13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

121. mál, tollskrá o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar fjárlög fyrir árið 1968 voru afgreidd hér á Alþ. fyrir jólin, var það gert á þann hátt, að greiðslujafnaðaráætlunin stóð nokkurn veginn í járnum, þ.e.a.s. það voru mjög svipaðar upphæðir, sem gert var ráð fyrir, að greiddar yrðu út úr ríkissjóði á árinu, og inn kæmu. En það var þó jafnframt gert ráð fyrir því, að vegna gengisbreytingarinnar yrðu umframtekjur 250 millj. kr. Það var sú tala, sem hæstv. ríkisstj. áætlaði og það var gert ráð fyrir því, að þeirri upphæð, þessum 250 millj. kr., yrði varið til þess að lækka tolla og vega þannig upp á móti hækkun vöruverðs af völdum gengisbreytingarinnar.

Nú hefur það gerzt síðan fjárlög voru afgreidd, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. í dag, að stjórnarvöld hafa samið við sjávarvöruframleiðslufyrirtækin, en mestur hluti útflutningsvara er frá þeim, um sérstakt framlag úr ríkissjóði til þessarar framleiðslu, sem talið er að nemi, eftir því sem hæstv. ráðh. sagði, 322 millj. kr. Vegna þessa hefur svo hæstv. ríkisstjórn ákveðið, að tollalækkunin verði nokkru minni heldur en gert hafði verið ráð fyrir, þ.e.a.s. um 160 millj. kr. Þegar báðar þessar tölur eru teknar saman, er niðurstaðan sú samkv. því, sem hæstv. ráðh. sagði, að þurft hefur að hækka einkasöluvörur nokkuð, og er áætlað, að tekjur af þeirri hækkun verði um 64 millj. kr., og tollalækkunin ennfremur ráðgerð allverulegri upphæð minni heldur en gert hafði verið ráð fyrir við setningu fjárlaga, en þrátt fyrir það vantar enn eftir því, sem hæstv. ráðh. sagði, um 100 millj. kr. til þess að áætla megi fjárlögin greiðsluhallalaus nú.

Nú var það svo í vetur, þegar um þetta var rætt, að þá greindi hv. þm. nokkuð á um tekjuáætlunina. Og því var af sumum haldið fram, að tekjuaukning ríkissjóðs vegna gengisbreytingarinnar mundi verða meiri heldur en gert var ráð fyrir. En þetta sjónarmið var ekki viðurkennt þá af hæstv. fjmrh. og er ekki, svo að ég hafi heyrt, viðurkennt enn. Það liggur því fyrir samkv. því, sem fram kemur hjá honum, að það vanti kringum 100 millj. kr. í tekjubálk fjárlaga, og hæstv. ráðh. segir, að ætlunin sé að vinna þessar 100 millj. kr. upp með því að lækka einhverja útgjalda- eða útborgunarliði. En hann er enn ekki reiðubúinn til þess að segja hv. þm., hvaða till. hann muni leggja fram eða hæstv. ríkisstj. um lækkun útborgunarliða. Þetta hefur orðið mér tilefni til ýmissa hugleiðinga um þetta mál, og ég vil mjög taka undir það, sem fram kemur í áliti minni hl. fjhn. í hv. Ed., sem var útbýtt hér á fundinum, en þar segir í nál. frá minni hl.: „Það er skoðun okkar undirritaðra, að raunar sé tæpast gerlegt fyrir alþm. að samþykkja slíka breytingu á nýafgreiddum fjárl. án þess að hafa nokkra hugmynd um, hvaða starfsemi það er, sem fórna skal, og ekkert liggur fyrir, sem tryggi það, að síðari villan verði ekki verri hinni fyrri.“ Ég hygg, að það, sem hv. minni hl. í Ed. á við, minni hl. fjhn., sé rétt, að það hefði verið eðlilegt, að málið lægi þannig fyrir nú, þegar þetta frv. um tollabreytingar er afgreitt, að hv. þm. gætu fengið heildarmynd af þessum lagabreytingum, sem stjórnin hugsar sér að gera, í einu, þ.e.a.s. tollalækkuninni og einstökum liðum hennar og þeim till., sem gerðar verða um lækkun einstakra útgjaldaliða.

Alþ. hefur nokkra reynslu af því frá fyrri árum, að þegar þörf þykir á því að draga úr útgjöldum ríkisins, er það venjulega ein tegund útgjalda eða útborgana, sem augu ráðamanna staðnæmast við. Og það eru útgjöld til verklegra framkvæmda. Og ég er að velta því fyrir mér, hvort það komi til greina, að hæstv. ríkisstj. líti svo á, að sú tollalækkun, sem ráð er fyrir gert í frv., geti leitt af sér að hennar dómi lækkun á framlögum til vega, hafnargerða, skólabygginga, rafvæðingar og annarra slíkra framkvæmda, sem miða að uppbyggingu víðs vegar um landið. Eða er það kannske svo, að hæstv. ríkisstj. sé nú orðin þeirrar skoðunar, að tekjuáætluninni frá því í vetur megi breyta? Út af þessu finnst mér ákaflega erfitt á þessu stigi málsins að taka afstöðu til þessa frv. Og ég vil taka það skýrt fram, og það er reyndar í samræmi við það, sem ég sagði við umr. fjárl. í vetur, að ég mun ekki líta á samþykkt þessa frv. sem neina viðurkenningu, a.m.k. ekki af minni hálfu, á því, að vegna samþykktar þess verði nauðsynlegt að draga úr framlögum til verklegra framkvæmda. Þetta vil ég, að fram komi nú þegar við þess umr.