25.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

99. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég get að mestu vísað til þeirra orða, sem ég mælti hér áðan fyrir frv. til breyt. á. l. um verkamannabústaði, þar sem frv. það, sem hér liggur fyrir til breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, lýtur að hinu sama, þ.e. að taka af öll tvímæli um það, að stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar eigi forkaupsrétt að íbúðum, sem eru byggðar samkv. reglum um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og sömuleiðis að þeim íbúðum, sem eru byggðar eftir reglum um lán til láglaunafólks í verkalýðsfélögum, þegar íbúðirnar eru seldar, jafnvel þó að þær fari á nauðungaruppboð, og vísa ég til aths. um lagafrv., þar sem þetta er nánar skýrt og þm. hafa ugglaust kynnt sér.

Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá Ed. og hefur verið lagt fram í þessari d. Tveir nm., Jón Skaftason og Stefán Valgeirsson, áskildu sér rétt til þess að fylgja brtt., ef fram koma.