07.03.1968
Neðri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. þm. Austf. og hv. 1. þm. Vestf. að flytja brtt. við 2. gr. þessa frv., sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi: Enn fremur leggur ríkissjóður fram á árinu 1968 allt að 15 millj. kr., er verja skal til að greiða vinnslustöðvum, sem hafa erfiða rekstraraðstöðu, vinnsluuppbætur á smáfisk, á tilteknar fisktegundir og á fisk veiddan á vissum tímum árs eftir reglum, sem ráðuneytið setur að fengnum till. Fiskifélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna.“

Eins og kunnugt er, er rekstraraðstaða frystihúsa mjög misjöfn á ýmsan hátt. M.a. er hún misjöfn að því leyti, að þau fá mismunandi mikið hráefni. Stundum mun minna en þeim er hentugt miðað við vinnslugetu, og einnig er það svo, að það hráefni, sem frystihúsin fá, er mjög misjafnlega dýrt í vinnslu og á sumum stöðum, einkum norðanlands og austan, er tiltölulega mikið í hráefninu af smáfiski, tiltölulega meira en annars staðar. Sá afli verður mun dýrari í vinnslu en hinn. Þegar það kemur til, að sama verð er á hráefninu án tillits til þessa og einnig af öðrum ástæðum, verður vinnslan í þessum frystihúsum dýrari en í öðrum, og það hefur glögglega komið fram undanfarin ár í rekstri þessara húsa, sem hér eiga hlut að máli. Það er reyndar ekki ný saga, að þessi munur á því, hvað hráefnið er dýrt í vinnslu, komi fram hjá frystihúsunum. Það kom einnig fram hér fyrrum fyrir gengisbreytinguna 1960, og þá voru greiddar úr Útflutningssjóði sérbætur á slíkt hráefni til vinnslustöðvanna. Árangurinn af því varð sá, að rekstur margra slikra frystihúsa varð þá um skeið bærilegur. En þegar gengisbreytingin kom til sögunar 1960, var litið svo á af ýmsum, að hún leysti yfirleitt þau vandamál, sem útvegurinn og fiskvinnslan ætti við að stríða, og þá voru þessar sérbætur felldar niður — þessar vinnslubætur. Það hefur komið glögglega í ljós síðan, að þetta var misráðið og vinnslubótanna var þörf þrátt fyrir gengisbreytinguna.

Við, sem að þessari till. stöndum, höfum hæði fyrr og síðar á þessum tíma, og sérstaklega, eftir að farið var að greiða verðuppbætur á sjávarafurðir á ný, flutt till. í þessa átt. Vegna þess að áður hefur verið á þingum mælt fyrir slíkum till., skal ég ekki hafa fleiri orð um þessa till., en ég vil mega vænta þess, að hv. þm. geti fallizt á að veita ríkisstj. þessa heimild, sem hér er um að ræða. Það er ekki um annað að ræða en heimild til að ráðstafa allt að 15 millj. kr., og með því að greiða þessari heimildartill. atkv. kemur það í ljós, að hv. þm. gera sér ljóst, að þarna sé vandamál fyrir hendi.