðlag mjög tilfinnanlega í landinu, og hún mundi falla frá því að leggja á ýmsa nýja skatta til tekjuauka fyrir ríkissjóð, falla frá kröfunni um það, að auka þyrfti tekjur ríkissjóðs um 750 millj. kr. á ári, m.a. vegna þess að öllum var ljóst, að með gengislækkuninni mundu tekjur ríkissjóðs aukast mjög verulega, því að um það var auðvitað að ræða, eins og hér var bent á í umr., að við gengisbreytinguna kom það hvort tveggja til, að ríkissjóður gat sparað sér þau útgjöld til útflutningsframleiðslunnar, sem henni höfðu verið greidd áður, en þær bætur námu rúmlega 300 millj. kr., og eins hitt, að tolltekjur ríkissjóðs hlutu að stóraukast eftir hina nýju gengisskráningu.

En þrátt fyrir allt þetta lýsti ríkisstj. því yfir, að hún mundi halda sér við sínar fyrri till. í efnahagsmálunum, þrátt fyrir gengislækkunina. Því var að vísu lýst yfir um leið, að þá mundi fjárhagur ríkissjóðs verða svo rúmur, að hægt væri að skila nokkru af þeim fjármunum til baka aftur, m.a. í lækkun tolla, og gert var ráð fyrir af hæstv. fjmrh., eins og hér hefur komið fram í þessum umr., að þessi upphæð geti numið til lækkunar á tollum í kringum 250 millj. kr.

Þannig voru þessi mál lögð hér fyrir Alþ. Þannig kom fram rökstuðningur fyrir því í sambandi við allar þessar efnahagsmálaaðgerðir, að rétt væri og hægt væri að lækka tollana sem þessari upphæð næmi. En eins og hér hefur verið sagt í þessum umr., stóðu þessar yfirlýsingar sérfræðinga ríkisstj. í efnahagsmálum og ráðh. ekki ýkja lengi, því rétt þegar búið var að ákveða þessi mál hér á Alþ., var setzt að samningaborðinu við forystumenn sjávarútvegsins, og þá kom bara allt annað upp á teninginn. Þá kom í ljós, að þessir útreikningar hinna sérfróðu manna stóðust ekki, þeir stóðust ekki reynsluna. Þá þurfti að gera sérstakan aukasamning við sjútvn. um það, að auk gengislækkunarinnar skyldi nokkrum þáttum sjávarútvegsins greidd nú á þessu ári viðbótarfjárhæð, sem næmi a.m.k. 320 millj. kr. Og þá var sem sagt þannig komið, að þeir fjármunir, sem áttu að vera fyrir hendi til þess að lækka tollana, voru ekki lengur fyrir hendi. Það, sem í tollalækkunina átti að fara, hrökk ekki einu sinni til.

Og nú hefur hæstv. fjmrh. upplýst hér, og segir enda í grg. fyrir því frv., sem hér er um að ræða, að tollalækkunin byggist beinlínis á því, að það þurfi að afla tekna á móti tollalækkuninni. Ja, þegar svo er, þá skiptir vitanlega öllu máli, að það sé gerð full grein fyrir því, hvað á þá í mun og veru að koma í staðinn fyrir þessa tollabreytingu. Jú, það á að lækka tollstigana, þannig að það gæti verið um að ræða tekjulækkun fyrir ríkið, sem nemur í kringum 160 millj. kr. á ári. En það á að afla nýrra tekna á móti, eins og segir í grg. frv., með einum eða öðrum hætti. Hæstv. fjmrh. hefur sagt hér í þessum umr., að ráðgert sé að spara í útgjöldum á fjárlögum yfirstandandi árs sem nemi í kringum 100 millj. kr., en telur sig hins vegar ekki geta gefið upplýsingar um það hér, í hvaða greinum það sé, sem draga eigi úr útgjöldum.

Í þessum efnum vil ég minna á það, að þegar verið var að afgreiða fjárlög fyrir yfirstandandi ár og einnig í sambandi við umr., sem hér fóru fram um efnahagsmálin, lagði ég allmikla áherzlu á það, að eðlilegt væri, einmitt þegar svo stæði á, að um verulegan samdrátt væri að ræða í þjóðarbúskapnum í heild, að dregið yrði nokkuð úr ýmsum útgjöldum á fjárlögum. Og við Alþb.- menn fluttum nokkrar till. í þessa átt, og við nefndum nokkur dæmi um það, hvað við héldum að spara mætti.

En ég minnist þess, að hæstv. fjmrh. sagði þá, eins og hann hefur sagt jafnan áður og fyrirrennarar hans reyndar á undan, að það væri ekki í neinni grein hægt að spara. Hann sá enga möguleika til þess, að hægt væri að draga úr útgjöldum á fjárlögum. Hann taldi þvert á móti, og stóð að till. um það hér á Alþ., að auka þyrfti verulega við tekjustofna ríkisins frá því, sem áður var. Og með afgreiðslu fjárlaga var beinlínis gert ráð fyrir því, að heildarútgjöld ríkisins og ríkisstofnana yrðu meiri á árinu 1968, en þau voru á árinu 1967.

Út af fyrir sig get ég fagnað því, að ríkisstj. skuli nú vilja endurskoða þessa fyrri afstöðu sína. En það skiptir vitanlega öllu máli í þessum efnum, á hvaða liðum á að spara, hvar á að draga úr útgjöldunum, og ég kann heldur illa við það, að þannig sé staðið að málum hér á Alþ., að lagt sé fram frv. um það að lækka tolla sem nemur 160 millj. kr., og það er rökstutt með því, að það eigi að draga úr ýmsum öðrum útgjöldum hjá ríkinu á móti, en að okkur sé ekki gerð jafnhliða grein fyrir því, í hverju þessi samdráttur í útgjöldum eigi að liggja. Auðvitað er það ekki frambærilegt að leggja málið fyrir Alþ. á þessum grundvelli. Það á vitanlega að gera Alþ. í þessum efnum grein fyrir báðum hliðum málsins, ekki aðeins annarri hliðinni. Vissulega gæti verið um það að ræða, að lagt yrði til af ríkisstj. að lækka ýmis þau útgjöld á fjárlögum, sem meiri hluti þm. teldi þýðingarmeira að halda uppi heldur en nokkurra tíma það, að fá nokkra lækkun á tollstigum á ýmsum þeim vörum, sem hér er fjallað um í þessu frv.

Ég hef minnzt hér nokkuð á samhengi þessara mála, af því það er það, sem ég tel, að hér skipti öllu máli. Því miður hefur hæstv. ríkisstj. staðið þannig að till. sínum um efnahagsmál, — en það frv., sem hér er um að ræða, er aðeins einn angi af þeim till. — hún hefur staðið þannig að þeim að undanförnu, að það hefur ekki verið traustvekjandi. Í þeim umr., sem fram hafa farið um vanda efnahagslífsins að undanförnu, hefur hæstv. ríkisstj. allmjög lagt áherzlu á það, að í þeim efnum væri eingöngu um að ræða óviðráðanleg ytri atvik, sem aðallega hefur komið fram í miklu verðfalli á okkar útflutningsafurðum og í minnkandi sjávarafla, og þetta væru aðalástæðurnar til vandans í okkar efnahagslífi, og stundum hefur hún viljað leggja þetta út á þann veg, að hér væri aðeins um tímabundna erfiðleika að ræða, og í annan tíma hefur þó hið gagnstæða verið sagt, að búast mætti við því, að þetta ástand yrði langvarandi.

Ég hef sagt í umr. um þessi mál, að ég vil ekki á nokkurn hátt draga úr því, að um mikinn vanda er að ræða í okkar efnahagslífi vegna þessara ytri áfalla. Það dregur enginn í efa, sem til þekkir, að þýðingarmiklar útflutningsvörur okkar hafa fallið í verði mjög tilfinnanlega og við höfum orðið þar fyrir nokkurri tekjuskerðingu. Á s.l. ári varð afli nokkru minni heldur en hann hafði orðið mestur áður. Það var auðvitað líka tilfinnanlegt, en þó að afleiðingarnar af þessu séu út af fyrir sig sárar og erfiðar, fer því víðs fjarri, að með því að tilgreina þetta sé skýrt rétt frá þeim vanda, sem við er að glíma varðandi íslenzkt atvinnulíf. Það er alveg óhjákvæmilegt, að ríkisstj. átti sig á því, að vandamál atvinnulífsins nú eiga rætur sínar að rekja til rangrar stjórnarstefnu í mjög þýðingarmiklum atriðum. Og atvinnuvegirnir hafa ekki þolað ytri erfiðleika, sem nú hafa steðjað að, m.a. vegna þess, að að þeim er búið í ýmsum efnum þannig, að ekki fær staðizt, ekki nema í veltiárunum.

Og svo má ekki gleyma því, að þessir ytri erfiðleikar, sem vissulega hafa skollið á okkar atvinnulífi, hafa þegar skollið að verulegu leyti á því fólki, sem vinnur að okkar útflutnings- störfum. Ég minni á það, að nýlega var frá því skýrt í grg., sem birtist frá Fiskifélagi Íslands, að andvirði fiskaflans upp úr sjó á s.l. ári væri rúmlega 800 millj. kr. minna en það var árið á undan. En hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að sjómennirnir á fiskiskipaflotanum hafa hlotið í kaup 400 millj. kr. minna á s.l. ári en þeir fengu árið á undan, því að u.þ.b. helmingur aflaverðmætisins upp úr sjó er kaup sjómanna. Það mun láta nærri, að miðað við sjómenn í föstu starfi eða þá, sem er í rauninni hægt að kalla sjómenn að meiri hluta til, miðað við tekjur þeirra, nemi þetta u.þ.b. 100 þús. kr. tekjulækkun frá árinu 1966 til ársins 1967 að meðaltali á alla starfandi sjómenn í landinu. Margir sjómenn hafa auðvitað orðið fyrir því áfalli, að tekjur þeirra hafa lækkað um miklu meiri upphæð en 100 þús. kr. Svipað er að segja um það áfall, sem verkafólk hefur orðið fyrir, t.d. í síldariðnaðinum eða fiskiiðnaðinum almennt. Tekjur þessa fólks hafa minnkað stórlega frá því, sem áður var, m.a. vegna þess að verkefnin hafa orðið minni og verkin hafa verið unnin með allt öðrum hætti, þegar um þennan samdrátt var að ræða. Það er því enginn vafi á því, að verulegan hluta af hinu margumtalaða áfalli bera hinir vinnandi menn og hafa þegar tekið á sig, hinir vinnandi menn í landinu, sjómenn, verkamenn og iðnverkafólk í mjög mörgum greinum. Þetta fólk hefur þegar tekið á sig verulegan hluta af þessu áfalli. Það var því ekki réttmætt eða eðlilegt að gera sérstakar efnahagsráðstafanir á eftir, eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert, ráðstafanir, sem færu í þá átt að auka stórlega við dýrtíð í landinu, sem yrði svo til þess, að kaupmáttur hins lækkaða kaups þessa fólks ætti einnig að minnka, þannig að hver króna, sem þessir aðilar fengju, yrði líka verðminni.

Auðvitað hafa framleiðslufyrirtæki okkar í útflutningsframleiðslunni líka orðið fyrir verulegum skakkaföllum. Bátaútvegurinn hefur orðið fyrir skakkaföllum. Verulegur hluti síldariðnaðarins hefur orðið fyrir skakkaföllum og fiskiðnaðurinn almennt hefur orðið fyrir skakkaföllum. Sá vandi, sem hér átti við að glíma í þessum efnum, var að finna lausnina á því, hvernig ætti að leysa vanda þessara aðila, sem höfðu orðið fyrir þessu áfalli. En þessum vanda vildi ríkisstj. svara á þennan hátt: Við þurfum að fá meiri tekjur í ríkissjóð, við þurfum nauðsynlega að eyða fleiri krónum á árinu 1968 heldur en við eyddum á árinu 1967, og ráðstafanir í þá átt voru gerðar. Þetta ber að mínum dómi vott um það, að ríkisstj. hafði ekki og hefur ekki enn áttað sig á eðli vandamálsins. Auðvitað var einnig hægt að grípa til þess ráðs að bæta stöðu útflutningsatvinnuveganna með því að breyta í ýmsum grundvallaratriðum um stefnu í málefnum þeirra. Það var auðvitað engin nauðsyn að halda áfram uppi, þrátt fyrir þetta áfall, sem útflutningsatvinnuvegirnir urðu fyrir, þeirri stefnu að innheimta af flestum lánum, sem til framleiðslunnar fara, 10% vexti, eða eins og gert er í mjög mörgum greinum fiskiskipaflotans, að innheimta 12% vexti ár eftir ár. En þannig er málum háttað, að þegar um vanskil er að ræða, eins og verið hefur hjá miklum hluta bátaflotans, fara dráttarvextirnir upp í 1% á mánuði, og það má því segja, að verulegur hluti af lánum sjávarútvegsins sé stöðugt á 12% vöxtum.

Ég veit, að allir þeir menn, sem eitthvað þekkja til þessara mála, komast að raun um, að það er með öllu útilokað, þegar nokkurt verðfall hefur orðið t.d. á okkar þýðingarmiklu útflutningsvörum, s.s. bræðslusíldarafurðum, þá er með öllu útilokað, miðað við það hráefni, sem hægt er að afla, að hægt sé að halda þeirri pólitík áfram, að reikna skuli af stofnlánum af okkar fiskibátum 10–12% vexti og að meðaltalslánin séu ekki nema til 10 ára. Þegar verið er að gera upp reikninga síldarverksmiðja í landinu eða annarra fiskvinnslustöðva kemur í ljós, að þau lán, sem þessir aðilar eiga að standa undir, eru flest til 8 eða 10 ára og flest með 10% vöxtum. Þetta er allt dregið frá fyrst í byrjun, áður en hægt er að ákveða, hvað þessi fyrirtæki geti gefið mikið fyrir hráefni, og hið sama þarf að gera, þegar verið er að reyna að finna afkomu fiskiskipa. Ég vil í þessu efni, aðeins til þess að skýra svolítið frekar mál mitt, nefna dæmi. Það er fróðlegt fyrir þá alþm., sem vilja setja sig inn í þessi mál, að reikna það dæmi út sjálfir.

Nú er talið, að einn sæmilega fullkominn og góður síldveiðibátur af þeirri tegund, sem við kaupum nú til dags, kosti ekki minna en 20 millj. kr. — eftir gengisbreytinguna kostar hann reyndar nokkru meira. Þau lán, sem alveg óhjákvæmilega þarf að standa undir af slíku skipi, eru ekki undir 14–15 millj. kr., þó að um talsvert myndarlegt eigið framlag hafi verið að ræða. Hér er aðeins verið að ræða um skipið eitt. Þegar svo þarf að greiða upp lánin á 10 –12 árum og greiða þá vexti, sem nú eru í gildi, er það ekki lítið fiskmagn, sem þarf að berast að landi, til þess að hægt sé að standa undir vöxtunum og afborgununum einum saman af skipinu. Miðað við það síldarverð t.d., sem var á s.l. ári, mundi um 5 þús. tonna afli eða um 50 þús. tunna veiði, sem þótti nú góð hér í eina tíð, og þótti reyndar góð líka hjá öllum á s.l. ári, ekki gefa meira í brúttóinnlegg en 5–6 millj. kr., sem þýðir það, að sá helmingur, sem fellur í hlut útgerðarinnar, nægir í þessu tilfelli ekki til þess að borga alla vexti og afborganir af skipinu einu saman yfir allt árið, eins og þessu er nú fyrir komið.

Hér er auðvitað um að ræða þá stefnu, sem barin var fram með þeim efnahagsmálakenningum, sem kenndar eru við viðreisnina, að það þyrfti að stytta stofnlánin, stytta lánstímann á stofnlánum fiskiskipa og á stofnlánum til vinnslustöðva sjávarútvegsins. Sú stefna er röng, það á að lengja lánin aftur. Ég minni enn einu sinni á það, að þau fiskiskipalán, sem höfðu verið veitt sem 20 ára lán árum saman, voru færð niður í 15 ár með viðreisnarlögunum og ákveðið var, að þau lán, sem höfðu um langan tíma verið veitt sem 15 ára lán, skyldu færast niður í 12 ár. Jafnhliða þessu voru svo vextirnir stórhækkaðir, og hvers kyns álögum hefur svo verið hrúgað á, sem auðvitað væri auðvelt að létta hér af framleiðslunni, ef skilningur væri á því, að það þyrfti að hlaupa undir bagga með þeim, sem hafa orðið hér fyrir miklum áföllum. Ágætt dæmi um þetta — sem ég hef minnzt á hér einu sinni áður — er sá ótrúlegi skattur, sem lagður er t.d. á fiskiskipakaupendur og nemur nú orðið um hálfri millj. kr. af einu einasta nýju fiskiskipi, sem keypt er til landsins, en sá skattur er þannig til kominn, að þegar hinn erlendi aðili, hin erlenda skipasmíðastöð, veitir um 70% af andvirði skipsins sem lán til 7 ára, þarf að forminu til að leggja hér fram bankaábyrgð á Íslandi fyrir þessu erlenda láni, en Fiskveiðasjóður Íslands, einn ríkasti sjóður í eigu landsmanna, hefur formlega samþykkt að sjá um greiðslu á hinu erlenda láni, yfirtaka það með því láni, sem fiskveiðasjóður ætlar að veita síðar, og standa skilvíslega við allar greiðslur. Fiskveiðasjóður veitir sitt formlega samþykki fyrir því að annast þessar greiðslur, en það þarf að fá viðskiptabanka, í þessu tilfelli Landsbankann eða Útvegsbankann, til þess að senda út eitt skeyti til byggingarstöðvarinnar í Noregi eða í öðrum löndum, þar sem skipið er byggt, um það, að það sé sett bankatrygging fyrir því, að staðið verði í skilum með þetta lán. Og fyrir það, að viðskiptabankinn sendir þetta skeyti, tekur hann nú af 20 millj. kr. skipi svona rúmlega 1/2 millj. kr.

Þó farið hafi verið fram á það að létta þessum aukaálögum af, hefur ekki verið nokkur leið að koma slíku fram, ekki nokkur leið. Þannig mætti telja upp í fjöldamörgum greinum óþarfa útgjöld í mjög ríkum mæli, sem hvíla á útflutningsframleiðslunni og gera auðvitað hag hennar með öllu óbærilegan, þegar á bjátar, þegar erfiðleikarnir sækja að. Það getur verið hægt að standa undir þessu öllu, ef síldarskipin okkar veiða yfir 100 þús. tunnur á einu einasta ári, og ef verðið á síldarlýsi og síldarmjöli er í algjöru hámarki, en um leið og nokkuð hallar undan, er sú stefna, sem nú hefur verið rekin og er rekin, ekki framkvæmanleg með neinu móti.

Ég hef hér í umr. á Alþ. æ ofan í æ bent á fjöldamarga af þessum kostnaðarliðum, sem hægt væri að létta af útflutningsframleiðslunni og kæmi henni að miklu meiri notum heldur en ýmsar þær kákráðstafanir, sem verið er að framkvæma hér svo að segja árlega. En niðurstaða hinna vísu manna í þessum efnum virðist helzt vera að slá því föstu, að þeir atvinnuvegir, sem við höfum byggt á, og þá einkum og sérstaklega sjávarútvegurinn, séu svo veikir, það sé svo fallvalt að treysta á þá, að við verðum að leita annarra ráða. Og svo kemur hver fyrirlesarinn af öðrum í útvarp eða birtir greinar sínar í blöðum um það, að fangaráðið sé m.a. það, að við fáum útlendinga til þess að koma hér upp atvinnustöðvum til þess að leysa okkar vandamál.

Ég hef fyrir mitt leyti ekkert á móti því, síður en svo, að grundvöllur íslenzks atvinnulífs sé breikkaður, það sé reynt að vinna að því að koma hér upp nýjum atvinnugreinum. Það hefur vissulega mikið gildi. En ég hefði gaman af að sjá, hvaða erlent fyrirtæki það er eða hvaða erlendur einkafjármagnseigandi, sem fengist til þess að setja upp nokkurt atvinnufyrirtæki á Íslandi og eiga að ganga undir sömu skilmála með rekstrarskilyrði og t.d. okkar sjávarútvegur verður að ganga undir í dag. Það er nú aldeilis munur að geta stofnað þannig til fyrirtækis, að ekki þurfi að borga einn einasta eyri í toll af öllu því, sem til þess þarf að koma upp atvinnufyrirtækinu. Það eru engin smáræðishlunnindi. Við skulum athuga það, að samkv. þeim tölum, sem fyrir liggja, er þessum málum þannig fyrir komið hjá okkur, að rúmlega þriðji parturinn af þeim gjaldeyri, sem til fellur við útflutning, kemur aftur inn sem beinar innflutningstekjur í ríkissjóð, vegna þess að hér er um svo mikil og almenn innflutningsgjöld að ræða. Og það eru einmitt okkar aðalatvinnuvegir, sem verða að standa undir þessum gjöldum öllum. Þeir verða í rauninni að standa á óbeinan hátt undir rekstri þjóðarbúsins í heild. En þeir erlendu aðilar, sem enn hafa sézt í atvinnurekstri á Íslandi, hafa samið sig undan því að vera á nokkurn hátt háðir því verðlagi, sem hér er um að ræða innanlands. Sannleikur málsins er sá, að þó að okkar aðalútflutningsatvinnuvegur, sjávarútvegurinn, hafi orðið fyrir áfalli á s.l. ári, með því að afurðir, þýðingarmiklar afurðir hafa lækkað í verði, fer því víðs fjarri, að sjávarútvegurinn hafi sem slíkur bilað. Við vitum það, að sú aflaminnkun, sem varð á s.l. ári, varð þó ekki meiri en svo, að heildaraflinn verður að teljast mjög mikill hjá okkur, mjög mikill. Og hefði ekki verið um að ræða alveg óvenju óhagstæða tíð síðustu mánuði ársins, hefði aflinn orðið þétt að því eins mikill og árið á undan. Á því leikur lítill vafi. Og þó að okkar útflutningsvörur hafi fallið nokkuð í verði, er þó ekki hægt að halda því fram, t.d. um frosna fiskinn, að þar sé um neitt nauðungarverð að ræða. Það er tiltölulega hagstætt verð. En það er að vísu ekki eins gott og það, sem við höfðum fengið bezt áður.

Rétt er það, að sjávarútvegurinn hefur ekki bilað hjá okkur. Það er ekki ástæða til þess að gefa hann upp á bátinn þess vegna. En við þurfum að horfast í augu við þann vanda, þegar um efnahagsmál okkar er að ræða, að ýmis meginatriði í þeirri stefnu, sem gilt hefur á undanförnum árum, fá ekki staðizt nema í veltiári. Þeim atriðum þarf að breyta, ef við ætlum að hafa þann afrakstur af þessum atvinnuvegi, sem við getum haft. Og við þurfum auðvitað líka að skilja það, að t.d. okkar sjávarútvegur, svo þýðingarmikill sem hann er, hefur enn þá ekki verið nýttur í íslenzku þjóðarbúi nema að litlum hluta til. Í þeim efnum minni ég t.d. á það, að við Alþb.- menn höfum flutt hér till. um það æ ofan í æ á Alþ., að ríkisvaldið skerist í leikinn og reyni að greiða með ýmsum hætti fyrir þeirri nýju útflutningsgrein, sem tengd er við niðursuðu og niðurlagningu á sjávarafurðum.

Ég var nýlega að sjá það í norsku blaði, að þar voru birtar tölur um útflutning Norðmanna nú á s.l. ári einmitt á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum. Og þá kom það þar í ljós, að útflutningur Norðmanna á s.l. ári á þessum vörum hafði vaxið verulega. En hitt þótti mér þó enn þá merkilegra, að verðmæti þessa útflutnings í Noregi nam talsvert hærri upphæð en útflutningurinn á öllum frystum sjávarafurðum frá Íslandi á heilu ári, og er þó frystiiðnaðurinn langsamlega stærsti og þýðingarmesti liðurinn í okkar útflutningi. M.ö.o., við höfum varla nálgazt það verkefni enn þá að fullvinna okkar sjávarafurðir t.d. í líkingu við það, sem Norðmenn gera til útflutnings. Við eigum allt þetta verkefni eftir. En það þarf vitanlega að leggja talsvert að sér til þess að vinna upp nýja framleiðslugrein. Það verður ekki gert með því að loka lánsstofnunum fyrir tilraunum manna í þá átt að byggja upp þessa atvinnugrein eða bjóða upp á 8–10 ára lán með 10–12% vöxtum eða á þann hátt, að atvinnugreinin verði að standa undir allri þeirri ofsayfirbyggingu, sem íslenzkur sjávarútvegur verður að standa undir nú hjá okkur.

Ég hef nú rætt þetta mál nokkuð hér á víðum grundvelli, og það stafar af því, að ég lít á það frv., sem hér er um að ræða til lækkunar á tollum, sem einn lið í efnahagsmálatill. ríkisstj. Og mér þótti því eðlilegt að benda á það hér um leið, að það eru allar þessar efnahagsmálatill. stjórnarinnar, sem þurfa að takast til endurskoðunar. Það er það, sem máli skiptir. Það er rangt að mínum dómi að ætla að gefast upp við þau vandamál, sem við er að glíma í okkar aðalatvinnuvegum, þó að nokkuð hafi bjátað á, en við þurfum að sveigja stefnuna til meira hagræðis fyrir útflutningsatvinnuvegina heldur en gert hefur verið, og við munum ábyggilega ekki bjarga okkur út úr þessum vandamálum með því að halda okkur í þessa stefnu ag ætlast til þess, að útlendingar komi hér inn til okkar og leysi öll okkar vandamál. Því fer fjarri.

Að öðru leyti skal ég svo endurtaka það, að við Alþb.-menn erum fylgjandi þessu frv., svo langt sem það nær til lækkunar á tollum, teljum, að það stefni þannig í rétta átt og munum greiða fyrir því, að það nái hér fram að ganga. En hitt skiptir þó miklu meira máli, að hæstv. ríkisstj. átti sig á því, að hún þarf að breyta um stefnu í ýmsum grundvallaratriðum í efnahagsmálum, ef á að vera hægt að komast út úr þeim vanda, sem við er að glíma í íslenzku atvinnulífi nú í dag.