25.11.1967
Efri deild: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., er fylgifiskur þeirrar gengislækkunar, sem gerð hefur verið. Það er, eins og hæstv. forsrh. hefur gert grein fyrir, að öllu verulegu leyti a.m.k. í samræmi við sams konar frv., sem áður hafa fylgt gengisbreytingum. Það er því ekki ástæða til að fjölyrða um þetta frv. út af fyrir sig, og ég hef enga löngun til þess að tefja fyrir framgangi þess, því að vitaskuld er það æskilegt, að afgreiðslur í bönkum þurfi ekki að stöðvast frekar en orðið er.

Á hinn bóginn verður auðvitað ekki hjá því komizt, þegar um þetta mál er fjallað og áður en það er afgreitt, að farið sé nokkrum almennum orðum um það mál, sem er tilefni þessa frv., sem hér liggur fyrir — um sjálfa gengislækkunina.

Hér hefur verið framkvæmd stórfelld gengislækkun. Ég tel þá gengislækkun ekki þannig undirbúna, að líklegt sé, að hún beri nokkurn varanlegan árangur. Ég er því miður hræddur um, að hún verði atvinnuvegunum ekki að því gagni, sem ætlazt er til. Það er út af fyrir sig illa farið, því að það verður ekki vefengt, að atvinnuvegirnir þurfi á fyrirgreiðslu og það mikilli fyrirgreiðslu að halda, þó að ég treysti mér ekki á þessu stigi til þess að segja neitt um það, hvort sú fyrirgreiðsla er sú sama út af fyrir sig, eins og í þessu frv. felst, og kem ég að því síðar. En það er ljóst, að þeim verður eitthvað að gera til bjargar. En ég tel, að til þess að gengislækkun nái tilgangi sínum og verði að því gagni, sem ætlazt er til fyrir atvinnuvegi, sé það höfuðforsenda, að um hana skapist víðtæk samstaða, að á því sé fullur skilningur meðal þjóðarinnar, að ríka nauðsyn beri til að gera þessa ráðstöfun. Ég dreg mjög í efa, að þær forsendur séu fyrir hendi þessu sinni. Og þess vegna efast ég mjög um það, að þessi gengislækkun beri þann árangur, sem til er ætlazt, og kem ég betur að því síðar.

Það er auðvitað augljóst mál og þarf ekki að eyða orðum að því hér, að þessi gengislækkun, sem hér hefur verið gerð, er ekki gerð vegna lækkunar á gengi sterlingspundsins nema að mjög litlu leyti, heldur vegna öngþveitis íslenzks efnahagslífs og vegna vandræða íslenzkra atvinnuvega. Þetta er svo augljóst mál, að um það er ekki ástæða til að fjölyrða, enda hefur það verið viðurkennt.

Stórfelld gengislækkun er að sjálfsögðu ætíð örlagarík ráðstöfun, sem snertir hag svo að segja hvers einasta mannsbarns og allrar þjóðarinnar í heild. Hún hefur í för með sér það mikla röskun. Hún hefur að sumu leyti eða getur haft að sumu leyti jákvæð áhrif, en hún hefur líka að öðru leyti neikvæð áhrif. Hún er þess eðlis, að hún ýtir undir margvíslega spákaupmennsku og óheppilega verðlagsþróun innanlands, stuðlar að öllum jafnaði að vaxandi verðbólgu, og grefur undan trausti á peningum og sparifjársöfnun. Hún getur að sönnu fært sumum búbót, en færir þá aftur á móti öðrum kjaraskerðingu. Hún getur fært sumum eignaaukningu, en öðrum þá aftur á móti eignaskerðingu. En búbótinni, sem hún kann að hafa í för með sér fyrir suma, fylgir oftast nær talsverður böggull. Og þarf ekki að rökstyðja það, því að þó að almennt sé talið, að gengislækkun bæti aðstöðu útflutningsatvinnuvega, þá er það svo augljóst mál, að þeir þurfa á ýmsum rekstrarvörum, mismunandi miklum, að halda í erlendum gjaldeyri og auðvitað batnar ekki þeirra hagur með gengislækkun að því er til þeirra vara tekur. Og enn fremur er það svo, að margir af þessum, sem búbót eiga að hljóta vegna gengislækkunar, skulda í erlendum gjaldeyri og verða þess vegna fyrir tapi í því sambandi, þannig að jafnvel þeim, sem gengislækkun er þó ætlað að styðja, er ekki alltaf fullur fengur að henni.

En þetta um verkanir gengislækkunar er annars allt býsna flókið dæmi og ekki svo auðvelt að gera sér í skjótu bragði fulla grein fyrir útkomunni úr því dæmi. Það liggur því í augum uppi, að slíka ráðstöfun þarf að undirbúa vel og gera sér grein fyrir afleiðingum hennar í ýmsar áttir, áður en til hennar er stofnað. Það er heppilegra hér í þessu falli að skoða í upphafi endinn og athuga það, til hvers hún leiðir, áður en ráðizt er í slíka ráðstöfun, sem getur verið svo örlagarík.

Ég held, að mjög mikið skorti á, að slík nauðsynleg athugun hafi farið fram í þetta skipti, áður en ráðizt var í þessa gengislækkun, sem hér er um að ræða.

Í sambandi við frv. um efnahagsaðgerðir, sem rætt var fyrir nokkrum dögum í hv. Nd., þar sem um var að ræða fyrst og fremst tekjuöflun fyrir ríkissjóð, var á það bent af stjórnarandstæðingum, að þar væri aðeins um að ræða einn þátt vandamálsins, einn þátt þess vanda, sem við væri að glíma, halla ríkissjóðs, en hins vegar væri þar ekkert litið á vandræði atvinnuveganna, en þeirra vanda þyrfti auðvitað að taka til athugunar fyrst og fremst, en þá var því svarað til, að það væri ekki tímabært. Það lægi þá ekki ljóst fyrir, hverjar þarfir atvinnuveganna væru. Stjórnin væri þá ekki við því búin að segja til um það. Hún hafði þá ekki gert sér grein fyrir því, að þá var það sagt, sem rétt er, að gengislækkun fylgdu jafnan mikil vandkvæði, já, svo mikil vandkvæði, að vandséð væri, að kostirnir væru meiri en gallarnir, sem fylgdu. Þetta var sagt og í þessum dúr var talað allt fram að síðustu helgi.

En svo var pundið lækkað, og þá var kvæðinu vent í kross. Þá var í hvelli hægt að gera sér grein fyrir því, hverrar gengislækkunar þyrfti við. Þá taldi stjórnin sig viðbúna að 4 eða 5 dögum liðnum að segja til um það, hve mikla gengislækkun þyrfti að gera, ekki vegna lækkunarinnar á sterlingspundinu, því að það hefði út af fyrir sig verið auðreiknað dæmi og það hefði ekki þurft neina 4–5 daga og bankalokun í viku til þess. Nei, heldur treysti hún sér til eftir þessa 4 daga að segja til um það, hverja gengislækkun þyrfti að gera vegna atvinnuveganna. Ég efast um, að á þessum stutta tíma hafi gefizt tími til að athuga þau mál niður í kjölinn, sem sögð voru óathuguð áður. Það sést líka á því, sem fram hefur komið í sambandi við þetta mál, að það er langt frá því niður í kjölinn skoðað. Það segir bæði í grg. frá Seðlabankanum, sem fylgir þessari ákvörðun, og það er fram tekið af hálfu ríkisstj., og það kemur fram í flestum viðtölum, sem forustumenn atvinnuvega og stéttarsamtaka hafa átt í gær við blaðamenn, að þessari gengislækkun þyrftu að verða samferða ýmsar hliðarráðstafanir og það væri jafnvel undir þeim hliðarráðstöfunum komið, hvort gengislækkun bæri að nokkru leyti þann tilætlaða árangur. En hvar eru hliðarráðstafanirnar? Ja, hvar eru hliðarráðstafanirnar? Þær eru ekki tilbúnar enn, og í grg., sem Seðlabankinn lætur frá sér fara um þetta, segir, að þessa atburði hafi borið svo brátt að, að það hafi ekki reynzt kleift að kanna til fulls, hverra aðgerða væri þörf í þessu efni. En að nú séu mál þessi til gaumgæfilegrar athugunar, eftir að ákvörðun hefur verið tekin um, að þetta skuli gert og að þessi, að nákvæmlega þessi skuli gengislækkunin vera. Og hið sama og með enn sterkara orðalagi kemur fram hjá mörgum forvígismönnum atvinnuveganna, að þeir benda á það réttilega, að árangur gengislækkunar og verkanir hljóti mjög að vera undir því kominn, hverjar hliðarráðstafanir séu gerðar. Hvernig geta menn svo tekið og gert svona ákvörðun, þar sem afleiðingarnar eru að miklu leyti komnar undir hliðarráðstöfunum, áður en þeir hafa gert sér grein fyrir því, hvaða hliðarráðstafanir á að gera? Ja, það er einkennilegur hugsanagrautur. Ég verð að segja það.

Ég held þess vegna, að þessi gengislækkun sé gerð af allmiklu handahófi. Ég held, að hún sé byggð á heldur miklum ágizkunum og ég held, að það sé rennt nokkuð blint í sjóinn í æðimörgum efnum í sambandi við þessa ákvörðun og ég álít, að það muni koma á daginn að á slíkum sandi sé ekki rétt og hægt að byggja og reisa jafn stórfellda fjárhagslega röskun eins og þá, sem hér er um að ræða.

Ég verð að segja það, þegar litið er til fyrrv. framburðar ríkisstj. í sambandi við frv. um efnahagsaðgerðir, þegar litið er til þess, sem fram mun hafa komið af hálfu Efnahagsstofnunar í hagráði, þegar litið er til þess, sem frá Seðlabanka hefur komið að undanförnu, verð ég að segja það, að mér virðast þetta vera heldur dingulkennd vinnubrögð að hverfa þannig allt í einu að alveg nýrri leið, sem áður var með öllu ófær talin. Og ég verð að segja það, að mér finnst slík vinnubrögð ekki traustvekjandi. En stikkorðið kom að utan, Wilson ákvað að breyta genginu og þá var sjálfsagt að gera það líka hér.

Ég verð nú að segja það, að mér finnst hún svolítið tímanna tákn, þessi breyting, sem þannig hefur allt í einu á orðið í efnahagsmálastefnunni, þegar þetta er ákveðið úti í Lundúnum. Mér finnst það svona tímanna tákn, bera dálítið vitni því andlega ósjálfstæði gagnvart öllu, sem frá útlöndum og útlendingum kemur, sem því miður ber allt of mikið á hjá okkur um þessar mundir.

En í þessu sambandi er ég auðvitað ekki að tala um þá gengislækkun, sem verið hefði aðeins til samræmis við gengisfellingu pundsins, heldur þá stórfelldu gengislækkun, sem hér hefur verið gerð og gerð er af öðrum ástæðum. Hitt var annað mál, hvort menn vildu fylgja pundinu alveg nákvæmlega eftir eða fella gengið til samræmis við það. Það hafa sumar þjóðir gert, það hafa aðrar þjóðir ekki gert. Það fer auðvitað eftir því, hver staða þeirra er, hver viðskiptaleg staða þeirra er gagnvart Bretlandi og öðrum pundslöndum og einnig og fyrst og fremst auðvitað eftir því, hvernig þeirra efnahagslíf hefur staðið.

Ég efast ekkert um og vil ekki á neinn hátt gera lítið úr þeim vanda, sem við hefur verið að etja hjá atvinnuvegunum að undanförnu, og um það er ekki deilt, að sá vandi hafi verið mikill og um það er ekki neinn ágreiningur, að það hafi þurft að gera ráðstafanir þeim til bjargar og á það hefur einmitt verið sérstök áherzla lögð af hálfu okkar framsóknarmanna. En þegar um þann vanda er að ræða, þá er það auðvitað laukrétt, sem hæstv. forsrh. hefur margbent á og undirstrikað, að ein frumforsenda fyrir því að hægt sé að leysa þann vanda, sé að gera sér grein fyrir eðli hans, gera sér grein fyrir því, af hverjum rótum hann sé runninn. Sjálfsagt er það nú svo, að menn verða ekki eins sammála um það efni, af hverju vandinn sé runninn eins og um það, að hann sé fyrir hendi.

Ég held, að það sé aðallega tvennt, sem á sök á þeim vanda, sem við er að etja, sem við hefur verið að etja að undanförnu í ísl. atvinnulífi. Það er í fyrsta lagi verðbólgan. Það er í öðru lagi verðfall á útflutningsafurðum og það er í þriðja lagi erfitt árferði að vissu marki, sem m.a. leiddi til þess, að síðasta vetrarvertíð varð léleg. Þetta eru þær höfuðástæður, sem liggja til vandans. Menn geta kannske deilt um það, hver þátturinn af þessu sé drýgstur. Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa þar um. Ég tel, að verðbólgan sé það, sem langsamlega mestu hefur ráðið um, hversu illa hefur til tekizt um stjórn á efnahagsmálunum og um afkomu atvinnuveganna, um afkomu útflutningsatvinnuveganna. Þegar þess er gætt, og eins og til gengislækkunar þessarar er stofnað, þá efast ég alveg um, að hún verði að því gagni fyrir útflutningsatvinnuvegina og iðnaðinn, sem vonazt er til. Það eru margir, sem segja það, maður sá það í viðtölunum, sem birtust í sjónvarpinu í gærkveldi og viðtölunum í blöðunum í dag, það eru margir, sem vonast til þess, að þessi gengislækkun verði að einhverju gagni, gagni fyrir þá, gagni fyrir þeirra atvinnuveg. Frystihúsin vonast til þess, að þetta verði að gagni fyrir þau. Að vísu telur forsvarsmaður þeirra, að hér hafi nú ekki verið hitt á réttan punkt með þessari gengislækkun, hún þurfi að vera mun meiri. Iðnaðurinn vonast eftir bættri aðstöðu sér til handa, vegna gengislækkunarinnar. Forstöðumenn ferðamála vonast eftir bættri aðstöðu sér til handa, og þannig mætti nokkuð lengi telja. Já, það búast margir við bættum hag og ágóða í sambandi við þessa gengislækkun. En hvaðan kemur sú hjálp? Hún kemur nú ekki af himnum ofan. Hvaðan kemur sú hjálp, sem á að verða þessum atvinnugreinum að liði? Gengislækkun er ekkert töfraráð í sjálfu sér. Til þess að gengislækkun komi að einhverju gagni eða hafi þá verkun að færa einhverjum hagnað, þá verður það framlag að koma frá einhverjum öðrum. Þetta er nú sá einfaldi sannleikur í öllu þessu flókna máli. Og það er lang-æskilegast, að menn geri sér grein fyrir þessum staðreyndum, en tali ekki um þetta mál út í bláinn og eins og þetta komi bara einhvers staðar utan að frá og kannske bara sjálfskapist úti í geimnum. Þetta verður að koma frá einhverjum öðrum. Gengislækkun er í eðli sínu ekkert annað en eigna- og teknatilfærsla. Það er tekið frá einum og flutt yfir til annars. Og ef þessi gengislækkun á að koma og kemur þessum atvinnugreinum til góða, þá hlýtur hún að bitna aftur á einhverjum öðrum, fram hjá þeirri staðreynd verður ekki komizt. Það verða einhverjir aðrir að taka á sig þær byrðar, sem svara til þess gagns, sem þessar atvinnugreinar eiga að fá af gengislækkuninni. Og auðvitað gera menn sér þetta ljóst. Fyrirsvarsmenn atvinnugreinanna leggja á það áherzlu, að þessi gengisbreyting komi ekki að gagni nema tilkostnaður innanlands hækki ekki og kaupgjald t.d. verði þar af leiðandi óbreytt. En óbreytt kaupgjald með sömu krónutölu eftir gengislækkun þýðir auðvitað kaupgjaldslækkun, þýðir launalækkun, vegna þess að þó krónurnar séu þær sömu, þá eru þær miklu verðminni. Þá hafa launþegar ekki fengið hlutdeild í þeim hagnaði, sem gengislækkunin hefur í för með sér fyrir útflytjendur t.d., af því þeir fá fleiri kr. fyrir þau pund eða þann gjaldmiðil, sem þeir selja fyrir. Þess vegna er það, og ég vil undirstrika það, að gengislækkun er ekkert töfraráð og þegar menn ræða um hana, þá er bezt að gera sér grein fyrir þessu eðli hennar, en vera ekki að tala um þetta með einhverri tæpitungu eða óljósu orðalagi, sem enginn maður skilur. Gengislækkun er neyðarúrræði að mínum dómi, hún getur verið óhjákvæmilegt neyðarúrræði, en hún er alltaf neyðarúrræði. Og ef gengislækkun mistekst, skulum við segja, hefur ekki þær verkanir, sem til er ætlazt, þá er að mínum dómi verr af stað farið en heima setið. Þá er það svo, að menn eru verr staddir eftir gengislækkun en þeir voru fyrir hana. Og ef til vill á það eftir að koma á daginn í sambandi við þessa gengislækkun. Þar kemur að vísu svo margt til greina, að þar um er ekki hægt að spá neinu.

Eins og áður var sagt, er það augljóst mál og þarf ekki að fjölyrða um það, að þessi gengislækkun, sem hér er um að ræða, er ekki nema að örlitlu leyti afleiðing af lækkun sterlingspundsins. Þær ástæður, sem liggja til þeirrar gengislækkunar, sem hér er framkvæmd og hefur verið framkvæmd, eru einmitt þær, sem ég hef áður minnzt á, verðbólgan sem hefur hækkað allan framleiðslukostnað og fjármagnskostnað hér innanlands og svo verðfall á útflutningsafurðum, sem hefur verið talsvert mikið frá því á fyrra ári. Því skal ekki neitað og auðvitað liggur það í augum uppi, að slíkt verðfall hlýtur að hafa sínar afleiðingar. En þó að það sé svo, þá er það hins vegar ekki svo, að verðlag á útflutningsafurðum nú sé eitthvað óvenjulega óhagstætt. Það hefur verið sagt og því hefur ekki verið mótmælt, og ég tók sérstaklega eftir því, að það var staðfest í sjónvarpsviðtali einmitt í gærkveldi af einum forsvarsmanni eins helzta atvinnuvegarins, að verðlag nú mundi vera nálægt meðaltalsverðlagi 5 síðustu ára. Það mundi ekki vera langt frá því. Það er rétt, að það hefur að sjálfsögðu orðið veruleg lækkun frá því á árunum 1965 og 1966, þegar verðlag var allra hæst. En verðlag hefur hins vegar ekki færzt það mikið niður, að hægt sé að segja, að það sé neitt alveg óvenjulegt, að ég hygg, langt frá því. En hvað veldur því þá, að vandræði skuli skapast hjá atvinnuvegunum við slíkt verðlag, sem er þó ekki óhagstæðara en raun ber vitni, þó það hafi lækkað talsvert frá toppinum? Það er verðbólgan, sem því veldur, það sem veldur því er það, að ríkisstj. hefur ekki tekizt að standa við sitt fyrirheit um það að hafa hemil á verðbólgunni. Verðbólguþróunin og verðlagsþróunin hér innanlands er sú ástæða, sem veldur því, að atvinnuvegirnir geta ekki og hafa ekki getað staðið af sér þetta verðfall frá toppverði afurðanna frá því á s.l. ári. En hins vegar er það misskilningur, sem kemur fram æ ofan í æ, að þetta verðfall hafi orðið á allra síðustu mánuðum, það er algjör misskilningur. Þetta verðfall lá fyrir, t.d. í kosningunum í vor. Ég efast alveg stórlega um, að það hafi orðið umtalsvert verðfall síðan, það kann aðeins að vera á lýsi, en ég hygg, að verðlag hafi ekki mikið fallið frá því í kosningunum í vor, og ég vil þá alveg sérstaklega beina því til hæstv. ráðh. að upplýsa það og gefa um það tölur, hve miklu verðfall á helztu útflutningsafurðum hafi numið frá því í júní s.l. Það er æskilegt, að það liggi fyrir, því ég held því fram, að það hafi ekki orðið svo mikil lækkun síðan, og að þá einmitt, í kosningunum s.l. vor, hafi verið hægt að sjá fyrir þá erfiðleika, sem nú eru.

Menn minnast þess, að höfuðboðorð núv. ríkisstj. var að koma atvinnuvegunum á traustan og heilbrigðan grundvöll og stöðva verðbólguna. Þetta frv. eða öllu heldur sú ákvörðun, sem það er fylgifiskur með, sjálf gengislækkunin, er vitnisburður um það, hvernig tekizt hefur að standa við það heit. Sú gengislækkun, sem hér hefur verið gerð, er að mínum dómi játning ríkisstj. á því, að sú efnahagsstefna, sem hún hefur framfylgt, hafi ekki borið þann árangur, sem að var stefnt. Því það verður ekki fram borið, að þessi gengislækkun, sem hér hefur verið gerð, sé rökbundin afleiðing af gengisfalli sterlingspundsins eins og ég hef margtekið fram, enda er það augljóst og sést aðeins af því, að sum lönd hafa fellt gengið, önnur hafa ekki fellt gengið. Norðmenn og Svíar hafa t.d. ekki breytt sínu gengi, þrátt fyrir þá breyt., sem orðið hefur á skráningu sterlingspundsins. Og þær þjóðir, sem hafa breytt genginu, hafa, að ég ætla, flestar breytt því í einhverju samræmi við lækkun sterlingspundsins. Ég hef ekki tekið eftir því, þó kann það að vera, að nein þjóð hafi breytt gengisskráningu neitt viðlíka mikið í lækkunarátt eins og hér hefur verið gert. Ég hef viljað minna á þessi atriði hér í sambandi við þetta mál, þó að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé eins og ég hef áður fram tekið í samræmi við frv., sem venjulega hafa áður fylgt í kjölfar gengisbreytingar.

Það verður svo ekki hjá því komizt að minna á það, að í kosningunum í vor var talsvert annað hljóð í strokknum hjá hæstv. ríkisstj. en nú. Þá þóttist hún eiga í fórum sínum tvö töframeðöl, sem öllu mundu bjarga, og vegna þeirra væri allt og mundi allt vera í lagi. Þessi töfraorð voru gjaldeyrisvarasjóður og verðstöðvun. Nú er það komið á daginn, sem við framsóknarmenn sögðum fyrir, að verðstöðvunin, eins og til hennar var stofnað, mundi reynast blekking, hún væri ekki annað en sjónleikur settur á svið, sams konar sjónleikur og upp var færður 1959, lukkaðist þá vonum framar, og átti þá að reyna það aftur nú. En sú verðstöðvun, sem framkvæmd var með því að greiða niður vörurnar úr ríkissjóði eða með lántöku í Seðlabanka, án þess að jafnframt og um leið væri aflað tekna til þess, gat aldrei orðið raunhæf verðstöðvun, heldur hlaut að koma að skuldadögunum. Hún gat aldrei orðið annað en víxill upp á framtíðina, og það hefur líka sýnt sig og það er öllum ljóst. En það var mikið í kringum þessa leiksýningu, þegar hún var fyrst sett á svið fyrir u.þ.b. ári síðan. Þá var talið nauðsynlegt að setja lög um þetta, lög um verðstöðvun, það hefðu ekki verið þvílíkar heimildir til þess í lögum áður. Við framsóknarmenn töldum nú hins vegar, að það hefðu verið allar heimildir til verðstöðvunar í verðlagslögum frá 1960 og ríkisstj., sem hefði haft meiri hl. í þeirri n., sem fór með þau mál, hefði haft það alveg í hendi sinni að heita þessu bjargráði, hvenær sem var á þessum tíma, en látið það þá undir höfuð leggjast. En það voru í gömlu verðlagslögunum heimildir til hvers konar verðstöðvunar, nema þá til banns á hækkunum á opinberum gjöldum. Og hvað hefur sýnt sig? Nú eru verðstöðvunarlögin, sem sett voru með „pomp og pragt“ í fyrra, fallin niður, en þá uppgötvar stjórnin, að til séu í hinum eldri verðlagslögum frá 1960 heimildir til þess að bjóða, að verðlag skuli áfram vera hið sama og verið hefur, sem sagt verðstöðvun. Allt annað í sambandi við verðstöðvunina var eftir þessu. Þeir geta að vissu leyti verið ánægðir með árangur sinna verka, því að það er vafalaust, að með þessum sjónleik, með því að koma ekki til dyranna eins og þeir voru klæddir í raun og veru í júní s.l., heldur í dularklæðum, tókst þeim að villa um fyrir kjósendum, tókst þeim að halda meiri hl. Og þess vegna geta þeir kannske út af fyrir sig litið ánægðir til baka og fagnað því, að þetta töfrabragð hafi lukkazt þeim. En við verðum að hugga okkur við það, að enn muni rætast þau orð, sem hinn viðkunni og ágæti forseti Bandaríkjanna, Abraham Lincoln, sagði á sínum tíma: „Nokkra menn er alltaf hægt að blekkja, alla þjóðina er hægt að blekkja einu sinni. En það er ekki alltaf eða hvenær sem er hægt að blekkja alla þjóðina.“

Ég vil a.m.k. trúa því, að hver maður hljóti dóm eftir sinni verðskuldun að lokum og að ríkisstj. muni eiga eftir að hljóta sinn dóm hjá þjóðinni fyrir þessar aðgerðir og ýmsar fleiri, sem hún hefur haft um hönd. En út í þá sálma skal ég ekki fara lengra nú, enda gefst tóm til þess að ræða það í sambandi við það vantraust, sem hér hefur verið borið fram. Hér er verið að ræða um gengismál. Okkur er sagt það af hagspeking um og fjármálafræðingum, að það sé mjög nauðsynlegt, að rétt gengi sé jafnan skráð á krónunni og það sé hættulegt hverri þjóð til lengdar að búa við falskt gengi.

En að mér hvarflar sú spurning, hvort gengi hæstv. ríkisstj. sé rétt skráð í dag? Sú síðasta gengisskráning, sem farið hefur fram að því er hana varðar, er frá því í kosningunum í vor. Ég er ekki viss um, að hennar gengi yrði skráð með sömu tölu, ef kosningar ættu að fara fram nú. Ég er þvert á móti sannfærður um, að gengi hennar mundi hafa lækkað stórkostlega. Og það gæti heldur ekki annað verið eftir þær aðfarir, sem stjórnin hefur haft í frammi að undanförnu og hér hefur lítillega verið gerð grein fyrir og stangast svo gersamlega á við það, sem sagt var í síðustu kosningum og stangast reyndar á við það, sem sagt var allar götur fram að síðustu helgi við umr. um efnahagsaðgerðafrv. í hv. Nd. Ég ætla ekki að fara að ræða hér um einstakar gr. þessa frv., það er réttara að gera það í sambandi við 2. umr. málsins, ef ástæða þykir til og eftir að málið hefur hlotið afgreiðslu í nefnd.