11.03.1968
Neðri deild: 73. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

98. mál, verkamannabústaðir

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., hefur hv. Ed. afgr. einróma og ágreiningslaust. Frv. er mjög einfalt að efni og tilgangur þess kemur glögglega fram í aths. um frv. En það er fram borið vegna þess, að samkv. niðurstöðu Hæstaréttar frá 30. nóv. 1966 er talið vafasamt, að þau ákvæði í gildandi lögum um sölu íbúða innan verkamannabústaðakerfisins fái staðizt eins og þau hafa hingað til verið framkvæmd. Þess vegna er talið nauðsynlegt að skýra lögin allverulega, og er gert ráð fyrir því í 1. gr. þessa frv., þannig að það fari ekki á milli mála, hvernig þær hugmyndir upphaflega voru, sem lögfestar voru með þeim skilningi, að það væru á því verulegar takmarkanir að selja slíkar íbúðir, sem byggðar eru fyrir almannafé — takmarkanir, sem væru langt umfram það, sem gildir um íbúðir í eigu einstaklinga. Þetta er megininntak þessa frv., og jafnframt er einnig flutt frv., sem síðar mun koma hér fyrir hv. þd., með sams konar ákvæði varðandi lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins.

Ég tel, að frv. þurfi ekki frekari skýringar við, en legg til, herra forseti, að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.