05.03.1968
Efri deild: 66. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

99. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að gera aths. við efni þessa frv. Ég er því samþykkur að öllu leyti. Hér er, eins og frsm. greindi frá, um eins konar leiðréttingu og samræmingu að ræða á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Eftir að umræddur hæstaréttardómur hefur fallið, þar sem forkaupsréttur er ekki viðurkenndur, þegar nauðungarsala fer fram, þá er eðlilegt, að lögum sé breytt þannig, að forkaupsrétturinn sé ótvíræður. Sama má segja um ákvæði 2. gr. Þau tel ég vera eðlileg líka, þ.e. um forkaupsrétt sveitarfélagsins.

En ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 318 viðaukatill. við þetta frv. Úr því að verið er að breyta lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þá fannst mér rétt að gefa þm. kost á því að breyta einnig því ákvæði, sem allir eru, að ég held, sammála um, að breyta þurfi. Það er að fella niður vísitöluálag á afborganir og vexti af lánum Húsnæðismálastofnunar. Ég þarf ekki að hafa fyrir þessari till. langa framsögu og mun heldur ekki gera það, vegna þess að ég tel, að hér sé um réttlætismál að ræða, sem eigi víðtækan hljómgrunn hér í þessum sal. Og það byggi ég fyrst og fremst á því, að hæstv. félmrh. tók mjög vel undir það mál, þegar fsp. um húsnæðismál — frá mér og fleirum — var rædd hérna í hv. Sþ. þ. 26. jan s.l. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Af ýmsum ástæðum hafa viðhorfin til vísitölubundinna lána breytzt m.a. vegna þess, að verðlagsuppbót er nú ekki lögbundin við kaupgreiðsluvísitölu. Það er nú í athugun, hvernig bregðast skuli við þessum nýju viðhorfum, en ákvörðun um þetta efni verður ekki tekin, fyrr en þessar athuganir liggja fyrir.“

Síðan þessi fsp. var rædd, hafa nú liðið 6 vikur, og það ætti því að hafa gefizt tóm til að athuga mál þetta með hliðsjón af breyttum ástæðum.

En höfuðrökin fyrir því að fella niður vísitölugreiðslur á afborganir og vexti húsnæðislána eru auðvitað fyrst og fremst þau, að ekkert samband ekkert lögboðið samband a.m.k. — er lengur á milli kaupgjalds og framleiðslukostnaðar. Ég tel víst, að þegar samið var af hálfu verkalýðsfélaganna um þessar álögur á húsnæðislánin, hafi það verið gert í trausti þess, að þetta samband héldist, og a.m.k. voru þessir samningar gerðir á sama tíma og tekið var upp að nýju sambandið milli kaupgjalds og verðlags.

Í öðru lagi mælir það með samþykkt þessarar till., að vegna nýgerðrar gengisfellingar hefur byggingarkostnaður hækkað stórkostlega. Mig minnir, að hæstv. félmrh. hafi í áminnztri ræðu 26. jan. áætlað hækkunina í Breiðholtshverfinu vegna gengislækkunarinnar einnar 12%. Þessi hækkun byggingarkostnaðar skellur nú með fullum þunga á þeim, sem eiga að greiða vísitölulánin, eftir að vísitalan hefur þó verið numin brott af tekjum þeirra og eftir að atvinnuástandið hefur rýrnað svo mjög sem raun ber vitni og er nú á allra vörum.

Í þriðja lagi tel, ég, að það séu rök í þessu máli, að þrátt fyrir samþykkt l. frá Alþ. um verðtryggingu fjárskuldbindinga hafa þau ekki komið til framkvæmda í sambandi við nein önnur lán svo að máli skipti, en þessi húsnæðislán. Og eftir því sem ég bezt veit um þá verðtryggingu; hafa ráðamenn í þeim málum nú algerlega horfið frá því að verðbinda útlán, enda þótt einhverri verðtryggingu sparifjár kunni að verða komið á, verður kostnaði við hana mætt á annan hátt.

Ég tel, að það sé ósanngjarnt, að það séu þeir menn einir, sem hið opinbera er að hjálpa til þess að reisa húsnæði fyrir sig og sína, sem bera þessa viðbót á lán sín og á afborganir og vexti. Og um þetta fjallar a- og b-liður viðaukatill. minnar á þskj. 318. Í a-lið er lagt til að fella niður þriðja málslið c-liðs 7. gr. laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þar sem þetta ákvæði var tekið upp, og í b-lið er svo gert ráð fyrir því, að þeim lánssamningum, sem þegar hafa verið gerðir við húsbyggjendur, verði breytt á þann hátt, að hækkun eða lækkun á ársgreiðslum samkv. vísitölu falli niður. En c-liður brtt. er um það, að ríkissjóður skuli bæta Húsnæðismálastofnun ríkisins þann tekjumissi, sem hljótast kann af breytingum þeim, sem gerðar verða á lánssamningum samkv. 3. gr. Þetta ákvæði er nauðsynlegt að taka upp líka, ef að þessu verður horfið, vegna þess að byggingarsjóður hefur tekið að láni fé með þessum kjörum og hann getur ekki mætt því án aðstoðar. Þegar skyldusparnaður var lögleiddur hér fyrst, að því er mig minnir 1957, var þegar sett í l. ákvæði um það, að skyldusparnaður ungs fólks skyldi vísitölutryggður, og það er vitanlega sjálfsagt réttlætismál, því að það er ekki hægt að skylda fólk til að spara og rýra sparifé þess á sama hátt og gert er við þá, sem spara af fúsum og frjálsum vilja. Enn fremur hefur byggingarsjóður tekið nokkurt fé að láni með vísitölukjörum, og þetta verður hann að fá bætt.

Ég vil sérstaklega minna á það, áður en ég lýk máli mínu, að það er vitanlega ekki ætlunin með flutningi þessarar tillögu, að vextir af húsnæðislánum verði hækkaðir, þó að vísitöluálagið verði fellt burtu. Það kemur auðvitað að mjög takmörkuðu gagni fyrir þá, sem þessi lán hafa, ef að því ráði verður horfið. Ég legg áherzlu á, að hið opinbera — við, ríkið, ísl. ríkið — verði, eins og alls staðar annars staðar er gert, að tryggja fjármagn til þess að byggja fyrir íbúðir og lána það með þeim kjörum, að fólk geti almennt risið undir því að eiga meðalíbúð.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þetta mál meira en orðið er. Ég vil aðeins leyfa mér að bera fram þá till., vegna þess að hæstv. félmrh. hefur boðað fjarvistir í dag, að þessari umr. verði frestað, ef vera kynni, að hæstv. ráðh. vildi láta í ljós einhverja skoðun á þessu máli nú við 2. umræðu þess.