15.02.1968
Neðri deild: 62. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

121. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Frsm. meiri hl. fjhn. hefur nú fylgt úr hlaði áliti meiri hl. n. fyrir tollskrárfrv. því, sem hér liggur fyrir til umr. og afgreiðslu á þskj. 283, og rætt þá m.a. þær brtt., sem fjhn. sameiginlega hefur komið með á þskj. 290 um það, að 5. tölul. 2. gr. falli niður, en það er ákvæði um heimild til fjmrh. til að gefa eftir tolla af vélum til niðursuðuverksmiðja, er framleiði vörur til útflutnings. Það voru allir sammála í n. og fagna ég því, að þessi till. kom fram.

Þá vil ég einnig lýsa mig samþykkan brtt. á þskj. 291, þar sem er kveðið á um, að tölul. 1. í 2. gr. falli niður. Um brtt. á þskj. 293 um lækkun nokkurra tolla vil ég ekki fjölyrða. 1. flm. mun sjálfsagt gera það hér undir þessum umr. En ég vil með nokkrum orðum ræða álit minni hl. fjhn., sem er á þskj. nr. 292 og útbýtt hefur verið í Nd. Eins og kom fram í ræðu frsm. meiri hl., höfum við skilað tveimur álitum. Fjhn. þessarar hv. d. hefur komið saman til fundar og ræddi frv., en þar sem frv. hafði verið rætt ýtarlega áður á sameiginlegum fundum fjhn. beggja d. og rætt hafði verið við nokkra embættismenn, sem bezt þekktu til frv., þurfti eigi að eyða löngum tíma til að ræða frv. í fjhn. Nd. Enda þótt allir fjhn.- menn séu frv. efnislega sammála, eins og fram hefur komið, var eigi grundvöllur fyrir því eins og málum er nú háttað, að gefa út sameiginlegt nál. og við samanburð álitanna sést hvað veldur.

Ég gæti að sjálfsögðu flutt hér langa ræðu um þetta tollskrárfrv. og ástand og horfur í efnahagsmálum. Fjölyrða mætti hér um efnahagsmálafrv., sem var lagt fram í byrjun þingtímans í haust, og afdrif þess, um gengislækkunarl. og alla útreikningana í sambandi við þau, en ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um allt þetta og lengja hér fundartímann, þótt tilefni sé til, því að hvort tveggja er, að ýtarlegar umr. fóru fram við 1. umr. um tollskrármálið hér í hv. d. í fyrradag, og undir þeim umr. komu fram í ræðum tveggja þm. Framsfl., hv. 4. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. e., sjónarmið og afstaða Framsfl. til þessa máls og til allrar málsmeðferðar. Þess hefur og verið óskað af hæstv. fjmrh., að þessu máli væri hraðað og það afgreitt frá hv. d. nú í dag og er enn þá meiri þörf að hraða því, þar sem sýnilegt er, að það þarf að fara til Ed. og það er vitað, að lagasetningin um umræddar tollalækkanir hefur dregizt um of og hefur verið til skaða fyrir innflytjendur og óhagræðis fyrir ríkissjóð. Með þetta í huga mun ég hafa mál mitt styttra en ella.

Minni hl. fjhn. flytur ekki sem slíkur brtt. við tollskrárfrv., þótt við, sem skipum minni hl., höfum haft ríka löngun til slíkrar tillögugerðar. Þessa ákvörðun tókum við eftir að formaður fjhn. Ed. hafði á fyrsta sameiginlega fundi nefndanna beggja gefið ákveðna yfirlýsingu um það, að hverjar brtt., sem við myndum gera tilraun til að koma með, mundu verða felldar. Það var því alveg óþarfi að vera að leggja vinnu í slíka tillagnagerð.

Engu að siður vil ég leyfa mér að minna á, að þm. Framsfl. hafa á mörgum undanförnum þingum borið fram brtt. við tollskrána. Þeir hafa t.d. lagt til, að tollur á hráefni til iðnaðar yrði lækkaður. Við vitum það, að það þarf að efla íslenzkan iðnað og lækkun tolla á hráefnum iðnaðarins mundi líftryggja hann verulega í náinni framtíð, en samfara slíkum tollalækkunum þarf íslenzka þjóðin öll að vakna til meðvitundar um, að hún sjálf, hver einstaklingur og heildin öll, verður að byggja upp íslenzkan iðnað. Öðruvísi verður það ekki gert, m.a. með því að meta meir íslenzkar framleiðsluvörur en gert er í dag.

Hvaða rök mæla t.d. með því, að við skulum vera að kaupa og neyta sardína frá Portúgal á sama tíma og hægt er að fá þær norðan úr Eyjafirði, og hvaða rök mæla með því, að við skulum vera að leggja okkur til munns norskar fiskbollur á sama tíma og við getum fengið þær keyptar hjá góðu framleiðslufyrirtæki í Kópavogi? Svona mætti lengi spyrja.

Þm. Framsfl. hafa í sambandi við tollamálin á Alþ. lagt til, að tollar á landbúnaðarvélum yrðu lækkaðir til samræmis við vélar, sem notaðar eru í sjávarútvegi. Þessar till. framsóknarmanna um tollalækkanir hafa ekki náð fram að ganga. Ég vil minna á, að þm. Framsfl. hafa oftar en einu sinni lagt til, að lækkaðir yrðu tollar á byggingarefni og rafknúnum heimilistækjum og ýmsum fleiri nauðsynjavörum. En allt hefur verið fellt. Vitanlega væri freistandi að koma með till. til lækkunar tolla á þessum vörum, en við í minni hl. fjhn. gerðum það ekki af ástæðu, sem þegar hefur verið greint frá. Þrátt fyrir þessa stefnu að flytja nú ekki sérstaka brtt. við umrætt frv. og tefja þannig málið, mun Framsfl. síðar gera tilraun til að fá frekari lagfæringu á tollstigum varðandi þá tollflokka, er ég hef minnzt á. Þessi mál eru sem sé ekki gleymd.

Herra forseti. Um leið og ég lýk máli mínu, vil ég undirstrika það, sem áður hefur verið sagt af talsmönnum Framsfl. við 1. umr., sérstaklega varðandi tvö atriði þessa máls. Þm. Framsfl. telja, að við umr. og afgreiðslu l. um heimild handa Seðlabankanum um breytingu á gengi íslenzku krónunnar, hafi ríkisstj. skýlaust lofað þjóðinni tollalækkun, sem næmi allt að 250 millj. kr. Nú reyndist þessi upphæð tæpum 100 millj. kr. lægri. Vörur lækka því ekki í verði eins og heitið hafði verið. Framsfl. telur, að ríkisstj. hafi í þessu tilliti gengið á gefin heit og slíkar aðfarir valdi þjóðinni ekki einvörðungu vonbrigðum og beiskju, heldur beinu tjóni. Þá lýsir Framsfl. óánægju sinni yfir því, að ekki hefur reynzt unnt að fá yfirlýsingar ríkisstj. um það, hvernig ætlunin sé að afla tekna að upphæð rúmlega 100 millj. kr. til að standa undir þessu frv. Okkur er sagt, að það eigi að lækka útgjaldaliði fjárl. um rúmar 100 millj. kr. og sjálfsagt er það eina lausnin. En ekkert svar hefur enn fengizt við spurningum um, hvaða útgjaldaliðir verði lækkaðir eða jafnvel strikaðir út. En í trausti þess, að ekki verði ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur, munu þm. Framsfl. greiða atkv. með tollskrárfrv. á þskj. 283, því að ekki veitir af að létta af þjóðinni nokkru af þeim auknu byrðum, sem á hana voru lagðar með gengislækkunarlögunum.