22.02.1968
Efri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. Eins og fram kom hjá frsm. og í nál. er sjútvn. sammála um þetta frv., svo langt sem það nær, og sammála þeirri brtt., sem liggur fyrir. En það var í sambandi við 1. gr., sem ég hafði ásamt 5. þm. Reykn. og 3. þm. Norðurl. v. ákveðið að flytja brtt., sem kæmi þó ekki fram fyrr en við 3. umr. Ég vildi lýsa henni hér nú þegar.

Það er brtt. við 1. gr., þar sem talað er um verðbótina. Við teljum, að það muni verða ákaflega erfitt í framkvæmd að ætla að fara að skipta tímabilinu. Það væri eðlilegast að hafa þetta allt árið og líka eðlilegast að línu- og handfærafiskur kæmi þarna til. Það hlýtur að verða nokkuð erfitt í framkvæmd að eiga að fara að greina á milli línu- og handfærafisks á þessum tíma. Það kom fram í n. hjá fleirum, að það mundi verða nær ógerningur að greina þar á milli, þegar bátar reru og væru með einn eða tvo stampa og legðu nokkra lóðarstubba, en fengju svo meiri hlutann af aflanum á færi, en kæmu að landi með eintóman línufisk.

Við höfum sem sagt hugsað okkur að flytja brtt. um, að 60 aura verðuppbót yrði á hvert kg af línu- og handfærafiski allt árið. Ég get getið þess, að persónulega teldi ég, að það væri eðlilegt, að það yrði þá lækkað niður í 50 aura heldur en hafa þessa skiptingu og að 50 aura greiðslan kæmi á línu- og handfærafisk allt árið. Ég vildi aðeins lýsa þessu strax við þessa umr., en brtt. verður lögð fram fyrir 3. umr.