19.02.1968
Efri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er aðeins tilefni þeirrar fsp., sem hv. 11. þm. Reykv. beindi til mín, hvort þær viðbótarfjáraflanir, sem ég vék að í minni framsöguræðu, væru vegna þeirra skuldbindinga, sem í þessu frv. felast. Þá vil ég staðfesta, að það er réttur skilningur; það er vegna þeirra skuldbindinga, sem í þessu frv. felast. Fyrir þeim fjáröflunaraðferðum mun verða gerð grein, þegar frv. um það efni liggur fyrir.

Að öðru leyti vil ég segja, að það er ekki alveg sama hjá sumum hv. þdm., þ.e. stjórnarandstæðingum, hver í hlut á. Þegar ríkisstj. er að undirbúa sín frv., þarf hún nánast lítinn eða engan tíma til þess, en það gegnir öðru máli, þegar frv. liggja fyrir. Ég held, að það væri meira jafnræði að ætla báðum aðilum nokkurn tíma í þessu efni. Ég hef ekki tímasett mínar óskir um afgreiðslu þessa máls. Ég lét einungis í ljósi þær óskir minar, sem ég veit, að ég ber fram fyrir hönd þeirra aðila, sem þarna eiga hlut að máli, að afgreiðslu málsins yrði hraðað svo sem kostur væri á.