15.02.1968
Neðri deild: 62. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

121. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. fjhn. fyrir mjög skjóta og góða afgreiðslu þessa máls og jafnframt að þakka hv. stjórnarandstæðingum hér í d. fyrir það, hversu vel þeir hafa brugðizt við tilmælum mínum um það að hraða afgreiðslu málsins svo sem verða má og blanda ekki inn í það öðrum málum, sem vitanlega bæði eru til staðar af hálfu ýmissa manna úr stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðuflokkunum, því að vitanlega eru ýmis atriði tollskrárinnar, sem hafa á undanförnum árum verið hér til umr. og menn hafa talið ástæðu til að breyta.

Ég vil taka það fram, að ég fyrir mitt leyti get algerlega fallizt á þær till., sem hv. frsm. meiri hl. n. lýsti hér og hv. frsm. minni hl. n. tók fram, að hann gæti einnig stutt fyrir sitt leyti. Ég gerði grein fyrir því hér við 1. umr. málsins, að sú ákvörðun að leggja til að fella niður heimildina til að endurgreiða tolla af vélum vegna niðursuðuiðnaðarins, byggðist á því, hversu þar væri um erfitt viðfangsefni að ræða í framkvæmd, þar sem gert væri ráð fyrir, að það væri takmarkað við niðursuðuiðnað til útflutnings. Hins vegar hefur komið fram hér sterkur vilji úr ýmsum áttum fyrir því, að þessi heimild verði áfram í gildi, og það er ekkert atriði fjárhagslega fyrir ríkissjóð, hvort svo er áfram, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að amast við því, úr því að hv. þm. kjósa það fremur.

Varðandi öryggisbelti í bifreiðar má segja, að það er mál, sem er nokkuð nýtt af nálinni. Frv. um það efni hefur verið til afgreiðslu í Ed. og virðist fylgi þess máls benda til þess, að það muni fá samþykki hér á Alþ. Þá skapast nýtt viðhorf varðandi þessi öryggistæki, og vitanlega er eðlilegt að flokka þessi öryggisbelti undir almenn öryggistæki, en ekki varahluti í bifreiðar, þannig að sú till. er einnig mjög eðlileg.

Varðandi 3. till. um það að fella niður þá heimild frv., sem um það ræðir, að undanþága fyrir tollfrjálsum innflutningi af bókum á íslenzku máli, sem prentaðar eru erlendis, sé við það miðuð, að tollur sé þá greiddur af bókagerðarefninu, þá er það rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að með því að fella það ákvæði niður úr frv., verður í því máli, eins og það er framkvæmt nú, ekki um neina breytingu að ræða. Það er hins vegar rétt, að það komi fram, sem öllum hv. þdm. mun vera kunnugt, að þetta bókagerðarmál er mikið vandamál. Það var ætlunin að reyna að leysa það í sambandi við tollabreytingarnar nú, ef við hefðum haft það fé til umráða, sem við vonuðumst til í byrjun, að til ráðstöfunar yrði, en það er um mjög verulegan tekjumissi að ræða, ef farið verður út í að breyta tolli á pappírs- og bókagerðarefni, og saman við það hangir einnig umbúðamálið, þannig að ekki eru tök á að gera það og má þá út af fyrir sig rökstyðja það, að eðlilegt sé, að það verði status quo í því efni og þessi till. því ekki óeðlileg á þessu stigi að breyta í engu þessum bókagerðarmálum.

Um till. þá, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. lýsti hér áðan, um að fella niður tolla af búvélum, skal ég ekki orðlengja og sízt af öllu fara að efna til umr. um hana, því að hann gerði það ekki sjálfur og vildi ekki lengja umr. og þakka ég honum það. Hins vegar vil ég aðeins vekja athygli á því, að þetta er auðvitað eitt af þeim málum, sem þarf að taka til íhugunar, tollamál atvinnuveganna í sambandi við vélar þeirra. Það er ekki langt síðan tollar á landbúnaðarvélum voru almennt lækkaðir úr 35% niður í 10% og þá rökstutt með því, að það væri til samræmis við vélatolla sjávarútvegsins eða útflutningsframleiðslunnar, og það er rétt, að það komi fram hér. Það er rétt hjá honum, að skip eru tollfrjáls, en yfirleitt eru allar vélar til útflutningsframleiðslu tollaðar með 10% tolli eða nákvæmlega þeim tolli, sem á þessum búvélum er nú í dag, þannig að þar er ekki um ósamræmi að ræða, en mjög hætt við, að það kæmi fljótt upp krafa um frekari lækkun á tollum, bæði vélum til sjávarútvegsins og ekki hvað sízt vélum til iðnaðarins, sem eru yfirleitt í mun hærri tollflokki, ef þessi breyting ein út af fyrir sig yrði gerð, og þetta veit ég, að allir hv. þdm. munu gera sér ljóst. Sú eina heimild, sem við höfum til meðferðar hér í dag, þar sem um er að ræða algera undanþágu á tolli á vélum í þágu sjávarútvegsins, er í sambandi við niðursuðuiðnaðinn, sem lagt er til af hv. fjhn., að áfram gildi, en aðrar vélar, bæði hjá hraðfrystiiðnaðinum og vélar hjá sjávarútveginum yfirleitt að undanskildum bátavélum og skipum, eru með 10% tolli.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta, en endurtek þakkir mínar til hv. þm. í þessari d. fyrir að hafa lagt sitt til þess að hraða afgreiðslu málsins.