07.03.1968
Efri deild: 67. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

99. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég gat nú ekki verið við fyrri hlutann af þessari umr. Ég var annars staðar í þinginu. En í sambandi við flutning brtt. hv. 11. þm. Reykv., sem hér er til umr., þá vildi ég aðeins lýsa því hér yfir, að ég tel, að það sé mjög óráðlegt að breyta með svo skjótum hætti því ákvæði núverandi lánareglna Húsnæðismálastofnunarinnar, sem er gert ráð fyrir að breyta samkv. till hv. þm. — sér í lagi að því er varðar afborgunarskilmála, vexti og vísitöluákvæði um verðtryggingu þeirra lána, sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum.

Ég hef lýst því áður hér í umr. í hv. þd., að þetta mál er til sérstakrar athugunar og stendur frumvarpssmíði yfir nú.

En nú stendur yfir samningagerð milli verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda. Vegna þessara yfirstandandi vinnudeilna teldi ég mjög óráðlegt að breyta þessu ákvæði nú svo viðkvæmt, sem það er, og til komið á sínum tíma í kjarasamningum verkalýðssamtakanna, eins og hv. þm. er kunnugt.

Af framangreindum ástæðum legg ég eindregið til, að umræddar brtt. verði felldar, en geri ráð fyrir, að ekki þurfi að líða mjög langur tími, þangað til till. ríkisstj. í þessu efni geti séð dagsins ljós.