07.03.1968
Efri deild: 67. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

99. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að undirtektir hæstv. félmrh. undir brtt. þá, sem hér er til umr., valda mér og vafalaust mörgum öðrum miklum vonbrigðum. Þegar húsnæðismálin voru rædd hér á fundi Sþ. ekki alls fyrir löngu, eins og var rifjað upp í fyrri hl. umr., þá gaf hæstv. ráðh. yfirlýsingu, sem flestir skildu á þann veg, að hann væri á því máli, að þessi ákvæði væru orðin ósanngjörn, aðstæður væru breyttar og það bæri að fella þau úr gildi. Nú segir hæstv. ráðh., að það sé óráðlegt að breyta ákvæðum laganna með svo skjótum hætti og að það sé frv. í undirbúningi til þess að breyta þessu.

Það þarf ekkert frv. Það þarf ekkert annað en þá brtt., sem hér hefur verið lögð fram. Málið er ákaflega einfalt. Það var tekið upp með einni grein í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins eftir júní-samkomulagið 1964, og það er alveg eins hægt að fella það niður á sama hátt. Það þarf að mínum dómi enga frumvarpssmíð til þess. Og ef það er bara það, sem stendur á, þá verð ég að segja, að þetta sé ekkert annað en fyrirsláttur — get ekki orðað það öðruvísi.

Brtt. er í þrem liðum: 1) að fella niður í væntanlegum húsnæðismálasamningum ákvæði um vísitölugreiðslur á vexti og afborganir, 2) að fella þau ákvæði niður úr gildandi húsnæðismálasamningum og 3) að sjá byggingarsjóði fyrir tekjum á móti þeim teknamissi, sem hann á þennan hátt verður fyrir. Og ég sé ekki betur en þessi verðlagsvísitöluákvæði á lánin séu afnumin með því að samþykkja þessa brtt. og það sé engin ástæða til þess að velta þessu lengur fyrir sér, ef menn á annað borð vilja gera þetta. Það er mergurinn málsins. Ég og margir aðrir skildum hæstv. félmrh. svo, að hann vildi gera þetta.

Hann sagði, hæstv. ráðh., að þessi breyting gæti orkað á lausn vinnudeilunnar. Það tel ég alveg vafalaust ... (Gripið fram í.) Ég bið afsökunar, ef ég hef rangt eftir hæstv. ráðh., en mér fannst, að hann talaði um þessi mál í sambandi við lausn vinnudeilunnar, en það er víst bezt að tala varlega. Ég er alveg á því, að þessi mál hafi mikla þýðingu í sambandi við þá vinnudeilu, sem nú stendur yfir. Það er vissulega alveg hárrétt hjá hæstv. félmrh. En markmið okkar allra er alveg vafalaust að leysa þessa vinnudeilu, og ég er alveg viss um það, að þessi niðurfelling ákvæðanna um vísitölu á húsnæðismálalánin getur ekki haft önnur áhrif á vinnudeiluna en þau að greiða fyrir lausn hennar, svo að það finnst mér einnig ástæða til að athuga í sambandi við þessa brtt.

Ég sé enga ástæðu til að ræða þetta í löngu máli. Þetta er einfalt, og skal ég því láta þessi orð nægja.