25.11.1967
Efri deild: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Við umr. þær, sem hér hafa farið fram við þetta frv. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabankans um nýtt gengi íslenzkrar krónu, hef ég ekki getað varizt því, að upp hafa rifjazt dálítið fyrir mér þær umr., sem fram fóru, þegar núv. ríkisstj. settist að völdum og byrjaði á því að lækka gengi íslenzkrar krónu. Það var árið 1960. Þá skildist manni á ræðum þeirra vísu manna, sem þar höfðu gert sína útreikninga, að það mundi nú líða ár og dagur, ef ekki alveg ófyrirsjáanlegur tími, þangað til þyrfti að nýju að skrá gengi, eftir að sú samþykkt hefði farið fram, sem þar var lögð til. Það þurfti sem sagt að leiðrétta gengi krónunnar í eitt skipti fyrir öll, að því er bezt varð skilið. Og orsökin var sú, að þá hafði skömmu áður setið ríkisstj., vinstri stjórnin svokallaða, sem þessi nýja stjórnarsamsteypa, sem enn situr, taldi greinilega óalandi og óferjandi með öllu og hefði grafið undan gengi íslenzka gjaldmiðilsins.

Það leið nú ekki nema rúmlega eitt ár frá þessari endurskráningu, frá þessari skráningu á réttu gengi íslenzku krónunnar, eins og sú skráning var kölluð, þangað til ríkisstj. viðhafði með brbl. nýja gengisskráningu. Það var gengisbreytingin, sem gerð var 1961. Og fyrst farið er að rifja upp þær aðfarir allar, vildi ég gjarnan lýsa hér enn þeirri skoðun minni, að með þeim brbl., sem ríkisstj. gaf út þá, hafi hún hreinlega brotið íslenzku stjórnarskrána. Hún umskráði gengið með brbl. og samkv. stjórnarskránni var það auðvitað mat hennar, hvort brýna nauðsyn bar til þess eða ekki og umskráningin á genginu er ekki að mínu viti neitt skýlaust stjórnarskrárbrot. Menn gat greint á um það, hvort brýna nauðsyn bar til þess eða ekki. En hún gerði meira í þeim sömu brbl. Hún færði gengisskráningarvaldið frá Alþ. yfir til Seðlabankans og það lít ég svo á, að sé óumdeilanlegt mál, að enga brýna nauðsyn hafi borið til þess að gera slíka hluti með brbl., enda lít ég svo á, að í því hafi falizt beint stjórnarskrárbrot.

En hvað um það. Þrátt fyrir þessar tvær um-

skráningar á genginu, sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, hefur það klingt í eyrum manna, bæði innan Alþ. og utan, og alveg sérstaklega hafa þeir, sem hlýtt hafa á ráðh. stjórnarinnar í ræðustólum fyrir kosningar, fengið að heyra það, að stolt ríkisstj. væri það að hafa hafið íslenzku krónuna til vegs og virðingar, því að það töldu þeir sig hafa gert. Ráðstafanirnar, sem þeir byggðu flest á í þeim efnum, miðuðust við það, að hinir gömlu íslenzku atvinnuvegir, sjávarútvegur og landbúnaður, væru þess ekki megnugir að halda uppi nútímaþjóðfélagi á Íslandi. Þar þyrftu allt aðrir hlutir til að koma og ríkisstj. gerði líka ráðstafanir til þess, að erlendir aðilar gætu hafið atvinnurekstur í landinu og þar með töldu þeir greinilega, að íslenzkir peningar væru miklu betur tryggðir heldur en þeir hefðu nokkru sinni verið fyrr. Það er svo aftur á móti kaldhæðni örlaganna, að í þau ár, sem ríkisstj. hefur setið, hafa einmitt þeir atvinnuvegir, sem hún hafði svo lítið traust á, lagt þjóðarbúinu til slíka fúlgu, að ekkert efnahagskerfi mun vera þekkt á heimsbyggðinni, sem ekki hefði getað staðizt, meðan svo vel áraði. Meira að segja viðreisnarkerfið lét ekki á sjá verulega, meðan svo stóð enn.

En um leið og afli sjávarútvegsins dregst lítillega saman og um leið og verðlag á íslenzkum sjávarafurðum fellur svolítið niður úr því hámarki, sem það hæst hefur náð, reynist stolt ríkisstj., íslenzka krónan, ekki vera betur búin úr garði en svo, að í gær var gengi hennar enn fellt um nærfellt fjórðung. Þetta er forsaga þess frv., sem hér liggur fyrir. Og það er því miður sorgarsaga, það er sagan um það, að sá, sem hélt, að hann gæti haldið uppi blómlegu þjóðlífi á Íslandi án þess að taka verulegt tillit til og án þess að telja það fyrstu skyldu sína að greiða verulega fyrir atvinnuvegum þeim, sem þjóðin hefur stundað, sá aðili í ríkisstj. Íslands hefur komizt í ógöngur og þrot og hið nýja ljós hennar hefur ekki reynzt það ljós, sem hún ætlaði það vera, þ.e.a.s. atvinnurekstur útlendinga í landinu.

Höfuðröksemdin, ef röksemd skyldi kalla, fyrir þeirri gengisbreytingu, sem hér var gerð í gær, er sú, að Bretar hafi lækkað sinn gjaldmiðil, sterlingspundið. Ég minnist þess líka, að árið 1960 eða allt fram til ársins 1960 var gengi íslenzkrar krónu miðað við gengi sterlingspunds, en það var ein af ráðstöfunum stjórnarinnar á því herrans ári 1960, að nú skyldi ekki íslenzka krónan miðuð við svo fallvaltan gjaldmiðil, heldur var hún þá skráð upp á það að hafa gildi í hlutfalli við Bandaríkjadollar. Gengi á Bandaríkjadollar hefur ekki verið breytt, en samt sem áður telur ríkisstj. engin tök á öðru heldur en að breyta gengi íslenzkrar krónu um leið og sterlingspundið er fellt í verði.

Það er svo enn annað mál, að gengisfelling á sterlingspundi getur ekki skýrt nema fjórðung eða minna en það af því gengisfalli, sem hér hefur verið gert. A.m.k. 3/4 hlutar þess hljóta að vera af öðrum orsökum. Það hefur ekki verið lagt fyrir alþm., hver rök það eru, sem eiga að skýra það, og fram hefur komið, að Seðlabanki Íslands hefur ekki heldur lagt þau rök fyrir sitt bankaráð, áður heldur en ákvörðunin um gengisbreytinguna var tekin. En í veðri er látið vaka bæði af bankastjórum þess banka og einnig af ríkisstj., að gengisbreytingin sé gerð til hagræðis fyrir íslenzka útflutningsatvinnuvegi, fyrst og fremst við útveginn og iðnaðinn. Vera má, að þetta sé allt saman rétt og satt. En spakur maður hefur ekki alls fyrir löngu sagt, að gengisfelling skapaði fleiri vandamál heldur en hún leysti. Það eiga þeir sjálfsagt eftir að reyna nánar í framtíðinni, þessir aðilar, sem tilnefndir eru sem aðalnjótendur þeirrar gengisbreytingar, sem hér hefur verið gerð, hvort sá hinn spaki maður hefur þar haft lög að mæla eða ekki. En við lestur þess frv., sem hér liggur fyrir og er bein afleiðing og áframhald af gengisákvörðuninni, verður það greinilega ekki séð, að þar hafi verið að baki það hugarfar, að hér væri verið að bjarga sjávarútvegi og iðnaði eða létta þeirra byrðar á einn eða neinn hátt. Af þessu frv. má greinilega sjá, að það eru allt aðrir aðilar, sem hér eru bornir fyrir brjósti og reynt að gera þeirra hlut betri heldur en ella og beinlínis gerðar ráðstafanir til þess, að þeir eigi þess kost ýmist að sleppa billegar út úr gengisfellingunni heldur en þeir hefðu ella gert eða þá hreinlega að hagnast á henni. Í 1. gr. frv. er tekið fram, að ríkissjóði er áskilinn réttur til þess að taka verðtoll og söluskatt af vörum, sem ekki eru komnar á sölumarkað enn eftir nýja genginu, þ.e.a.s. ríkissjóður getur aukið tekjur sínar verulega frá því, sem ella hefði verið, ef þetta frv. hefði ekki komið til. Nú er kannske ekki slæmt um það að segja, að ríkissjóður fái einhverjar tekjur og a.m.k. er hann sá aðili í landinu, sem er bezt að þeim kominn, en hins ber einnig að gæta, að ríkissjóður fær ekki tekjur af vörum öðruvísi heldur en það auki dýrtíðina í landinu. Og á hverjum bitnar sú dýrtíð? Jú, hún bitnar á almennum neytendum í landinu, en hún bitnar líka á þeim atvinnuvegum, sem gengisfellingin átti að færa hagnað. Hún bitnar á sjávarútvegi og hún bitnar á iðnaði, svo að ekki eru þessi ákvæði til þess fallin að létta hag þeirra.

Það verður hins vegar skiljanlegt í sambandi við þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið um launamál af stjórnarinnar hálfu, að hér er um að ræða hækkanir á vöruverði, sem ríkisstj. ætlast ekki til, að mældar verði í vísitölu, þannig að bætur komi fyrir þær í kaupi, hvað sem úr því kann nú að verða, þegar fram líða stundir.

Þá er verzluninni gefinn nokkur möguleiki á því að bæta sér upp það tjón, sem hún kynni að verða fyrir vegna erlendra skulda sinna, með því að koma hluta af gengisbreytingunni á þeim vörum, sem hún hefur fest kaup á með lánum, yfir á hinn almenna neytanda í landinu, og hefur slíkt, að því er ég ætla, ekki fyrr þekkzt við setningu gengisbreytingarlaga. Þetta er þeim mun furðulegra, sem við allar gengisbreytingar hefur verið höggvið í einn og sama knérunninn og engar bætur látnar koma fyrir til sparifjáreigenda í landinu. Hagfræðingar og stjórnarvöld og raunar miklu fleiri hafa fyrir löngu uppgötvað þau sannindi og boðað þau, að undirstaða framkvæmda í landinu sé sú, að fjármagn það, sem almenningur kann að hafa aflögu frá daglegri neyzlu, komi inn í bankastofnanir þjóðarinnar, geymist þar og geti orðið lánsfé til nýrra framkvæmda. Þessir aðilar hafa hins vegar aldrei verið þar tilnefndir til neinna bóta, þó að fé þeirra og óeytt kaup þeirra, sem spariféð mun mestmegnis vera, sé rýrt að verðmæti í hverri gengisfellingunni á fætur annarri. Það er að vísu stundum imprað á því, að þegar gengisfellingin hafi farið fram, þurfi að verðtryggja sparifé, og þessa rödd hefur maður nú aðeins heyrt í sambandi við þessa gengisfellingu, en það er nú talið vera heldur í seinna lagi að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann.

Þá eru það einnig nýmæli í þessu frv., að skipafélögum er með því gefinn réttur til þess að innheimta fragtir af vörum, sem þau eru þegar búin að flytja til landsins, á allt öðru gengi heldur en ríkjandi var, á meðan flutningurinn fór fram. Hér er einnig ráðstöfun til þess að auka dýrtíðina, hækka vöruverðið í landinu, vart skiljanleg út frá öðru sjónarmiði heldur en því yfirlýsta sjónarmiði ríkisstj., að slíka verðlagsbreytingu eigi ekki að mæla í vísitölu í þeim tilgangi að bæta launþegum í landinu fyrir þau útgjöld, sem á þá koma með þessum hætti.

Ég hef hér þegar talið upp þrjá aðila, sem virðast ganga nokkuð lausir samkv. þessu frv. til þeirra verka að hækka dýrtíðina í landinu eftir reglum, sem eru meira en vafasamar, allt í skjóli þess, að fyrir þetta eigi engar bætur að koma til hins almenna launamanns í landinu.

Og þá er ég kominn að þeirri gr. frv., þar sem drepið er niður á, hvernig útgerðin í landinu eða framleiðsluatvinnuvegirnir — hvernig réttur þeirra eigi að verða markaður samkv. þessu frv. Jú, það er með þeim hætti, að þeir eiga enga verðhækkun að fá vegna gengisbreytingarinnar á þeim vörum, sem þeir nú eru búnir að framleiða, og ekki heldur á þeim vörum, sem þeir framleiða til áramóta. Maður hefði þó haldið, að útgerðin, svo að við tökum hana, mundi fá á sig aukinn kostnað við að framleiða til áramóta vegna hækkana, sem koma á erlendar vörur vegna gengisbreytingarinnar og vegna hærri farmgjalda, bæði á inn- og útflutningi, sem leyfð eru í svo ríkum mæli, sem ég hef rakið hér áðan. En sem sagt, það er ekki fyrr en eftir áramót, það er ekki fyrr en á þær vörur, sem framleiddar verða eftir áramót, sem þeir eiga að njóta gengishagnaðar samkv. þessum l. Svo að í hinni fyrstu umferð verður það engan veginn séð, að útgerðin sé borin fyrir brjósti við samningu þessa frv. nema síður sé. Henni einni af þessum aðilum. sem ég hef hér tilnefnt, er gert að fresta þeim ávinningi, sem af frv. kynni að vera, fram yfir áramót. Öllum hinum aðilunum, ríkissjóði, verzluninni, skipafélögunum, er ætlaður nokkur réttur strax og raunar að nokkru fyrir þann tíma, sem liðinn er og liðinn var fyrir gengisbreytinguna.

Í sambandi við þær yfirlýsingar, sem hér hafa verið gefnar af ríkisstj. hálfu um það, hvernig hún hugsar sér — hverjum höndum hún hugsar sér að fara um launamál í sambandi við gengisbreytinguna, verður það ljóst, að þær vinnustöðvanir, sem boðaðar höfðu verið frá 1. des. n.k., hafa megnað að knýja ríkisstj. til þess að neita því ekki, að þær breytingar á verðlagi, sem urðu á tímabilinu frá 1. ágúst til 1. nóv., eigi að koma inn í kaup í gegnum vísitöluuppbætur. Þetta munu vera 3.3%, vegna þess að ríkisstj. reiknar þar með hinni nýju vísitölu, sem vitað er, að tekur tiltölulega lítið tillit til hækkana af þeirri gerð, sem urðu á þessu tímabili, en mundi taka miklu meira tillit til þeirra verðhækkana, sem verða á útlendum vörum, þ.e.a.s. verðhækkana, sem verða sem afleiðing af gengisbreytingunni. Það fylgir hins vegar yfirlýsingu ríkisstj., að þann vanda ætlar hún ekki að leysa á einn eða neinn hátt. Hún nánast segir við atvinnurekendur og launþega í þeim efnum: Fljúgizt þið bara á um það. Við ætlum okkur ekki að skipta okkur af þessu.

Ríkisstj. er ekki með þessum hætti að skapa jafnvægi og kyrrð á vinnumarkaði. Með þessu er hún greinilega að efna til þess, að hér verði verkföll og hér verði framleiðslutruflanir. Hún skýtur sér sem sagt algerlega undan þessum vanda öðruvísi heldur en líta á þessa tvo aðila sem slíka, að hún geti bara sagt við þá: Fljúgizt þið á.

Hvað úr þessu verður er ekki gott að segja. Vera má, að þessir aðilar geti komið sér saman. Hitt sýnist mér miklu líklegra, að þarna dragi til ófriðar á vinnumarkaði og má þá vera, að orð þess vísa manns, sem ég hef vitnað í hér áður, reynist býsna nærri réttu lagi, að gengisfelling skapi fleiri vandamál en hún leysir.

En það er auðvitað alveg rétt, að framtíðin sker úr því, hvernig tekst að láta þá aðila borga, sem ríkisstj. greinilega hugsar sér sem sína klyfjahesta undir þær byrðar, sem hún nú er að binda, þ.e.a.s. launamenn í landinu, hinn almenna borgara í landinu, daglaunamenn, fastlaunamenn og sjómenn, því að í þeim yfirlýsingum, sem fram hafa komið, er kannske ekkert augsýnilegt annað en það, að ríkisstj. hugsar sér að lækka hlut sjómanna, sem við fiskveiðar fást. Þeir fá kaup sitt greitt í aflahlut, og því er slegið föstu af hálfu talsmanna þessarar gengisfellingar, að við þá verði að minnka hlut. Það verði að stofna sérstakan sjóð til að jafna á milli hinna einstöku aðila, sem að útvegi eða útflutningsframleiðslu sjávarútvegsins vinna, og hver á að fá og af hverjum á að draga liggur ekki fyrir, en það liggur þó eitt fyrir, að af sjómönnum á að draga. Hversu þeir koma til með að una því, þegar þar að kemur, vitum við heldur ekki, en það mundi margur mæla, að ómaklegri aðili til refsingar í þjóðfélaginu væri vart finnanlegur heldur en einmitt sá, sem dregið hefur að landi þau verðmæti, sem þjóðin hefur lifað á og lifað sitt blómaskeið á nú á undanförnum árum. En stjórnarvöld landsins geta hugsað sér ýmislegt og talið nauðsyn. Við höfum ekki fengið að sjá það, hvað hér stendur til í raun og veru. Stjórnin tilkynnir það, að allt þetta hafi borið að með svo bráðum hætti, að hún hafi ekki haft tíma til að útfæra það nánar en orðið er.

Ég fyrir mitt leyti tel nú, að þetta sé ekki eins nýtt mál fyrir ríkisstj. eins og hún vill vera láta. Ég tel það a.m.k. vitavert gáleysi af henni, ef hún hefur ekki hugsað málið út frá þeirri hlið fyrr heldur en á laugardaginn var, að hér gæti þurft að fart fram gengisfelling. Það er kannske eðlilegt, að ég sé dálítið tortryggnari á það heldur en menn almennt, að þegar stjórnarvöld segja, að hlutina beri að með bráðum hætti, geti það verið tilbúningur viðkomandi stjórnar sjálfrar.

Ég minnist þess t.d., að þegar ég var formaður í fjvn., var einn fyrsti reikningurinn, sem rekinn var framan í mig sem slíkan frá Vegagerð ríkisins, vegna fjár sem hún hafði eytt umfram fjárlög eftir ráðherraheimild, og rökstuðningurinn fyrir því, að þessi reikningur væri til orðinn, var á þá lund, að 900 ára afmæli Skálholtsstóls hefði borið að með svo bráðum hætti, að veginn þangað heim hefði þurft að leggja í næturvinnu. Þetta rifjaðist nú upp fyrir mér, þegar ríkisstj. Íslands segir, að gengisbreytinguna hafi borið að með svo bráðum hætti, að hún hafi bara aldrei hugleitt það fyrr en búið var að fella gengi pundsins. Þá má hver lá mér sem vill, að ég er dálítið vantrúaður á, að þetta sé svona í raun og veru. En eitt er víst, að allar þessar aðfarir, sem hér eru hafðar í frammi, bjóða upp á átök á vinnumarkaði. Þær eru líklegar til þess að valda truflunum í framleiðslu þjóðarinnar og ég er ekki enn sannfærður um, að sá hinn vísi maður, sem ég hef áður vitnað til og sagði fyrir ekki ýkja löngu, að gengisfellingin mundi skapa fleiri vandamál en hún leysti, hafi haft á röngu að standa. Ég vildi vona, að við gætum komizt sem átakaminnst út úr þessum málum, en engan veginn er ég sannfærður um, að svo komi til með að verða.