22.02.1968
Efri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

94. mál, Iðnlánasjóður

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 5. þm. Reykn. leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 311 við það frv. til l. um breyt. á l. um Iðnlánasjóð, sem hér er til umr. Áður en ég kem að því að lýsa brtt., vil ég geta þess, sem hv. 7. landsk. þm. var raunar áður búinn að skýra frá, að fullt samkomulag var um það í fjhn. að mæla með frv. í iðnn. svo langt, sem það náði.

Það eru tvö efnisatriði í frv. Annars vegar er það að taka hluta af iðnlánasjóðsgjaldi til þess að nota til hagræðingar í íslenzkum iðnaði. Ég er fyllilega samþykkur því, að hluti af slíkum tekjum geti gert fullt eins mikið gagn notaður á þann hátt, eins og hann gerir, þegar hann er notaður til beinna útlána. Þetta hef ég oft rætt áður, m.a. í sambandi við Byggingarsjóð ríkisins og húsnæðismálastjórn, og er á sömu skoðun og ég hef alitaf verið um það, bæði að því er snertir þá stofnun, svo og Iðnlánasjóð og hvern annan þann sjóð, sem starfar í þágu atvinnuveganna. Það er vissulega þýðingarmest, ef hægt er að auka hagræðingu, og ég hygg, að þetta frv., þótt skammt gangi, stuðli að því og þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun í landinu.

Hitt efnisatriðið er um það, eins og hv. frsm. lýsti raunar, að heimilt væri að greiða til lánadeildar veiðarfæraiðnaðarins allt að 1,5 millj. kr. Mig minnir, að það sé nánar til tekið 1485 þúsund kr., sem eigi að greiða til eins framleiðanda, Hampiðjunnar, vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstj. að breyta möskvastærð á fiskinetum, þannig að það magn af veiðarfærum, sem Hampiðjan var búin að framleiða, verður ónýtt og óseljanlegt. Og við höfum verið sannfærðir um það í hv. iðnn., að hér sé um mjög sérstætt atriði að ræða, sem ekki muni koma til með að skapa nokkurt fordæmi fyrir aðra framleiðendur til þess að gera hliðstæðar kröfur á hendur ríkissjóði, og erum fylgjandi því — eða ég er það fyrir mitt leyti í trausti þess.

brtt., sem ég flyt hér ásamt hv. 5. þm. Reykn., er á þá leið, að 2. tölul. 5. gr. l. um Iðnlánasjóð nr. 68 frá 1967 orðist þannig, að framlag ríkissjóðs sé hluti af tekjum Iðnlánasjóðs og sé árlega jafnhátt tekjum, sem sjóðurinn fær af gjaldi því, er iðnaðurinn greiðir samkv, 1. tölul.

Þetta mál er ekki nýtt hér á hv. Alþ. Ég hef áður meðal annarra flutt frv., sem gengur í þessa átt, síðast á þingi 1966. Það hefur ekki náð fram að ganga og er því flutt einu sinni enn. Þessi beiðni er komin frá Iðnþingi, sem undanfarin þrjú skipti, sem það hefur komið saman, hefur gert ályktun, sem gengur í þessa átt. Ég held, að það sé ómótmælanlegt, að iðnaðurinn búi við mikinn lánsfjárskort. Með þessari till. er stefnt að því að rétta örlítið hlut iðnaðarins í þessum efnum, þó engan veginn svo að það geti talizt fullnægjandi — því að mér dettur ekki í hug að halda fram, að þetta sé nema til bráðabirgða. Ég tel mikla þörf á því að taka öll lánamál iðnaðarins til gaumgæfilegrar athugunar með það fyrir augum, að hann fái þá úrlausn, að samkeppnisaðstaða hans verði verulega styrkt að þessu leyti og grundvöllur lagður að raunhæfri endurskipulagningu hans á sem flestum sviðum. Mér finnst þetta sjálfsögð krafa hjá iðnaðarmönnum, ekki sízt vegna þess, að framlög ríkisins til hliðstæðra fjárfestingarsjóða landbúnaðar og sjávarútvegs eru og hafa um langa hríð verið jafnhá framlögum þessara atvinnugreina til sjóðanna.

Hv. 7. landsk. þm. sagði hér áðan, að meiri hl. hv. iðnn. teldi, að hér væri um réttlætismál að ræða, en meiri hl. hefði þó ekki talið rétt að íþyngja ríkissjóði nú á þennan hátt. Sú fjárhæð, sem hér er farið fram á úr ríkissjóði, mun nema miðað við tölur s.l. árs um 10 millj. kr. Iðnlánasjóðsgjaldið, sem iðnaðurinn greiðir, mun vera um 20 millj. kr., en ríkisframlagið 10 millj. kr., þannig að sú hækkun, sem hér er farið fram á, er þá um 10 millj. kr. Það eru 10 millj. kr. af þessum rúmum 6 milljörðum, sem fjárl. fjalla um, og daglega er hér á hv. Alþingi nú fjallað um nýjar greiðslur — stórkostlegar greiðslur svo hundruðum milljóna skiptir — til annarra atvinnugreina, en ekki neitt til þessarar atvinnugreinar, iðnaðarins, sem þó veitir flestu fólki — a.m.k. hér í höfuðstaðnum og raunar víðar — atvinnu.

Sú tollalækkun, sem boðuð var í sambandi við gengislækkunina í nóvembermánuði s.l. hefur nú náð fram að ganga hér á hv. Alþ. Iðnaðurinn batt við þessa tollalækkun talsverðar vonir. Forráðamenn hans héldu eftir því, sem mér er tjáð, að tollalækkunin yrði framkvæmd á þann hátt, að samkeppnisaðstaða iðnaðarins yrði höfð í huga og hún bætt. Þetta var gert, að því er snertir málmiðnaðinn á þann hátt, að tollalækkanir til hans voru áætlaðar 14 millj. kr., en að öðru leyti var þessi tollalækkun að sjálfsögðu í fyrsta lagi miklu minni heldur en lofað var og í öðru lagi á þann hátt gerð, að iðnaðinum kom ekki að haldi, vegna þess að markmiðið, eins og það kom fram í aths. með frv. um tollalækkanirnar, var það og það eitt að sjá til þess, að iðnaðurinn hefði sömu aðstöðu og hann hafði, áður en gengislækkunin var framkvæmd.

Að vísu má búast við því, að gengislækkunin sjálf hafi nokkur áhrif til hins betra fyrir sumar iðngreinar. Ég vil alls ekki loka augunum fyrir því. En ég tel, að þar sem a.m.k. þeir hv. alþm., sem eru í iðnn. þessarar d., telja, að hér sé um réttlætismál að ræða, sé ekki bundinn stærri baggi en svo, að ríkissjóður ætti að geta borið hann, þegar iðnaðurinn — þessi þýðingarmikla atvinnugrein á í hlut, og ég vonast til þess, að hv. alþm. geti nú, þegar þeir athuga þetta betur, séð sér fært að ljá þessari till. lið.

Eins og hv. frsm. n. sagði hér áðan, mun Iðnlánasjóður á þessu ári hafa til ráðstöfunar um 68,8 millj. kr. samkv. eigin upplýsingum, en lánsbeiðnir munu nú vera fyrirliggjandi hjá sjóðnum — um 80 millj. kr. — auk þess, sem verulegar fjárhæðir hljóta að bætast við á árinu. Þetta er í ársbyrjun, sem við erum að tala um fyrirliggjandi umsóknir, en fjármunirnir eru til ráðstöfunar allt árið. Þó að hér sé um smávægilega fjárhæð að ræða miðað við það, sem stundum er fjallað um hér, mundu þessar 10 millj. kr. þó — ef þær fengjust — gera sjóðnum kleift að ganga þeim mun lengra til móts við réttlátar og sjálfsagðar kröfur iðnrekenda um lán úr Iðnlánasjóði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri.