23.01.1968
Efri deild: 45. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

94. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hér er um að ræða tvenns konar breyt. á iðnlánasjóðslögunum, en þó eru breytingarnar hvor af sínu tagi.

Fyrir nokkru bar það á góma milli fyrirsvarsmanna Fél. ísl. iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna, að það kynni að vera æskilegt að þeirra áliti að fá til ráðstöfunar nokkurn hluta af iðnlánasjóðsgjaldinu til almennra þarfa fyrir iðnaðinn, en eins og kunnugt er, hefur iðniánasjóðsgjaldið runnið í Iðnlánasjóð og samkv. ákvæðum laganna að öllu leyti til þess að veita lán, annars vegar út á fasteignir iðnaðarins og til endurskipulagningar iðnreksturs í landinu og hins vegar út á vélakaup. Samkvæmt 1. grein þessa frumvarps er gert ráð fyrir því, að 10% af árlegu iðnlánasjóðsgjaldi megi frá 1. jan. 1968 verja til að greiða fyrir hagrannsóknum í þágu iðnaðarins og fyrir aðgerðum, sem stuðla að þjóðhagslega hagkvæmari iðnþróun í landinu. Stjórn sjóðsins ráðstafar þessu fé í samráði við þessi félagssamtök iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna.

Í fyrsta lagi hafa samtökin bent á í grg., sem fylgir þessu frv. og er grg. þessara samtaka fyrir þessari till., — því samkv, óskum þeirra er þessi brtt. flutt — að það sé brýn nauðsyn á því að gera ýtarlegar athuganir á starfsgrundvelli einstakra iðngreina ekki sízt með tilliti til þeirrar þróunar í markaðsmálum Íslendinga, sem vænta má, að muni eiga sér stað í náinni framtíð, og einnig í framhaldi af því að gera ráðstafanir til þess, að iðngreinirnar verði færari um að aðlagast nýjum markaðsviðhorfum. Samtökin hafa t.d. sérstaklega rætt við iðnmrn. um nauðsyn þess að hefja eins konar herferð — ef svo mætti segja — hjá íslenzkum neytendum fyrir því að nota íslenzkar iðnvörur meira en þeir hafa gert. Nú þekkjum við þetta frá fyrri tíð, að hafðar voru sérstakar víkur — ef svo má orða það — þar sem áróður var rekinn annaðhvort fyrir einhverri verzlunarvöru eða iðnvöru eða einhverju slíku, og þóttu þær stundum gefast vel. Einnig hafa verið haldnar kaupstefnur hjá iðnaðinum 1965, og nefna má einnig hina stóru og myndarlegu iðnsýningu 1966. Allt þetta stuðlar að því að auglýsa varninginn og þá þróun, sem átt hefur sér stað í iðnaðarframleiðslunni hérlendis. Ég tel ekki nokkurn vafa á því, að iðnsýningin 1966 hafi sérstaklega vakið athygli almennings á þeim framförum, sem átt hafa sér stað á mörgum sviðum iðnaðarframleiðslunnar hér á landi, t.d. í fataiðnaði, og hafi almenningi orðið ljóst, að nú væri um að ræða af hálfu ísl. iðnaðar miklu meiri vörugæði en menn almennt höfðu gert sér grein fyrir.

Á haftaárunum hér áður var íslenzk vara, sem bauðst, kannske ekki talin sambærileg við þá erlendu vöru, sem menn að mestu leyti keyptu erlendis á ferðum sínum, en slíkar framfarir hafa átt sér stað í vélabúnaði og framleiðsluháttum hérlendis að á þessu hefur orðið mjög mikil breyting og iðnaðarframleiðslu okkar skilað verulega fram á við í þessum efnum. En sá hængur er á, að slíkri auglýsingastarfsemi sem þessari fylgir það, að hún er tímabundin og vill oft detta niður til þess að gera fljótt, er frá líður, og því er ekki að neita, að við Íslendingar erum á vissan hátt haldnir nokkurri tilhneigingu — ég hygg, að það sé rétt metið til þess að kaupa kannske frekar af iðnvarningi það, sem útlent er, en það, sem er innlent. Þetta á ekki aðeins við um okkur Íslendinga, heldur margar aðrar þjóðir — og jafnvel þróuðustu iðnþjóðirnar. Þannig hef ég stundum rekið mig á það t.d. í verzlunum í Bandaríkjunum, að kaupendur hafa beinlínis innt eftir því, hvort til væri vara af þessu tagi, sem væri innflutt. Það virðist að einhverju leyti kitla hégómagirnd manna eða einhverjar slíkar tilfinningar, að þar með sé kannske meiri nýjung á ferð, en ekki endilega það, að varan sé betri en innlenda varan, sem þeir eru vanir að kaupa.

Á hinn bóginn hef ég einnig orðið var við það, að ein þjóð af nágrannaþjóðum okkar, Svíar, er mjög hörð á því að kaupa sína eigin iðnaðarframleiðslu, og kunna að liggja til þess þær orsakir, að þeim hafi lánazt að vekja athygli þjóðarinnar eða almennings á því, hversu mikils virði sé að hagnýta eigin iðnvarning. Að vísu er það svo, að þeir standa mjög framarlega, og iðnvörur þeirra eru kannske í flestum tilfellum alveg sambærilegar við annað, sem inn er flutt.

Ég held þess vegna, að það sé nokkuð mikils virði, að forystumenn í iðnaðinum hér hafi aðstöðu til þess að reka herferð til að opna augu almennings fyrir getu, möguleikum og gæðum ísl. iðnvara, sem eru að mínum dómi meiri, en menn almennt gera sér grein fyrir. Þeir hafa t.d. talað um að hafa slíka auglýsingastarfsemi með nokkru millibili — árstíðabundið — á vorin, haustin og fyrir jól. Hætt er við, að hún detti svolítið niður á milli, en haldi þó stöðugt áfram, og ég hygg, að þetta kynni að gefa nokkuð góða raun, en þetta kostar auðvitað nokkra peninga. En þarna kæmi til greina, að þeir fengju ráðstöfunarfé, sem þá ella skorti, til að leggja m.a. í slíkt. Einnig gæti þetta orðið upphaf að því, að hér yrði sett upp eins konar sýningarmiðstöð fyrir iðnaðinn almennt, en við þekkjum nokkur dæmi þess hér, t.d. í byggingariðnaðinum. Menn vita, að þar geta þeir, hvenær sem er, komið til þess að sjá það, sem er hverju sinni helzt á boðstólum, og allar nýjungar hjá ísl. iðnaði. Þetta er mjög þekkt erlendis og virðist hafa gefið góða raun. Undir slíka gæti ýtt, að þetta 10% gjald, sem hér er farið fram á af iðnlánasjóðsgjaldinu, rynni til þessara samtaka, sem hér um ræðir, og yrði varið til þessara og annarra aðgerða, sem gert hefur verið ráð fyrir og hafa það sameiginlegt, að vera iðnaðinum almennt til gagns. Það er einnig skoðun fulltrúa þessara samtaka sjálfra, að það kynni að gefa eins góða raun, að 10% af iðnlánasjóðsgjaldinu gengju til slíkra hluta fremur en áfram eingöngu til lánveitinganna. En þetta gæti numið á ársgrundvelli, eins og sakir standa, um 2 millj. kr. Ég vænti þess þess vegna, að hv. d. taki vel í þessar óskir samtaka iðnaðarins með því að fallast á þessar brtt.

Í 2. gr. frv. er svo annað mál annars eðlis, þar sem gert er ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að greiða til lánadeildar veiðarfæraiðnaðar allt að 11/2 millj. kr. til að bæta innlendum veiðarfæraiðnaði það tjón, sem hann hefur, að mati stjórnar Iðnlánasjóðs, beðið vegna ákvörðunar stjórnarvalda um breytingu á reglum um möskvastærð fiskineta 1963 og 1964. Þetta er mál, sem einnig hefur verið nokkuð lengi til meðferðar og kannske fyrst og fremst í viðræðum fyrirsvarsmanna veiðarfæraiðnaðarins við fjmrh., eins og að líkum lætur. Þetta er nokkrum vanda bundið, en á s.l. hausti var það sameiginleg skoðun okkar fjmrh., að eðlilegt væri og rétt eftir atvikum að verða við þeim óskum, sem hér um ræðir, með þeim hætti að verja úr ríkissjóði allt að 11/2 millj. kr., sem að mati stjórnar Iðnlánasjóðs færi til þess að bæta slíkt tjón, þ.e. tjón, sem iðnaðurinn hefur orðið fyrir vegna ráðstafana stjórnarvalda.

Það vill nú svo til, eins og gerð er grein fyrir í grg. við 2. gr., að hér er um að ræða, eins og sakir standa og hv. þm. er kunnugt um, eina veiðarfæragerð, sem þetta tekur til, þ.e. Hampiðjuna. Hampiðjan hefur gert grein fyrir því, eins og þar er nánar tekið fram, að vegna ákvarðana eða reglugerða um breytingu á möskvastærðum hafi hún orðið fyrir verulegum skakkaföllum, þar sem aðrar möskvastærðir hafi verið ákveðnar fyrir hampnetin eða botnvörpur úr manillahampi, en úr gerviefnum. Þegar það hafi orðið uppi á teningnum, hafi skipstjórar kvartað undan því, að fiskur ánetjaðist, eins og þar segir, í hampnetunum til stórra tafa við veiðarnar, en slíkt kom ekki til greina, á meðan möskvastærðir voru hinar sömu í netum úr manillahampi og gerviefnum. Þetta endaði með því, að af þessum sökum var hætt við kaup á þessari gerð netanna, sem fyrst og fremst voru trollnetin eða botnvörpunetin.

Fleiri hafa orðið fyrir svipuðu tjóni — fleiri aðilar en veiðarfæraiðnaður hér á landi. Svipað hefur átt sér stað í Noregi, en mér er tjáð, að Norðmenn hafi m.a. leyst þann vanda með því, að ríkið keypti slík veiðarfæri, sem lögðust upp, og gaf þau svo vanþróuðum þjóðum, sem voru að hefja sínar veiðar. Það gat út af fyrir sig komið þeim að góðu gagni og verið þeim til fullra nota, þó að það væri ekki á veiðisvæðum Norðmanna né heldur okkar Íslendinga. Ekki fannst okkur þetta hins vegar, eins og sakir standa, eðlileg lausn, en hjá Norðmönnum háttar öðruvísi til en hjá okkur. Þar eru greiddir opinberir styrkir til veiðafærakaupa, en það höfum við aldrei tekið upp. En þetta getur skipt nokkru máli í sambandi við afkomu þessarar einu veiðarfæragerðar, sem hér er um að ræða.

Þá er að sjálfsögðu ekki verið að ræða um það á neinn hátt að bæta það óbeina tjón, sem þessi iðnaður hefur orðið fyrir vegna þessara ákvarðana stjórnarvalda, heldur aðeins beina tjónið, sem af hálfu stjórnenda Hampiðjunnar er metið á tæpa 11/2 millj. kr. Það mundi verða skoðað nánar af hálfu Iðnlánasjóðs, áður en ákvarðanir yrðu endanlega teknar, og farið yfir þá hluti gaumgæfilega. En hér er um að ræða, að ríkissjóði væri heimilt að verja til veiðarfæradeildar Iðnlánasjóða allt að þessari upphæð, ef það að undangengnu mati teldist eðlilegt. Ég vildi einnig mega vænta þess, að þessari brtt. yrði vel tekið hér í hv. d., og vil að svo mæltu leyfa mér að leggja til, að málinu verði visað til 2. umr. og iðnn. deildarinnar.