19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

94. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér tvö atriði. Það er annars vegar heimild til þess að verja 10% af árlegu iðnlánasjóðsgjaldi til hagrannsókna í þágu iðnaðarins og til annarra aðgerða, er stuðla megi að hagkvæmri iðnþróun í landinu. Hitt atriðið er að heimila ríkisstj. að bæta innlendum veiðarfæraiðnaði það tjón, sem hann hefur orðið fyrir vegna ákvarðana stjórnarvalda um breytingu á reglum um möskvastærðir fiskineta.

Um fyrra atriðið er það að segja, að það er flutt vegna tilmæla Félags ísl. iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna, sem telja æskilegt að framkvæma margvíslegar athuganir á starfsgrundvelli einstakra iðngreina með meiri hagræðingu fyrir augum. Telja þessir aðilar, að þetta skerði lítið núverandi lánagetu Iðnlánasjóðs, en geti hins vegar orðið einstökum iðngreinum og iðnaðinum í heild að mjög miklu gagni með öðrum hætti. Virðist hér vaka fyrir iðnaðinum að fara svipaða leið og Norðmenn gerðu með stofnun aðlögunarsjóðs norska iðnaðarins, sem við vitum, að hefur gefið mjög góða raun. Gera menn ráð fyrir, að 10% af iðnlánasjóðsgjaldinu nemi um 2 millj. kr. á ári. Má með því fjármagni framkvæma margvíslegar athuganir og aðgerðir, sem einstökum fyrirtækjum eða smærri iðngreinum væri um megn að standa undir, en geta orðið þeim og raunar iðnaðinum í heild til ómetanlegs gagns, eins og reynslan hefur sýnt í Noregi. Þar hafa margvísleg vandamál iðnaðarins verið leyst með sameiginlegum, sérfræðilegum athugunum, aukinni samvinnu og jafnvel samruna smærri fyrirtækja, sem eflt hefur samkeppnisaðstöðu iðnaðarins. Hér kemur margt til greina, svo sem sameiginleg innkaup, sameiginleg dreifing, aukin verkaskipting, markaðskönnun og margt fleira. Líklegt má telja, að sérfræðilegar athuganir af þessu tagi leiði til margvíslegs hagræðis fyrir ísl. iðnað og er iðnmrn. sammála því, að rétt sé að veita þá heimild, sem í frv. felst, og ástæða sé til þess að fagna því, að þessi leið sé farin.

Iðnn. telur eftir atvikum einnig rétt að mæla með samþykkt síðara atriðis frv., þ.e. að heimila ríkisstj. að greiða veiðarfæraiðnaðinum það tjón, sem hann varð fyrir vegna opinberra ráðstafana. Málið er nokkuð sérstætt og verður varla litið á það sem fordæmi fyrir aðra. Veiðarfæraiðnaðurinn er líka alls góðs maklegur, og æskilegt er fyrir fiskveiðiþjóð að stuðla að eflingu hans. Einn nm. var fjarverandi við afgreiðslu málsins, en hinir skrifa allir undir nál. og leggja til, að frv. verði samþ. en áskilja sér þó rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég legg því til, herra forseti, að málið verði samþykkt og því vísað til 3. umr.