25.01.1968
Efri deild: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

98. mál, verkamannabústaðir

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem hv. alþm. er kunnugt, er fyrir utan hin almennu lán húsnæðismálastjórnar veitt opinber aðstoð í þrenns konar formi til annarra húsbyggjenda. Er þá sérstaklega ætlazt til í öllum þessum tilfellum, að þar sé um efnalítið fólk að ræða, sem njóta skuli sérstakrar fyrirgreiðslu af hálfu þess opinbera eftir þeim hlutaðeigandi lögum, sem við eiga hverju sinni, en þau eru þessi: 1) Lög um verkamannabústaði. 2) Sá kafli l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem gerir ráð fyrir aðstoð við sveitarfélög til byggingar íbúða til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. 3) Þær tilraunir, sem nú er hafnar hér í Reykjavík, til byggingar íbúða á vegum Framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, sem gert var ráð fyrir með breytingu á þeim l., sem gerð var hér á síðasta þingi.

Eins og ég sagði áðan, er alls staðar gert ráð fyrir því, að mjög takmarkaður hópur landsmanna geti orðið þessara lána aðnjótandi, þó að það sé almannafé, sem notað er til stuðnings þessum íbúðabyggingum. Áætlað hefur verið, að milli 10–12% landsmanna gætu vegna tekna orðið aðnjótandi þessarar aðstoðar. Af þeim ástæðum í fyrsta lagi, að um almannafé er að ræða og tekjulágu fólki er einkum ætlað að njóta þessarar aðstoðar hefur verið talið af löggjafans hálfu allt frá setningu fyrstu laga um verkamannabústaði árið 1930 til þessa dags, að óeðlilegt væri, að þessar íbúðir gætu komizt á almennan markað, hinn almenna íbúðamarkað. Og þess vegna hafa verið settar mjög strangar reglur um, hverjir skyldu njóta þessarar aðstoðar og eins með hvaða hætti afsal þessara íbúða ætti sér stað, þegar um það er að ræða.

Þessi ströngu ákvæði um afsal íbúðanna og sölu þeirra við eigendaskipti hafa í hugum allra landsmanna verið þau, að forðast bæri, að þessar íbúðir færu á hinn almenna markað vegna þess, hvernig hinn opinberi stuðningur væri til kominn. En með dómi Hæstaréttar frá 30. nóv. 1966 verða þessi ákvæði séð í nokkuð öðru ljósi, og það gerir nauðsynlegan flutning frv. til tryggingar þessu ákvæði laganna, eins og fram kemur á þskj. nr. 225, 98. mál, þar sem um þetta frv. er fjallað, og enn fremur á þskj. nr. 226, 99. mál. Ég tel, að það þurfi ekki langra umr. við um hvorugt þessara mála. Forsendan er sú sama, að vegna þessa dóms er það talið geta orkað tvímælis, hvort þau ákvæði laganna, sem átt hafa að tryggja það, að þessar íbúðir yrðu áfram í eigu eða til ráðstöfunar þess opinbera, héldu því gildi sínu, en dómurinn, eins og ég sagði áðan, styður það mjög, að á þessum ákvæðum sé hert. Það er tilgangur þessara frv. beggja, og hefur verið af hálfu ráðuneytisins haft samstarf eða samráð við lögfræðideild Háskóla Íslands til tryggingar því, áð þetta mætti svo haldast sem upphaflega var gert ráð fyrir.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr vísað til 2. umr. og hv. heilbr - og félmn.