25.11.1967
Efri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. fjhn., varð fjhn. þessarar hv. d. ekki sammála um afgreiðslu þess frv., sem hér er til umr. Meiri hl. vill samþykkja frv. óbreytt, en ég hef ásamt tveim öðrum hv. dm. lagt fram nál. á þskj. 85, þar sem lagt er til, að frv. verði fellt. Ég mun nú leyfa mér að fara um þetta frv. örfáum orðum.

Eins og kunnugt er, var það lengst af og alla tíð frá því, að gengið fyrst var skráð, í höndum Alþ. að ákveða gengisskráningu íslenzku krónunnar. En árið 1961 var brugðið á það ráð með brbl. að taka þetta vald af Alþ. og fela það Seðlabankanum. Þessi brbl. voru svo auðvitað staðfest síðar á því ári og hefur þessi tilhögun verið á höfð síðan. Það kom fram við umr. um staðfestingu þessara brbl., að fyrir þessari ákvörðun lágu tvær meginástæður. Önnur var sú, að ákvörðun gengis væri svo sérhæft mál, að það væri ekki á færi annarra en sérfræðinga að kveða upp dóm um það, hvert gengi krónunnar skyldi hverju sinni vera. Og þess vegna væri nauðsynlegt, þegar nú væri til Seðlabanki í landinu, að fela honum þetta vald. Hin ástæðan var talin sú, að þessa ákvörðun þyrfti að gera fljótt, það væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að langur biðtími skapaðist, það ástand gæti auðveldlega komið upp, sem ekki væri æskilegt í fjármálum þjóðarinnar, þegar vitað væri, að gengislækkun væri yfirvofandi og frv. um hana til meðferðar á Alþ. Þessi röksemd var einnig flutt fram til þess að réttlæta það að svipta Alþ. því valdi, sem það hefur farið með alla tíð um að hafa úrslitavald um ákvörðun gengisins.

Um þessi tvö atriði þarf út af fyrir sig ekki mikið að deila. Þau eru bæði að vissu leyti rétt. Það er rétt, að það er nokkuð sérfræðilegt mál að ákveða upphæð gengisins og það þarf að ganga fljótt. En þar með tel ég líka, að réttlæti l. um þessa breytingu sé upp talið og enginn vandi er að gæta beggja þessara atriða, þótt Alþ. hefði áfram gengisákvörðunarvaldið. Vitanlega eru sérfræðingar Seðlabankans eins og aðrir sérfræðingar hæstv. ríkisstj. ávallt tiltækir til þess að vera með í ráðum um sérfræðilega úrskurði og athuganir. Það hafa þeir löngum verið og verða sjálfsagt alltaf. En hvernig hefur það svo gengið að láta gengisskráninguna taka skamman tíma, þrátt fyrir þessa breytingu? Um það hygg ég, að ekki þurfi að fara mörgum orðum. Það vita allir hv. þdm., að það hefur tekið nú heila viku að koma þessum málum fram. Frá og með mánudagsmorgni s.l. var öll gjaldeyrisafgreiðsla í bönkunum stöðvuð og hún hefur ekki verið opnuð enn og alla þessa viku hafa sérfræðingar ríkisstj. og Seðlabankans setið á rökstólum yfir því, hvert gengið skyldi vera. Það er fyrst, þegar kemur til kasta Alþ., sem talað er um það, að tíminn til stefnu sé skammur, og hæstv. forsrh. lagði á það ríka áherzlu áðan í framsöguræðu sinni fyrir þessu máli, að hann treysti nú hv. Ed. til þess að afgreiða málið á skammri stund. Það er fyrst, þegar kemur til kasta Alþ., sem farið er að leggja áherzlu á það, að það sé óheppilegt að draga gengisákvörðunina lengi. Enda er það mála sannast og það ástand, sem ríkt hefur þessa viku í fjármálum hér, ber þess glöggt vitni, að hér er ekkert ofmælt. Gengislækkun þarf að ganga fljótt.

Yfirleitt finnst mér framkvæmd þessarar gengislækkunar, það sem af er a.m.k., hafa farið næsta óhönduglega hjá hæstv. ríkisstj. En hvað er það svo, sem hér er um að ræða? Þetta hefur vitanlega verið oft rakið hér, nú síðast á fyrri fundi þessarar hv. d. hér í dag, svo ég get látið mér nægja að fara fljótt yfir sögu að þessu leyti. Hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að menn greindi á um orsakir gengislækkunarinnar. Ég er nú ekki viss um, að það sé alls kostar rétt, að það sé mikill ágreiningur um orsakir þessarar gengislækkunar. Því hefur verið haldið hér fram og ekki mótmælt af hæstv. ráðh. eða stuðningsmönnum þeirra, að um það bil 5–6% af þessari gengislækkun eigi rætur sínar að rekja til þess, að sterlingspundið var fellt í s.l. viku. Það, sem á vantar gengislækkunina, er því af öðrum toga spunnið og ég hygg, að því hafi heldur ekki verið á móti mælt, þegar sagt er, að hún sé framkvæmd til þess að rétta hag útflutningsatvinnuveganna fyrst og fremst og e.t.v. iðnaðarins að einhverju leyti líka. Svoleiðis að ég held, að menn greini ekki á um orsakir þessarar gengisfellingar. Hitt er vafalaust rétt, að menn greinir á um réttmæti hennar og það hefur greinilega komið fram, m.a. hér fyrr í dag. Þessi gengisbreyting er, eins og rakið hefur verið, 24.6%, sem þýðir það í reynd, að verð á flestum gjaldeyri hækkar um 33%. Aðeins 1/5 hluti af þessari gengisfellingu stafar af utanaðkomandi ástæðum, af gengisfellingu sterlingspundsins. Afgangurinn er gerður til þess að koma á jafnvægi, koma betri skipan á atvinnuvegi okkar sjálfra, til að rétta af þann skakka, sem verðbólguþróun undanfarinna ára hefur komið á rekstur atvinnufyrirtækjanna.

Þegar gengið hefur verið fellt áður, hafa jafnan verið gerðar margvíslegar ráðstafanir til þess að tryggja það, að skaðleg áhrif gengislækkunarinnar yrðu sem minnst, að ranglætið, sem alltaf er hætta á, að sigli í kjölfar gengislækkunar, yrði sem minnst. Hér er þessu ekki þann veg farið. Hér er gengislækkunin ákveðin einhliða og það frv., sem hér er til umr., er aðeins um örlítið brot af afleiðingum gengislækkunarinnar, það er aðeins um nokkur framkvæmdaatriði í bönkunum, fyrst og fremst til þess að hægt sé að fara að selja gjaldeyri á hinu nýja gengi. Að vísu hafa verið boðuð allmörg frv., sem ættu að vera eins konar hliðarráðstafanir með gengisfellingunni, en aðeins eitt þeirra hefur enn sem komið er séð dagsins ljós. Á fundi þessarar hv. d. hér fyrr í dag var útbýtt stjfrv. um verðlagsuppbót á laun og um vísitölu framfærslukostnaðar. Það verður að ætla, að þetta frv. sé fyrsti vísirinn að þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að gera til þess að jafna álögurnar, sem gengisfellingin skapar. Eins og hér hefur verið rakið, er efni þessa frv. það, að hinn 1. des. á að greiða verðlagsuppbót á laun, sem nemur að ég hygg um 3% eða 3.3%. Þessi uppbót er samkv. aths. frv. til þess gerð að bæta launþegum þá verðlagshækkun, sem orðið hefur á tímabilinu 1. ágúst til 1. nóv. Þetta frv. hefur því engin áhrif í þá átt að draga úr áhrifum gengisfellingarinnar á kjör launamanna. Þetta frv. er aðeins til þess að bæta upp þá kjaraskerðingu, sem þegar er orðin, fyrst og fremst þá kjaraskerðingu, sem stafar af því, að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum voru felldar niður í stórum stíl í lok októbermánaðar s.l. Eftir er því, þrátt fyrir þetta frv., að gera ráðstafanir til þess að draga úr dýrtíðaráhrifum hjá launþegum vegna gengislækkunarinnar, þannig að þetta frv. leysir engan vanda gengislækkunarinnar. Það er engin hliðarráðstöfun vegna hennar. En þetta frv. segir meira. Það segir enn fremur það, að frá og með gildistökudegi þess eigi að fella niður tengslin milli kaupgjalds og verðlags. Það á að taka úr sambandi þá einu tryggingu, sem launþegarnir hafa haft fyrir því að kaffærast ekki í verðbólguflóðinu. Og ef það er von á fleiri slíkum hliðarráðstöfunum með þessari gengisfellingu, er ég hræddur um, að kjör manna verði heldur óbeysin, þegar áhrifa hennar er farið að gæta.

Það segir að vísu í þessu nýja frv. á þskj. 83, að það skuli vera eftir sem áður samningsatriði milli verkalýðsfélaga og atvinnuveitenda, hvort vísitala skuli greidd á laun eða ekki. En það er alveg sama í reynd fyrir launþega, hver hluti af kaupi hans er kallaður grunnkaup og hver vísitöluuppbót. Eftir að þetta frv. er orðið að l., verður launþeginn að sækja allan rétt sinn til vinnuveitandans, ekki bara grunnkaupshækkunina, heldur afleiðingarnar af verðlagsþróuninni líka, og hljóta þá allir að sjá, að afstaða launþeganna versnar stórkostlega við lagasetningu þessa. Þrátt fyrir þetta hefur stjórn Alþýðusambands Íslands beint þeirri áskorun til félaganna, til félaga, sem í þeim samtökum eru, að aflýsa boðaðri vinnustöðvun þann 1. des. n.k. Þessi vinnustöðvun var, að ég hygg, fyrst og fremst boðuð vegna þeirra efnahagsaðgerða,sem fólust í fyrra frv. hæstv. ríkisstj. um efnahagsaðgerðir, þar sem ráðgert var að taka vísitöluna alveg úr sambandi, að banna vísitöluhækkanir á laun. Það er augljóst, að þessi verkfallshótun hefur þegar komið því til leiðar, að vísitöluuppbótin miðað við 1. des. fæst að vísu ekki að fullu, vil ég nú segja, vegna þess að það er tekinn upp nýr útreikningur, sem mun vera launþegum óhagstæðari, a.m.k. í fyrstu lotu, en það fæst samt komið til móts við þessi sjónarmið launþega, en augljóst er, að eftir sem áður eru aðalátökin eftir, þar sem samhliða þessum uppbótum er rétt að launþegum 33% hækkun á verði erlends gjaldeyris, 33% vöruhækkun á mjög mörgum nauðsynjavörum heimilanna. Og ég get ekki séð, að þessi ráðstöfun sé liður í því að tryggja vinnufrið í landinu.

Ég játa það, að yfirvofandi verkfalli hefur fengizt frestað, en það vandamál, sem blasir við, er áreiðanlega sízt minna nú heldur en það áður var.

Ég hef alltaf heyrt það, að gengislækkun væri óæskileg. Hún væri neyðarúrræði, sem gripið væri til, þegar öll önnur ráð væru þrotin. Og satt að segja hélt ég, að það gilti einnig um okkur Íslendinga eins og allar aðrar þjóðir. Það kann að vera, að það sé nauðsynlegt einstaka sinnum að grípa til þessa úrræðis, en neyðarúrræði hef ég alltaf talið, að gengislækkun væri. En nú kveður hér í málgögnum hæstv. ríkisstj. við talsvert annan tón um gengislækkanir. Með leyfi forseta ætla ég aðeins að leyfa mér að minna á forystugrein dagblaðsins Vísis í dag. Hún fjallar um nýafstaðna gengislækkun, og fyrirsögnin er „Birtir upp“, og svona er greinin, með leyfi forseta, eða það sem ég ætla að lesa úr henni:

„Þessi mikla lækkun leysir í einu vetfangi flest meginvandamál sjávarútvegsins og fiskiðnaðarins. Verðfall og aflabrestur hafa leikið þessar atvinnugreinar svo illa, að almenn stöðvun blasti við um næstu áramót, þrátt fyrir töluverðan stuðning ríkissjóðs. Nú hefur aðstaða þeirra gerbreytzt til hins betra. Áframhaldandi rekstur þeirra er tryggður og jafnframt fellur niður ríkisframlagið til þeirra. Þar með er tryggð gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. En gengislækkunin mun hafa örvandi áhrif á fleiri atvinnugreinar en útflutningsframleiðsluna. Aðstaða iðnaðarins mun styrkjast verulega. Yfirleitt má búast við, að svipuð þróun verði og jafnan eftir gengisfellingar, að hjól atvinnulífsins taki að snúast með auknum hraða. Samhliða því aukast að sjálfsögðu atvinnumöguleikar og yfirvinna eykst.“

Síðan er haldið áfram í þessari forystugrein að útbásúnera það, hversu gengislækkunin sé nú allra meina bót, nýtt líf í atvinnufyrirtækin, nýir viðreisnartímar væntanlega á næsta leiti. En engin er rós án þyrna. Og síðar í þessari grein kemur aðalþyrnirunninn:

„Það er sjálfsagt gegn betri vitund sinni, að ríkisstj. leggur nú jafnframt fram lagafrv., þar sem gert er ráð fyrir, að vísitöluhækkanir fyrir 1. des. n.k. verði reiknaðar inn í laun, eins og verið hefur undanfarin ár. Um þetta atriði stóð deila ríkisstj. og Alþýðusambandsins, sem var tilefni verkfalla þeirra, er boðuð hafa verið 1. des. Ríkisstj. hefur gefið eftir í þessu máli, efalaust til þess að leggja sitt af mörkum til vinnufriðar í landinu. Það er varasöm braut að styðja á verðskrúfuna á þennan hátt, en á hitt ber að líta, að nú er vinnufriður nauðsynlegur, til að þjóðfélagið falli ekki saman.“

Já, það er vafalaust gert gegn betri vitund hæstv. ráðh. að bera fram svona frv. eins og hér um ræðir, sem felur í sér hvorki meira né minna en 3.3% verðlagsuppbót á laun í landinu, þegar á sama tíma er lögð á gengisfelling 24.6%. En það verður að gera fleira en gott þykir, og hjól atvinnulífsins mega ekki stöðvast.

En hvernig gengur það núna eftir þetta, að standa við það, sem einu sinni var sagt hér, að ef til gengislækkunar kæmi, skyldu þeir fá að borga, sem að henni stæðu. Er það þá verkafólkið, sem hefur knúið fram þessa gengislækkun? Ég held ekki. Ég held, að þessi gengislækkun sé ekki gerð fyrir launþegana í landinu. Það er hægt að viðurkenna það, að hún hafi verið að sumu leyti nauðsynleg vegna annarra, vegna atvinnufyrirtækjanna. En það eru ekki þau, sem eiga að borga vegna gengislækkunarinnar. Nei, það verða aðrir.

Þetta frv. fjallar, eins og ég sagði áðan, aðeins um örlítinn hluta af þessu örlagaríka máli, þessari stóru ákvörðun hæstv. ríkisstj. að fella gengið um 24.6%. Og ég get nú ekki séð, að það sé mögulegt fyrir hv. alþm. að leggja blessun sína yfir þessa gengislækkun án þess að vita meira um framhaldið á ráðstöfunum ríkisstj. heldur en þeir vita í dag. Og fyrst og fremst þess vegna hef ég nú lagt til ásamt þeim, sem skrifa undir nál. með sér, að þetta frv. verði fellt. Þess var freistað í gær að fá þessum ráðstöfunum frestað, þar til frekar yrði upplýst um fyrirhugaðar aðgerðir hæstv. ríkisstj. Það var ekki talið fært, og ég leyfði mér að inna eftir því á fjhn.-fundi, sem hér var haldinu nú fyrir skemmstu í þessari hv. d., hvort nokkuð frekar lægi fyrir um fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. og því var svarað neitandi. Í sambandi við meðferð málsins hér á hv. Alþ., bæði í hv. Nd. og eins hér í þessari hv. d., hafa verið bornar fram margvíslegar spurningar, sem ég tel, að svör við þeim séu afgerandi og hafi úrslitaáhrif á það, hvernig þessi gengislækkun muni reynast í framkvæmdinni, hvort hún verði atvinnuvegunum sú lyftistöng, sem vonazt er til, eða ekki. Það hefur verið spurt um það, hver yrði staða ríkissjóðs eftir gengisbreytinguna. Í sambandi við þessa meðferð hefur ekki enn örlað á neinum till. um tollalækkanir. Það virðist eiga að byrja á mánudaginn að tollafgreiða vörur með sömu tollprósentu og gilt hefur, þrátt fyrir þessa hækkun gjaldeyrisins og hljóta allir að sjá, hvaða áhrif það muni hafa á verðlag í landinu og á stöðu ríkissjóðs. Er það meiningin, að ríkissjóður eigi að halda öllum þeim auknu tekjum og má eitthvað byggja á því, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði hér áðan, að þessar auknu tekjur yrðu ætlaðar stjórnarandstöðunni til ráðstöfunar. Ef svo er, er kannske von til þess, að það verði hægt að nota þær í sæmilega heiðarlegum tilgangi, en ég er nú ekki farinn að trúa því enn, að sú verði raunin á, að okkur verði fengið þetta til ráðstöfunar.

Það hefur verið spurt um það, hvað yrði um niðurgreiðslur á vöruverði. Í okt. s.l. voru felldar niður niðurgreiðslur, sem nema miðað við heilt ár eitthvað rúmum 400 millj. kr. Er það meiningin, að þær fáist ekki upp teknar á ný? Er það 3.3% vísitöluhækkunin, sem á að bæta fólki þær, eða hver er ætlunin? Hvernig verður með verð á landbúnaðarvörum? Veit nokkur það? Hvernig verður með fyrirhugaðan farmiðaskatt? Fæst nokkurt svar við því? Hvernig verður með daggjöldin á sjúkrahúsunum, sem ákveðið hefur verið í sambandi við afgreiðslu fjárl. að stórhækka? Verður sú hækkun látin ná fram að ganga eða verða auknar tekjur ríkissjóðs kannske notaðar til þess að greiða þessi daggjöld niður? Verður innheimtur söluskattur á þjónustu Pósts og síma, eins og ráðgert er í fjárlagafrv. eða verður það fellt niður, en innheimtan mundi þýða hækkað gjald á þjónustu þessara stofnana til notenda? Og síðast en ekki sízt vil ég enn á ný spyrja að því, sem hér hefur áður verið gert: Hvað verður um verðtryggingu sparifjárins?

Það mun mála sannast, að hversu margir, sem bíða tjón við gengisfellingu, og þeir eru alltaf mjög margir, eru það þó sparifjáreigendurnir, sem skarðastan hlut bera frá því borði. Það hefur löngum verið svo og það ætlar að verða svo eina ferðina enn, þrátt fyrir það að fyrir tveimur árum voru hér á hv. Alþ, samþ. lög um verðtryggingu sparifjár. Ég skal viðurkenna, að það er erfitt að framkvæma verðtryggingu sparifjár.

Mér er það alveg ljóst, en ég held, að hjá því verði bara alls ekki komizt, ekki sízt þegar gengislækkunarbrautin er gengin áfram og áfram, þrjár gengislækkanir á 8 árum, engin stefnubreyting sjáanleg og fjórða gengislækkunin þar af leiðandi líkleg, að ekki sé sagt örugg. Það verður að finna leið til þess að bæta sparifjáreigendum verðfall peninganna. Spariféð er hornsteinn undir velflestum framkvæmdum í landinu, og það er ekki von til þess, að fólk haldi áfram að trúa bönkunum fyrir sparifé sínu, þegar reynsla þess er sú, sem hún hefur að undanförnu verið, að spariféð er verðfellt um stórfé á fárra ára fresti.

Ég tók eftir því, að í frásögnum Seðlabankastjórnarinnar um fyrirhugaðar ráðstafanir vegna gengisfellingarinnar var verðtrygging sparifjárins eitt af því, sem þar var talið upp, og ég vil mjög eindregið undirstrika nauðsyn þess og vænti þess, að það verði gert og það helzt áður en öll áhrif gengisfellingarinnar eru komin fram.

Ég tel, að allar þessar spurningar, sem ég hef nú bara drepið á í örstuttu máli til þess að verða við beiðni hæstv. forsrh. um að hraða meðferð málsins eftir föngum, — svörin við þeim séu það mikilvæg, að ég satt að segja skil það ekki, að nokkrir hv. alþm, treysti sér til þess að leggja blessun sína yfir gengislækkunina án þess að vita svörin við þeim.

Það er sagt, að ákvæði frv. séu að meginefni þau sömu og áður hafa verið í I. um ráðstafanir vegna gengisbreytinga. Það er að verulegu leyti rétt. Það eru ekki mörg nýmæli í þessu frv. Það skal játað. En ég hygg, að oftast nær, ef ekki alltaf, hafi það legið fyrir við breytingu gengis miklu nákvæmar heldur en nú, hvaða hliðarráðstafanir ættu að fylgja gengisbreytingunni. Og það er það fyrst og fremst, sem hér er gagnrýnt, en ekki út af fyrir sig þau ákvæði um framkvæmd sjálfrar gengisskráningarinnar, sem þetta frv. hefur að geyma. Í þessu frv. er að vísu eitt nýmæli. Það er í 3. gr. Það fjallar um farmgjöldin, en ég tel, að það sé nú ekki óeðlilegt ákvæði, og ég ætla mér ekki að halda uppi neinni gagnrýni á það út af fyrir sig. Þá tel ég, að í 4. gr. sé mjög ónákvæmt orðalag, sem mér hefur nú ekki tekizt að fá eiginlega neina fullnægjandi skýringu á. Má vera, að einhver hæstv. ráðh. sjái ástæðu til þess að skýra það. Það er 2. málsl. fyrri mgr. 4. gr., þar sem segir, að ríkisstj. kveði nánara á um, til hvaða afurða þetta ákvæði skuli taka, og eru ákvarðanir hennar þar að lútandi fullnaðarúrskurðir. Ja, ein skýringin er sú, að ríkisstj. eigi að hafa fullnaðarúrskurðarvald um það, hvaða vörutegundir eigi að falla undir ákvæði gr. Önnur skýringin er sú, að ríkisstj. eigi að hafa úrskurðarvald um það, á hvaða ári varan telst framleidd. Og þriðja skýringin er á þann veg, að úrskurðarvald ríkisstj. taki til beggja þessara atriða, og þá verð ég að segja það, að ákvæði gr. eru orðin næsta haldlítil, þar sem þar er þá fyrst og fremst um heimild til handa ríkisstj. að ræða til þess að fara með þessi mál algerlega að eigin vild. En hvernig sem um þennan skilning 4. gr. fer, er það ljóst, sem hér hefur áður verið bent á, að eftir ákvæðum hennar verður stórum erfiðara fyrir framleiðslufyrirtækin að halda áfram starfsemi sinni í desembermánuði heldur en þó hefur verið til þessa og skildist manni þó, að á þá erfiðleika væri ekki bætandi, þar sem hér á að taka af framleiðendunum þann hagnað, sem af gengisbreytingunni leiðir, af allri þeirri vöru, sem framleidd er árið 1967, einnig þeirri, sem ekki er farið að framleiða enn þann dag í dag. Mér finnst þetta ákvæði vera mjög varasamt og ég vil beina því til hæstv. stjórnarflokkaþm., hvort þeir vilji ekki endurskoða þessa afstöðu. Er það ekki svo, að útflutningsframleiðslan eigi við nærri óyfirstíganlega örðugleika að etja? Er þá nokkur von til þess, að í desembermánuði, þegar 3.3% kauphækkun þó verður og þegar gengisbreytingin fer að segja til sín í rekstrarvörum framleiðslufyrirtækjanna, er þá nokkur von til þess, að þau geti yfirleitt framleitt nokkra vöru í desembermánuði með þessu fyrirkomulagi. Kannske er það ekki stórt atriði.

Með hliðsjón af því, sem ég hef nú sagt og ýmsu, sem fram hefur komið í öðrum ræðum hv. stjórnarandstæðinga, þá legg ég til ásamt hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 3. þm. Austf., að þetta frv. verði fellt.