25.11.1967
Efri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að þessu sinni að ræða um þetta gengisfellingarmál mjög almennt. Ég tel ekki ástæðu til þess nú. Það hefur þegar verið gert allmikið við umr. um þetta frv. og verður vafalaust tækifæri til þess að ræða þau mál enn um sinn, m.a. í sambandi við þá vantrauststill., sem lögð hefur verið fram á ríkisstj. Ég er sammála því minni hl.-áliti, sem lagt hefur verið fram um málið, og get algerlega tekið undir þann rökstuðning, sem þar er fram fluttur. Ég vil leggja á það áherzlu, að það er vitanlega mikilvægt fyrir menn, þegar þeir taka afstöðu til slíks máls eins og þessa að vita svör við þeim mörgu spurningum, sem spurt hefur verið í sambandi við væntanlegar hliðarráðstafanir og svör hafa lítil eða engin komið við enn þá. Ég vil leyfa mér að bæta einni spurningu við í þeirri von, að einhver hæstv. ráðh. eða annar hvor þeirra hæstv. ráðh., sem hér eru viðstaddir umr., taki hana til athugunar, annaðhvort svari henni, ef þeir hafa tök á nú, eða taki það fyllilega til athugunar, hvað gert verður í sambandi við það mál.

Það er vitað, að þegar um slíka lækkun á gengi er að ræða eins og hér á sér stað, verða miklar tilfærslur fjármuna. Sumir tapa greinilega á breytingunni, aðrir hagnast.

Ég vil benda á einn hóp manna, sem gengisfelling snertir sérstaklega illa hverju sinni. Það eru þeir námsmenn okkar, sem eru við nám erlendis. Það munu vera, að því er ég bezt veit, um eða yfir 700 íslenzkir námsmenn við nám erlendis, sennilega eitthvað á milli 700–800. Ég tel ekki fjarri lagi að gera ráð fyrir, að námskostnaður þeirra í íslenzkum krónum sé nú eða hafi verið fyrir gengisfellinguna um 90 þús. kr. á ári á mann, þ.e.a.s. þá geri ég ráð fyrir fargjöldum, sem þeir þurfa margir að greiða einu sinni á ári a.m.k. Þarna er um að ræða upphæð, sennilega samtals eitthvað milli 60–65 millj. á ári, og þegar nú verður um að ræða, að þessi upphæð hækkar í krónutölu íslenzkri um þriðjung hér um bil, sé ég ekki betur en þarna sé um að ræða hvorki meira né minna en 20 millj. kr. skatt á íslenzka námsmenn erlendis. Ríkið hefur styrkt námsmenn alllengi. Aðallega er sá stuðningur veittur í formi lána, en að nokkru í formi styrkja. Þessi lán og styrkir til íslenzkra námsmanna erlendis munu á þessu ári hafa verið um 18–19 millj. kr. að því er ég kemst næst. Þessi upphæð, lán og styrkir til námsmanna, færi öll og meira til núna í sambandi við gengisbreytinguna, ef ekki verður að gert í þessu efni. Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja: Hvað er fyrirhugað í sambandi við þennan hóp manna, sem allra manna sízt má við því að fá hag sínum eða kjörum svo raskað, sem með þessu móti yrði gert? Hvað er fyrirhugað í því efni? Það kemur að sjálfsögðu ýmislegt til greina og þá ekki sízt það að stórauka þann stuðning, sem þessum mönnum verður veittur, stórauka hann í hvaða formi, sem það nú yrði. Þetta tel ég alveg nauðsynlegt og raunar sjálfsagt í sambandi við þessar aðgerðir.

Eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki nú við þetta tækifæri að fara að tefja þetta mál með því að ræða um gengisfellingarmálið almennt. Það gefast tækifæri til þess síðar.