19.02.1968
Efri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. og mun ekki tefja fyrir því, en það kom fram hjá hæstv. ráðh., eins og raunar margoft hefur komið fram hér, að sífellt verður að hraða málum, sem þó eru æðiyfirgripsmikil og ástæða væri til fyrir alþm. að kynnast allnáið. Það ber og að sama brunni, að ráðh. minntist á, að það lægi á að fara að greiða upp í fyrir fram veitta aðstoð til frystihúsa á árinu 1968. Eru það 45 millj. kr., sem áætlað er að greiða nú á sama hátt og greitt hefur verið með hagræðingarfé. Nú í æðimarga daga hefur, eftir því sem ég bezt veit, legið tilbúinn listi í Seðlabankanum um, hvaða upphæðir frystihúsin eigi að fá af þessu, en það hefur ekki verið hægt að greiða það út enn þá, af hvaða ástæðum sem það er. Kannske er það af þeirri ástæðu, að þetta frv. er ekki orðið að lögum. Það er sífellt klifað á því, eins og ég gat um áðan, að við þurfum að hraða meðferð þessara mála.

Frv. það, sem hér er lagt frsm, er í rauninni staðfesting á því tilboði, sem ríkisstj. gerði hraðfrystiiðnaðinum snemma í janúar, en Alþ. var ekki haft þar með í ráðum. Þetta tilboð var fram komið, til þess að grundvöllur fengist að dómi ríkisstj. fyrir hallalausum rekstri hraðfrystiiðnaðarins á árinu 1968. Alþm. fá oft að lesa það í blöðum, að ríkisstj. hafi tekizt á hendur skuldbindingar, svo að nemi milljónatugum eða milljónahundruðum, áður en það kemur inn í sali Alþingis og áður en alþm. fá um það að fjalla. Þetta er tilkynnt svona utan dagskrár, að við munum eiga von á þessu seint og um síðir. Ég verð að lýsa yfir megnri óánægju minni og fordæma þau vinnubrögð, sem svona eru viðhöfð æ ofan í æ, þegar hlutur Alþingis er sífellt gerður minni en ætlazt er til í stjskr. landsins. Alþ. hlýtur að gera þá kröfu að fá að ræða mál á eðlilegan hátt, áður en þau eru afgreidd og koma til framkvæmda hverju sinni. Alþ. á ekki að vera nein sýndarstofnun til þess að setja einhvern stimpil á vafasama útreikninga sérfræðinga eða gefa þeim lagagildi. En ég skal ekki vera mjög margorður, aðeins fara örfáum orðum um þetta frv. og fara þar að vilja hæstv. ráðh., því að ég veit, að það liggur á að afgreiða þetta, ef biðin eftir þessum milljónum fer eftir því, hvort frv. verður fljótt að lögum eða ekki.

Þegar gengi íslenzku krónunnar var breytt á s.l. hausti, var setið í heila viku yfir því að reikna út, hver gengislækkunin þyrfti að vera, svo að aðalatvinnuvegirnir gætu gengið hallalaust og án þess að ríkissjóður veitti þeim nokkra aðstoð. Síðan hefur að vísu verið dregið í land með þetta, að ekki hafi verið hægt að sjá það fyrir og ekki hægt að miða gengisfellinguna við þarfir atvinnuveganna. En að baki þeirrar niðurstöðu, sem birt var í nóvembermánuði í sambandi við gengislækkunina, lágu beztu og nákvæmustu útreikningar, sem fyrir hendi höfðu nokkru sinni verið að því er látið var að liggja.

Áður en gengisbreytingin var framkvæmd, hafði því margoft verið lýst yfir hér á Alþ., m.a. undir umr. um efnahagsmálatill. frá því í október, að ekkert lægi fyrir um, hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til stuðnings útflutningsatvinnnvegunum. Það yrði athugað síðar.

Efnahagsmálatillögurnar, sem sáu dagsins ljós í október voru fyrst og fremst miðaðar við að leysa vanda ríkissjóðs, þ.e. auka tekjur hans um 750 millj. kr., svo að endarnir næðu þar saman. En vandi atvinnuveganna var óleystur eftir sem áður. Sá vandi, sem þá blasti við í atvinnu- og efnahagsmálum, átti ekki nema að nokkru leyti rót sína að rekja til verðfalls afurðanna 1966 og 1967 eða aflabrests á vetrarvertíð. Auðvitað urðum við fyrir áfalli af þessum sökum, og skal ég sízt neita því eða draga úr því — því neitar enginn. En eftir eitt mesta og samfelldasta góðæristímabil í sögu þjóðarinnar á undanförnum árum áttu atvinnuvegir þjóðarinnar að vera svo undir búnir, að þeir gætu um sinn mætt lakara árferði. En það var nú síður en svo. Málum var svo háttað, að atvinnuvegirnir voru alls vanbúnir að mæta þeim erfiðleikum.

Það var öllum ljóst snemma á síðasta ári –löngu fyrir kosningar — að það voru slíkir erfiðleikar fram undan, að það yrði að gera ráðstafanir í tæka tíð til þess að mæta þeim. Ör verðbólguþróun og hömlulaus fjárfesting hafði bitnað á þessum atvinnuvegum, svo að þeir stóðu mjög höllum fæti, og var því nauðsynlegt að snúast við vandanum strax. En ekkert var aðhafzt, heldur var látið reka á reiðanum fram yfir kosningar. Í kosningabaráttunni var nú aldeilis ekki sá tónn, að eitthvað væri að — síður en svo. Það var allt á mjög traustum grunni — efnahagsmálin í stakasta lagi. Ég vil taka það enn fram, að ég tel ekki, að ríkisstj. geti séð fyrir eða ráðið við verðlækkun afurða á erlendum mörkuðum, enn síður að ríkisstj. geti séð það fyrir, hvort vel eða illa aflast. En ríkisstj. bar að snúast við þessum vanda með öllum tiltækum ráðum, en ekki láta allt reka á reiðanum. Í stað þess að snúast til varnar og takast á við vandann var þjóðinni talin trú um, að allt væri í bezta ástandi. Stjórnarandstæðingarnir væru svartsýnismenn og barlómsmenn, sem héldu því fram gegn betri vitund, að grundvöllur atvinnuveganna væri brostinn. Það tókst að blekkja þjóðina í það sinn og dylja sannleikann fram yfir kosningar. En auðvitað kom kaldur veruleikinn í ljós, þegar kom fram á haustmánuði. Veruleikann, hversu napur, sem hann var, var ekki hægt að dylja. Síðan hefur hver mánuðurinn liðið öðrum erfiðari, og stöðvun sjávarútvegsins blasti við um áramótin þrátt fyrir gengislækkun á s.l. hausti.

Gengislækkunin var ákveðin með tilliti til stöðu atvinnuveganna. Almennt var það talið óhjákvæmilegt að fylgja pundinu. En nú skyldi bíða og athuga stöðu atvinnuveganna vandlega, og færustu sérfræðingar settust niður til að reikna og reikna og kváðu svo loks upp þann úrskurð að lækka þyrfti gengi krónunnar um 24,6%. En þessi gengislækkun væri nú betur undirbúin en hinar fyrri, því að nú hefðu legið fyrir meiri og betri upplýsingar en áður og hægt hefði verið að byggja á traustum gögnum — enn traustari gögnum en fyrr. Áður hefðu menn þurft að reikna þetta, ef svo mætti segja, á hnjám sér. Nú væri einhver munur, því að nú þyrfti ekkert annað en að fletta upp. Nú væru gögn til yfir allt saman. Það þyrfti ekkert annað en að reikna, leggja saman, draga frá, setja síðan punkt og ákveða, hver gengislækkunin skyldi vera. En eitthvað hefur nú skeikað, að því er öllum virðist, eins og nú er orðið ljóst, og þarf ég ekki að vera margorður um það.

Í grg. fyrir þessu frv. segir, að það sé ljóst, að hraðfrystiiðnaðurinn verði rekinn með verulegum halla á árinu 1968, og nýjar upplýsingar bendi til þess, að afkoman verði mun lakari en búizt hafi verið við. Nýjar reikningsskekkjur, að því er virðist, en nú er því bara skellt á frystiiðnaðinn sjálfan. Hann hafði fegrað svo afkomu sína, eftir því sem segir hér í grg., að starfsmenn Efnahagsstofnunarinnar sáu ekki við honum í fyrstu atrennu. Það er kannske mannlegt að kenna öðrum um, en tæplega er það stórmannlegt, þegar því líka er lýst yfir í öðru orðinu, að aldrei hafi legið fyrir jafnglöggar upplýsingar um ástand og hag atvinnuveganna, og hefði því átt að vera hægt að reikna hann út rétt.

Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kanna þá töflu, sem fylgir þessari grg., né heldur á hvaða gögnum hún er byggð. Væntanlega fær sú n., sem málið fær til meðferðar, að sjá einhver gögn yfir þetta, svo að þm. fái nokkra vitneskju um það, sem Alþ. á að afgreiða. En það virðist þó — af blaðafregnum að dæma — æðimikið bera á milli þess, sem frystiiðnaðurinn telur vera tekjuþörfina, og þess, sem Efnahagsstofnunin ætlar að þurfi, og eins og ég sagði, hef ég ekki haft neina aðstöðu til þess að kanna þetta. En ég vil aðeins minnast á eitt litið dæmi. Mér skilst, að í sambandi við skreiðarverkunina skakki aðeins á þeim eina lið um 30 millj. kr. á þeim tekjulið, sem Efnahagsstofnunin og sölusamtökin áætla. Efnahagsstofnunin muni áætla um 30 millj. kr. meiri tekjur til frystiiðnaðarins en sölusamtökin vilja viðurkenna. Það virðist vera mjög hæpið að áætla tekjur frá ári til árs síhækkandi vegna óseljanlegrar vöru, og þar við bætist, að skreiðarverkun hlýtur að dragast stórkostlega saman á þessu ári af augljósum ástæðum, þegar fyrir eru í landinu miklar birgðir af óseljanlegri vöru. Ef þetta er rétt tala, sem við erum að tala um hér — og ég hef ekki aðstæður til að fullyrða um, að þarna skakki 30 millj. — finnst mér slíkur útreikningur vægast sagt nokkuð hæpinn. Ef fleiri liðir eru þannig, þætti mér ekki einkennilegt, þó að einhverjar frekari skekkjur kæmu í ljós. En væntanlega fá alþm. að kanna þetta og sjá, á hverju þessir reikningar byggjast.

Þessar ráðstafanir, sem hér er verið að fjalla um, eru engar ölmusur eða styrkir til sjávarútvegsins eða frystiiðnaðarins. Þessi undirstöðuatvinnuvegur ætlast ekki til annars en að fá að búa við sambærilegan rekstrargrundvöll og þeir atvinnuvegir hafa, sem þjóðinni eru lífsnauðsynlegir. Við hljótum að verða að byggja næstu áratugina okkar aðalgjaldeyrisöflun á sjávarútvegi, og þá verðum við líka að vera menn til að búa svo að þessum atvinnuvegi, að hann geti starfað af þrótti. Ef hann er í erfiðleikum, verða keðjuverkanir í öllu atvinnulífi, og erfiðleikar frystiiðnaðarins ná ákaflega víða. Ég tel það enga goðgá — síður en svo — þó að afkoma þessa undirstöðuatvinnuvegar væri þannig, að hann hefði fyrir afskriftum og einhverjum vöxtum af stofnfé. Hraðfrystiiðnaðurinn þarf á miklu fé að halda. Þróunin í þessum iðnaði, hvað snertir alla tækni, er mjög ör, og það hlýtur alltaf að vera nokkur fjárfesting í sambandi við þetta; það verður ekki umflúið. Það verður þjóðinni alltaf farsælast, ef hún býr svo að þessum atvinnuvegi, að hann starfi af þrótti, en sé ekki reyrður í einhverja heljarfjötra lánsfjárskorts eða skriffinnsku. Ég hef þá trú og vissu, að sjávarútvegurinn hafi aldrei brugðizt þjóðinni, nema þegar forystumenn þjóðarinnar hafa misst trúna á gildi barns fyrir þjóðarbúið.

Hæstv. sjútvmrh. minntist lítillega á það, að það væri verið að vinna að hagræðingu í þessum iðnaði. En hvað líður þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið og átti, eftir því sem talið var á síðustu dögum fyrir kosningar, að vera búið að framkvæma? Öll gögn í sambandi við þetta hafa legið í a.m.k. 7–8 mánuði hjá sérfræðingum. Ég veit ekki betur. Ef það er ekki rétt með farið hjá mér, ætla ég, að hið rétta komi í ljós. Það bólar ekkert á þessum ráðstöfunum enn þá, að því er virðist. Ég hef enga löngun til að gera lítið úr vilja ríkisstj. til þess að gera eitthvað jákvætt í þessu máli. En hitt harma ég mjög, hvað þetta gengur hægt. Það virðist svo sem allt framkvæmdavald í þessu efni sé reyrt í einhverja heljarfjötra sérfræðinga, sem séu svo önnum kafnir, að þeim vinnist ekki tími til þess að sinna bráðnauðsynlegum málum. Vonandi fá þessar ráðstafanir að sjá dagsins ljós mjög fljótlega. Það er mjög þýðingarmikið fyrir þennan iðnað, og það verður þá væntanlega séð um, að þeir, sem eiga að vinna þessi verk — að kanna þessi gögn, sem fyrir liggja — gefi sér tíma til þess að vinna þetta verk, sem ekki þolir neina bið.

Ástand undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar virðist vera mjög bágborið — vægast sagt. Stefnan í efnahagsmálum undanfarinna ára hefur sýnt það mjög ljóslega, að hún hefur ekki staðizt það árferði, sem við höfum búið við. Það mun sjálfsagt einsdæmi, að mánuði eftir gengisfellingu skuli hag útflutningsatvinnuveganna vera svo komið, að þeir séu bókstaflega komnir í þrot, nema til komi stórar fjárhæðir frá ríkissjóði. Það hafa á undanförnum árum verið lögð á þennan atvinnuveg í mjög vaxandi mæli ýmis útgjöld, sem hann fær ekki risið undir, á sama tíma sem verðbólguþróunin hefur bitnað harkalega á útflutningsatvinnuvegunum. Þess vegna er það óhjákvæmilegt að breyta um stefnu í þessum málum og leggja höfuðáherzlu á að endurreisa efnahagslífið og ástand þessara atvinnuvega. Stórstígar framfarir á sviði tækni og þekkingar munu gerbreyta aðstöðu sjávarútvegsins, til þess að hann haldi áfram að vera sá máttarstólpi íslenzku þjóðarinnar, sem hann hefur verið — styrkasta stoðin í íslenzku atvinnulífi, sem sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar mun byggjast á. Þess vegna verðum við að leggja megináherzlu á það að auka fjölbreytni í framleiðslu sjávarafurða og finna nýjar leiðir til aukinnar hagnýtingar náttúruauðæfa okkar bæði til hafs og lands. Þess vegna verður að gera allt, sem hægt er í sambandi við aukna hagræðingu og framleiðni í sjávarútveginum og í vaxta- og lánamálum, svo að sæmandi sé. Ég verð að segja það, að ég tel það lítt sæmandi fyrir þjóð, sem á svo mikið undir sjávarútveginum, að ætla honum að greiða 10–12% vexti af verulegum hluta af því fé, sem hann þarf að hafa undir höndum.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri, en endurtek aðeins, að ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, veiti nm. og alþm. upplýsingar í þessum vandamálum, svo að vitneskja liggi fyrir um, á hverju þetta er byggt, svo að við sjáum, hvaða gögn hafa verið lögð til grundvallar. Sjávarútvegurinn hefur ekki bilað, enda þótt erfiðleikar hafi hrjáð hann undanfarið, og þýðing hans fyrir þjóðarbúið hefur ekki minnkað. Hann hefur aldrei brugðizt, eins og ég sagði áðan, nema þegar forystumenn þjóðarinnar hafa misst sjónar á gildi hans fyrir þjóðarbúið. Efnahagsstefna undanfarinna ára virðist ekki standast nema í metaflaárum, og þess vegna þarf að horfast í augu við þann vanda, sem af því hefur leitt, og breyta um stefnu og búa þannig að undirstöðuatvinnuvegunum, að þeir starfi af þrótti. Ef það verður gert og þýðing sjávarútvegsins fyrir þjóðarbúið réttilega metin, mun atvinnuleysi ekki verða umræðuefni manna á meðal, hvorki hér á Alþ. né annars staðar.