19.02.1968
Efri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja hérna örfá orð í tilefni af því frv., sem hér er til umr. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, og ekki að fara út í þær umr., sem hafa orðið milli hæstv. sjútvmrh. og hv. 3. þm. Vestf. sérstaklega. En hinu er þó ekki hægt að neita og tæplega orða um að bindast, að illa hefur tekizt með það aðalfyrirheit hæstv. ríkisstj. að koma atvinnuvegunum á traustan og heilbrigðan grundvöll. Það sannast enn með flutningi þessa frv., og má segja, að ekki hafi þó þurft frekari sannana við.

Hér er nú til umr. aðstoð til hraðfrystihúsanna um um það bil 200 millj. kr. Hún er þó ekki meiri en svo frá þeirra sjónarmiði séð, að það er tekið fram sérstaklega í aths. með frv., að sú afkoma, sem húsunum með þessu móti er búin á árinu 1968, getur að sjálfsögðu ekki verið framtíðargrundvöllur. Það er m.ö.o. það illa ástatt hjá þessum hraðfrystihúsum, að þessar 200 millj. kr. duga á engan hátt til þess að koma málum þeirra fyrir nema til eins árs og er þá ekki neinu spáð um verðlag eða aðrar aðstæður.

Ástand annarra atvinnuvega hefur nokkrum sinnum verið hér til umr. í hv. d., og lýsingarnar, sem þaðan berast, eru heldur ekki sérstaklega glæsilegar, þannig að hér er sjáanlega mjög illa komið. Nýjar atvinnugreinar hafa ekki nema að mjög óverulegu leyti komið til, þannig að sýnilegt er, að hér verður duglega á að taka, ef á að vera hægt að breyta um til batnaðar.

En það, sem ég vildi aðeins vekja athygli á í sambandi við þetta mál, er það, að ég tók svo eftir hjá hæstv. sjútvmrh. hér áðan, að hann talaði um, að það þyrfti að leggja fram frv. til tekjuöflunar. Nú vita allir hv. dm. það, að þegar gengisbreytingin var gerð síðast, varð veruleg tekjuaukning hjá ríkissjóði. Á fjárl. var það, að mig minnir, eitthvað um 300 millj., sem tekjuaukningin var áætluð vegna aukinna tolltekna, sem leiddu af því, að tollurinn lagðist á hærri grunn heldur en annars var. Við munum það líka, að þessum fjármunum var búið að ákveða að ráðstafa til þess að lækka tolla. Nú er nýverið búið að fjalla um þessa tollalækkun hér

í þessari hv. d., og hv. Alþ. Hún var nú ekki 250 millj., eins og talað hafði verið um, heldur varð hún 160 millj. En það var ekki hægt að standa undir henni af tekjum ríkissjóðs, heldur þurfti að gera sérstakar ráðstafanir til þess vegna þess, eins og segir í grg. með því frv., að á síðustu vikum hafa lagzt stórfelldar nýjar kvaðir á ríkissjóð, svo að ekki er lengur um neinn tekjuafgang að ræða til að mæta tollalækkunum. Þessar 160 millj. kr. tollalækkanir átti að bera uppi á tvennan hátt — með því að afla nýrra tekna af einkasölu áfengis og tóbaks og með því að lækka gjöldin á fjárl. vegna þess, eftir því sem þessi grg. sýnir, að þessar nýju álögur á ríkissjóð voru komnar til sögunnar, og allir vita, hvaða álögur þar er átt við. Þar er átt við þær umbætur, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að semja um við forystumenn sjávarútvegsins undanfarnar vikur og nú sjá dagsins ljós.

Mér kemur það þess vegna mjög spánskt fyrir sjónir, ef það er rétt skilið, að til þess að mæta þessum uppbótum, sem þetta frv. fjallar um 202 millj. kr., þurfi að gera sérstakar tekjuöflunarráðstafanir, og mig langar þess vegna til þess að spyrja hæstv. sjútvmrh. að því, áður en málið fer lengra, hvort þessi skilningur er réttur. Og ef hann er ekki réttur, hvaða tekjuöflunarráðstafanir var þá hæstv. sjútvmrh. að boða áðan? Ég get ekki skilið það, að tekjur ríkissjóðs á árinu 1968 hafi rýrnað svona stórkostlega, síðan fjárlög voru afgreidd hér rétt fyrir jólin, að ekki sé fjármagn í ríkissjóði á næsta ári til þess að standa undir þessum greiðslum. Það má vera, að hæstv. sjútvmrh. hafi átt við, að frekari ráðstafanir vegna sjávarútvegs eða annarra atvinnuvega þyrfti að gera og fjármagn vantaði vegna þeirra. Það mundi ég geta skilið. En það kemur ekki heim og saman, að ríkissjóður sé þannig á vegi staddur núna, að hann þurfi að gera sérstakar tekjuöflunarráðstafanir til þess að standa undir þessum 202 millj. kr., þegar þess er gætt, að tollalækkanirnar voru afgreiddar á annan hátt. Þetta langaði mig til þess að fá upplýst, annaðhvort núna eða við fyrsta tækifæri.

Ég tek svo alveg undir það, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði hér áðan, að það eru orðin næsta hvimleið vinnubrögð að afgreiða málin úti í bæ og koma svo til Alþ. og biðja það að afgreiða þau í einum grænum hvelli, vegna þess að ráðstafanirnar þoli enga bið. Það er vafalaust alveg rétt, að frystihúsin mörg komast ekki af stað án þess að fá þessar 45 millj. kr., sem ráðgert er að greiða þeim nú strax eftir efni þessa frv. að dæma, og það er vafalaust rétt — og áreiðanlega rétt, — að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hafa ekki heimild til þess að greiða það úr ríkissjóði án samþykkis Alþ. En eftir hverju var verið að bíða? Er ekki langt síðan þessir samningar voru gerðir — alllangt síðan? Og af hverju voru þeir ekki fluttir strax inn á hv. Alþ. — a.m.k. eftir að þeim var lokið — þó að það kunni að vera, að það hafi verið óheppilegt, meðan á þeim stóð að afla heimildar Alþ.? Ég held, að það verði að breyta um vinnubrögð í þessu efni — að það verði að ætla Alþ. einhvern hlut að málum og einhvern tíma til að afgreiða þau mál, sem því eru fengin til meðferðar.