22.02.1968
Efri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og haldið fund með sjútvn. Nd. um málið. Fullt samkomulag varð um það í n. að mæla með samþykkt frv., en þó áskilja einstakir nm. sér rétt til að flytja brtt. um einstök atriði eða fylgja slíkum till., ef fram kunna að koma.

Um eitt atriði hefur n. í heild borið fram brtt. Það breytir í sjálfu sér engu um efni frv., því að þegar við 1. umr. hafði komið fram yfirlýsing hæstv. sjútvmrh. um, að sú aðferð yrði höfð, sem þar greinir. Okkur fannst þó þinglegra og skemmtilegra að ganga þannig frá frv., að það kæmi greinilega í ljós, að til þess væri ætlazt, að samráð yrði haft við hraðfrystiiðnaðinn um úthlutun þeirra 25 millj. kr., sem um ræðir í síðari mgr. 2. gr. frv., en það er hinn sérstaki styrkur, sem er ætlaður hinum svokölluðu „miðhúsum“ eða þeim húsum, sem hvorki teljast í bezta né lakasta flokki, en er verulegur fjöldi af hraðfrystihúsum landsmanna.

Á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um efni frv. eða aðdraganda þess. Þau atriði voru rædd hér við 1. umr., en ef tilefni gefst til, kann að vera, að ég taki þátt í slíkri umræðu á síðara stigi.

Ég leyfi mér því að mælast til þess, að frv. verði vísað til 3. umr. með þeirri breytingu, sem sjútvn. hefur lagt til.