07.03.1968
Neðri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á sérstöku þskj. tvær brtt. við þetta frv. og skal nú gera nokkra grein fyrir þeim.

Í 1. gr. frv, er gert ráð fyrir sérstökum aukabótum á línuveiddan fisk. Gert er ráð fyrir því, að meiri hluta ársins verði þarna um að ræða 60 aura á hvert kg af fiski til viðbótar því grundvallarverði, sem ákveðið er af Verðlagsráði og þegar hefur verið tilkynnt. En nokkurn tíma ársins, eða nánar tiltekið frá 16. maí til 30. september, er gert ráð fyrir, að þessar aukaverðbætur nemi aðeins 30 aurum á kg fyrir línuveiddan fisk.

Þessar bætur, sem um er gefið í 1. gr., eiga að ná eingöngu til línufisks, en hliðstæðar bætur, sem greiddar hafa verið áður, hafa verið miðaðar við færafisk og línufisk, en þessi fiskur hefur verið tekinn út úr og verðbættur nokkuð sérstaklega.

Ég tel, að sú breyting, sem gerð er á þeim reglum, sem í gildi hafa verið, með ákvæðum þessarar 1. gr., sé óréttlát og röng. Eða hvernig stendur á því, að nú er lagt til að greiða 60 aura aukauppbætur á fiskverð á vetrarvertíðinni, en ekki á vor- og sumarvertíð?

Lengi var það svo, að það þótti rétt að greiða nokkrar aukabætur á fiskverð einmitt á vor- og sumarvertíðum umfram það, sem var á vetrarvertíð, vegna þess að vitað er, að á vetrarvertíðinni er rekstrargrundvöllurinn tiltölulega beztur. Þá er aflavonin mest, og aflinn samkvæmt allri reynslu hefur þá verið mestur. Helzt er þá við því að búast, að reksturinn standi undir sér á þeim tíma, en hins vegar er úthaldstíminn að vorinu og sumrinu tiltölulega veikastur. Aflinn er minni þá og rekstrarafkoman léleg. Hins vegar er það mikilvægt fyrir fiskiðnaðinn í landinu, að nokkur útgerð sé í gangi þennan tíma líka, m.a. til þess að lengja starfstíma frystihúsanna.

En nú er sem sagt reglunni allt í einu snúið við. Nú er ákveðið að greiða sérstakar verðuppbætur sem nema 60 aurum á línuveiddan fisk á vetrarvertiðinni og á haustvertið, en skilja sérstaklega undan línuúthald yfir vortímann og sumartímann; þá skal greiða aðeins 30 aura á kg í þessar aukaverðbætur. Hvaða rök eru fyrir þessu? Þau koma hvergi fram. Það er vitað, að vorvertíð með línu hefst einkum og sérstaklega á Austurlandi og Norðurlandi um þetta leyti. Aðallínuúthaldið er einmitt að byrja á Austurlandi og Norðurlandi að vorinu til og stendur einnig yfir sumarið. Það virðist þá vera sérstaklega ætlunin að koma illa við þessa aðila með því, að þá skuli þeir verða að búa við lægra fiskverð en annars er almennt ákveðið í landinu. Ég undrast þetta ákvæði mjög og hef ekki getað fengið neinar skýringar á því, hvað liggi hér á bak við. Ekki annað en þetta, sem er svo algengt hér, að þegar ríkisstj. og einhverjir sérfræðingar hennar eru búnir að setja eitthvað saman í frv. og leggja það fyrir Alþ., þá segja jafnvel þeir, sem hafa fjallað um málin í n., þótt þeim sé bent á mistökin í meðferð málsins: „Ja, það er bara ekkert við þessu að gera, það er lagt til að hafa það svona, og svona verður það að vera.“

Ég flyt hér brtt. um það að breyta þessu ákvæði og gera ráð fyrir því, að þessar aukafiskverðsbætur á línuveiddan fisk verði jafnmiklar allt árið, 60 aurar á kg, hvort sem fiskurinn er veiddur á línu að vorinu, sumrinu til, á haustin eða að vetrinum. Ég skal hins vegar alveg hiklaust lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég teldi, að það væri þörf á því að hafa þessar aukabætur nokkru meiri yfir vor- og sumartímann en yfir vetrartímann og reyndar einnig nokkuð meiri að haustinu til, þá er yfirleitt veikara úthald.

En þessi regla, sem nú er tekin upp hér, að ætla enn þá hærri bætur yfir vetrarvertíðina en yfir vor- og sumarvertíðina, er alveg fráleit, og hún kemur til með að bitna í framkvæmd alveg sérstaklega á þeim sem gera út á Austurlandi og Norðurlandi, því að það er staðreynd, að á þessum tíma er einmitt hvað mest um línuútgerð frá þessum landshlutum.

Þá legg ég til í minni brtt., að gert verði ráð fyrir því áfram, að þessar aukaverðbætur nái einnig til færafisks. Ég tel alveg fráleitt að ætla þessar aukabætur eingöngu á línuveiddan fisk og í rauninni lítt framkvæmanlegt. Allir vita það, að færafiskurinn er sérstakur úrvalsfiskur, ekkert síður en línufiskurinn, og þess vegna er vitanlega fullt eins mikil ástæða til þess að verðbæta hann eins og að verðbæta línufiskinn.

Stundum er því haldið fram, að línuútgerðin sé miklu kostnaðarsamari en færaútgerð. Rétt er það út af fyrir sig. En vitanlega er líka um það að ræða, að reiknað er með því, og þannig hefur það verið um langan aldur hjá okkur, að línan hefur verið notuð, þótt hún væri kostnaðarsamari en færaútgerðin, vegna þess að hún hefur gefið miklu meiri afla. Ég þekki ekki mörg dæmi þess, að færaútgerð sem nokkru nemur, sé sérlega ábatasöm í rekstri. Það þykir gott, þegar þeir, sem að slíkri útgerð standa, geta haldið þar sómasamlegu kaupi. Ég tel því fulla ástæðu til þess, að þessar aukaverðbætur á fisk nái einnig til færafisks, eins og þær gerðu áður.

Ég vil líka benda á þau miklu vandkvæði, sem verða á því að framkvæma þetta. Hvað gera smábátarnir, sem gerðir eru út á línu og handfæri svo að segja jöfnum höndum yfir sumartímanm allt í kringum landið? Þeir, sem fóru með færin sín á miðin, held ég, að hafi haft með sér allgóðan stubb af línu í bátnum og notað hann kannske í leiðinni, og svo verða þeir sennilega einir til frásagnar um það, hvað er línufiskur og hvað er færafiskur. Sá matsmaður er ekki til á Íslandi, að hann þekki þennan fisk í sundur. Það er þá kannske með þessu verið að knýja fram, að menn segi enn meira ósatt til um þessa hluti alla og framtal sitt en hingað til hefur verið. Ég held, að þetta sé í framkvæmd alveg fráleitt, það eigi ekki að vera að fara út á þessa braut og það sé réttmætt að hafa þessar aukaverðbætur á færafiskinn ekkert síður en á línufiskinn. Hér er ekki um svo stóra upphæð að ræða, að það geti skipt máli, og ég held líka, að það sé í rauninni alveg ómögulegt að greina þarna á milli.

Mín till. miðar því að því að breyta 1. gr. frv. þannig, að þessar aukaverðbætur verði jafnháar allt árið, en ekki lægri yfir sumarið eins og gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., og þær nái jöfnum höndum til færafisks og línufisks.

Þá vil ég einnig benda á það í þessu sambandi, að raunverulega er hér farið mjög illa með þá aðila, sem stunda færafiskirí. Það hefur verið fullyrt, að reiknað sé með því, að fiskverð eigi að hækka á þessu ári frá því, sem það var í fyrra, svona að meðaltali um 10%, en í ljós kemur við athugun, þegar tekið er tillit til allra aðstæðna, að færafiskurinn hækkar ekki um nein 10%. Hann lækkar í flestum tilfellum í verði frá því, sem áður var. Í bezta falli er um það að ræða að hægt sé að tala um, að það sé óbreytt verð á færafiski, en auðvitað hefur svo tilkostnaðurinn gjörsamlega breytzt frá árinu í fyrra vegna þeirra efnahagsráðstafana, sem gerðar hafa verið. Það á með öðrum orðum að gera hlut þeirra, sem stunda sjó með þessu veiðarfæri, mun lakari en áður var. Ég held, að þetta komi þá niður á þeim, sem sízt skyldi. Og ég held, að þetta verði ekki til þess í framkvæmdinni að örva útgerð á þessu tímabili ársins, sem sérstaklega hefði þó þurft að örva úthaldið á, og það verði ekki til þess að bæta á neinn hátt afkomu frystiiðnaðarins í landinu, en að því átti nú að stefna með þessu frv.

Þá er hin brtt., sem ég flyt hér á þskj. 347. Hún er um það, að ákvæði í 2. gr. frv. taki nokkrum breytingum, en í 2. gr. eru ákvæði um það, að greiða skuli frystihúsunum í landinu á þessu ári 152 millj. kr. í aukagreiðslur og að þessi fjárhæð skuli skiptast milli frystihúsanna eftir framleiðslumagni húsanna á frystum fiskafla. Þó er það ákvæði í gr., að ekki skuli miðað við það framleiðslumagn, sem verður í húsunum í sambandi við frystingu á síldarafurðum; þær eru sem sagt undanþegnar. Ég legg til í minni brtt., að felld verði niður þessi ákvæði um, að frystar síldarafurðir skuli hér ekki taldar með í sambandi við útdeilingu á þessum sérstöku aukaverðbótum. Ég býst við því, að þetta ákvæði sé enn í þessu frv. í framhaldi af því, sem var í l. áður, vegna þess að reiknað hafi verið með því, að útkoman sé mun hagstæðari hjá frystihúsunum við að frysta síld en að frysta ýmsar aðrar fisktegundir, og það má vera, að það hafi verið stundum. Þó á þetta ekki við um allar fisktegundir, síður en svo.

En ég tel alveg augljóst mál, að á þessu ári hlýtur að verða sú breyting, að hráefnisverð — eða verð á nýrri síld til vinnslu — hlýtur að hækka allverulega. Það er ómögulegt, að svo verði haldið á málum, að sú hækkun á saltsíld, sem á sér stað með gengisbreytingunni, verði ekki látin koma fram að verulegu leyti í hækkuðu síldarverði til síldveiðiskipa og síldarsjómanna. Ég reikna þess vegna með því, að síldarverð til söltunar muni verða hækkað talsvert mikið, en af því leiðir það, að engin von er til þess, að síld verði fryst til útflutnings að neinu ráði á þeim tíma, sem söltun síldar yfirleitt fer fram, án þess að frystingin geti einnig borgað þetta hækkaða verð, sem verður á nýju síldinni, því að það verður að vera hliðstætt verð á nýrri síld í frystingu og til söltunar. Það hefur reynslan sýnt okkur. En ef nýja síldin hækkar til söltunar og einnig til frystingar, þá dreg ég mjög í efa, að það eigi sér stað nokkur frysting á síld, sem heitið getur, ef þessar sérstöku aukagreiðslur til frystihúsanna, sem gert er ráð fyrir með þessu frv., eiga ekki að neinu leyti að koma síldarframleiðslunni eða síldarfrystingunni til góða. Afleiðingin yrði því sú að mínum dómi, að vel gæti farið svo — og allar líkur eru til þess, að það fari svo — að það verði fryst miklu minna af síld en efni standa til — m.ö.o. að við nýtum miklu minna af síldinni til þeirrar verkunar, sem mestum peningum skilar fyrir þjóðarbúið, og það er vitanlega óhagstætt.

Ég legg því til í minni brtt., að þessar greiðslur, sem um er að ræða til frystihúsanna, megi einnig koma á þá framleiðslu frystihúsanna, sem er af síldarafurðum — að sjálfsögðu eftir nánari ákvörðun ráðherra þar um — en ef frv. yrði samþykkt eins og það er hér, er þetta alveg bannað, og þá gætum við staðið frammi fyrir því, að vinnslan á þessari síld yrði harla lítil.

Um þessi tvö atriði fjalla nú þessar tvær brtt. mínar, og þá vil ég einnig geta þess, að ég er andvígur síðari mgr. í 2. gr. frv., sem fjallar um það, að greiða skuli 25 millj. kr. með nokkuð sérstökum hætti til frystihúsanna í landinu til svokallaðrar endurskipulagningar. Þó eru ekki í gildi enn nein lög um þessa endurskipulagningu frystiiðnaðarins — engar reglur. Það hefur nokkuð verið fitjað upp á þeim hér á Alþ., en engar reglur settar enn um þetta annað en það, sem hér kemur fram í grg. þessa frv., sem er að mínum dómi næsta hæpið, þ.e. að sagt er frá því, að það sé búið að flokka frystihúsin í landinu í þrjá meginflokka, og gerð nokkur grein fyrir því. Einn flokkurinn er kallaður bezti flokkur. Það eru um 20 frystihús, sem hafa sýnt á einu tilteknu ári bezta rekstrarafkomu. Svo kemur þar annar flokkur, sem er nokkru stærstur, og er kallaður miðflokkur. Í þeim flokki eru 28 frystihús og þykja hafa svona meðalafkomu. Síðan er þriðji flokkurinn, og þar eru 20 frystihús, sem talin eru lökustu frystihúsin. Og í grg. frv. segir m.a. um þessar 25 millj. kr. og útdeilingu þeirra, með leyfi hæstv. forseta:

„Afkoma húsanna í miðið myndi þó vera nokkru betri en 1966, enda gert ráð fyrir, að þau njóti hlutfallslega nokkru meiri aðstoðar en önnur hús. Á hinn bóginn verður að gera ráð fyrir, að rekstur margra lökustu húsanna hætti.“

Það er sem sagt boðað, að 25 millj. kr. af því fé, sem þetta frv. fjallar um, á ákveðin stofnun, Seðlabankinn, að útdeila með þeim hætti, að það eru tiltekin frystihús, 28 talsins, í svo nefndum miðflokki, sem eiga að fá þar sérstakan aukaskammt, t.d. umfram það, sem beztu frystihúsin í landinu — þau sem hafa verið bezt rekin — fá. Svo að ekki sé nú minnzt á það, sem þau í lakasta flokknum fá, sem eiga beinlínis að leggja upp laupana, eftir því sem boðað er. Ég tel alveg fráleitt að ákveða það, að ákveðin stofnun, eins og Seðlabankinn, skuli eiga að fá það vald að deila út 25 millj. kr. svona nokkurn veginn fríhendis, því að engar reglur hafa verið settar um það, hvernig ákveða megi, að þetta frystihús fái 1 millj. kr. aukreitis, hitt fái 1/2 millj. kr., það næsta 1/3 millj. kr. o.s.frv. Síðan er öðrum frystihúsum tilkynnt, að þau fái ekki neitt, því að þau séu svo vel rekin og öðrum tilkynnt, að þau fái ekki neitt, af því að þau eigi raunverulega að gefast upp að fullu og öllu. Þetta tel ég alveg fráleitt. Vissulega kemur til greina að ganga til þess verks, sem kallað hefur verið endurskipulagning frystiiðnaðarins, og reyna að vinna að því, að frystihúsin í landinu séu sem bezt rekin, húsin séu hvorki fleiri né færri en þörf er á, þau séu af þeirri stærð, sem bezt hentar o.s.frv. og þau séu vel rekin. En þegar þetta er orðið þannig, að tekið er eitt ár, miðað er við skattaframtöl frystihúsanna og húsunum skipað í afkomuflokka á þann hátt, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, og síðan á ákveðin stofnun, eins og Seðlabankinn að fá aðstöðu til þess að mismuna húsunum verulega í rekstri með fjárframlögum — ekki lánveitingum, heldur beinum fjárframlögum — þá tel ég vera farið út á hæpna braut. Ég fyrir mitt leyti vil ekki greiða atkv. með svona ákvæði alveg blindandi. Ég vil fá um það reglu fyrir fram, hvernig á að deila þessu fé út, og að það verði gert á þann hátt, að búast megi við því, að þessi iðnaður batni sem heild á eðlilegan hátt frá því sem áður var.

Ég dreg það ekki í efa fyrir mitt leyti, að það kunni að vera nokkur frystihús í landinu, sem að skaðlausu mættu hætta rekstri. Ég held hins vegar, að þau séu ekki mörg, og ég vil alls ekki skrifa undir það, að þau séu 20 eða þar yfir. Ég er hræddur um, eð menn eigi eftir að reka sig á það við nánari athugun, að við komumst ekki hjá því að halda í gangi allmörgum frystihúsum í landinu á fámennum stöðum, á meðan þar búa einhverjir sjómenn eða einhverjir þeir, sem sækja sjó, og vilja stunda fiskimiðin umhverfis landið, jafnvel þó að rekstur þeirra frystihúsa geti ekki út af fyrir sig skilað jafngóðum árangri eins og þau hús gera, sem bezt standa að vígi með öflun hráefnis og rekstur almennt séð. Ég held því að það sé alveg tómt mál um að tala á þessu stigi málsins að gera ráð fyrir því að leggja ýmis af þessum frystihúsum niður, jafnvel þó að rekstur þeirra eigi nú í vök að verjast.

Ég hef ekki flutt neina brtt. varðandi síðari mgr. í þessari 2. gr. um þessar 25 millj. kr., sem á að deila út á þennan sérstaka hátt, en ég hef hér lýst minni afstöðu til málsins. Hún miðast fyrst og fremst við það, að ég tel, að hér vanti algjörlega reglur til þess að fara eftir, ef á að deila út upphæð eins og þessari, til þess að hafa einhver áhrif til endurskipulagningar á þessum iðnaði.

Þá hefur verið flutt hér brtt. af þremur framsóknarmönnum á þskj. 342 um það, að ríkissjóður leggi fram á árinu 1968 15 millj. kr., sem verði varið sérstaklega til þess að aðstoða fiskvinnslu á þeim stöðum á landinu, þar sem aðstaðan er erfiðust. Ég fyrir mitt leyti er samþykkur þessari till. Ég tel, að eins og aðstæður eru nú sé mikil þörf á fjárveitingu sem þessari, ef á að halda þeirri fiskvinnslu allri í gangi, sem að mínum dómi er í rauninni alveg óumflýjanlegt að halda í gangi á ýmsum litlum stöðum úti á landi. Ég teldi því mjög æskilegt, að samþ. yrði till., sem gengi í þá átt, sem till. á þskj. 372 er. Ég mundi fyrir mitt leyti greiða þeirri till. atkv.

Að öðru leyti er ég samþykkur þeim meginatriðum í þessu frv., sem hér liggja fyrir. Ég tel, að þær fjárgreiðslur, sem hér er um að ræða til fiskiðnaðarins í landinu, muni í stórum dráttum vera óhjákvæmilegar eins og komið er — það verði ekki undan þeim vikizt. Og ég held, að skiptingin í því fé, sem um er að ræða samkvæmt þessu frv., verði einnig að fara fram í aðalatriðum eins og gert er ráð fyrir í frv., þó að ég geri þær aths., sem ég hef hér gert um nokkur minni atriði málsins.