09.11.1967
Neðri deild: 15. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í samráði við fulltrúa bænda í Sexmannanefnd og samkomulagi við fulltrúa neytenda, einnig í þessari n. að ég ætla, og að nokkru eftir ósk form. yfirnefndar, sem nú starfar. Það hefur dregizt á langinn að þessu sinni að ákveða búvöruverðið og kemur það til af því, að Sexmannanefnd kom sér ekki saman um verðlagningu á búvörum. Bændur gerðu till. um nokkra hækkun á búvöruverðinu og færðu rök fyrir því. Neytendur gerðu till. um nokkra lækkun og færðu rök fyrir því af sinni hálfu. Málinu var síðan vísað til sáttasemjara samkv. l. og honum tókst ekki að sætta aðila og fór málið þá til yfirnefndar, eins og ætlazt er til samkv. löggjöfinni. Yfirnefnd situr nú að störfum og má vænta úrskurðar hennar, þegar störfum er lokið.

Í framleiðsluráðslögunum er gert ráð fyrir því, að verðlagningu ljúki hverju sinni fyrir 1. sept. ár hvert, nema samkomulag verði um annað. Þetta hefur nú oft dregizt fram um miðjan sept., stundum 20. sept. Ég man ekki, að það hafi verið lengur, en að sjálfsögðu hefur annar aðilinn alltaf vald á því að gera ágreining og vísa málinu til yfirnefndar, ef ekki eru samkomulagshorfur.

Að þessu sinni er útsöluverð búvara miðað við það, að bændur fái sama verð og þeir fengu á s.l. ári. Þannig hlýtur það að verða, þangað til úrskurður yfirnefndar er fallinn, ef það skyldi breytast með því. En ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að eftir framleiðsluráðsl., sem samþ. voru 1966, er gert ráð fyrir því, að verðlagsgrundvöllur sé ákveðinn til tveggja ára í senn og verð afurðanna sé ákveðið til tveggja ára í senn að öðru leyti en því, að það megi breytast, ef rekstrarvörur hækka í verði og ef kaupgjald hækkar hjá viðmiðunarstéttunum. Þá má breyta verðlaginu ársfjórðungslega. Það er gert ráð fyrir því í framleiðsluráðsl. samkv. 4. gr. l., að vinnutími bóndans sé ákveðinn í samræmi við það, sem þörf þykir við meðalbúið, og þess vegna hafa farið fram vinnumælingar á búunum til þess að sannreyna, hversu mikla vinnu eðlilegt er að reikna bóndanum og skylduliði hans við meðalbúið. Þessum vinnumælingum er ekki lokið og ekki komnar nógu langt til þess, að þeir, sem um verðlagninguna fjalla, telji rétt eða eðlilegt að verðleggja til tveggja ára, þar sem ekki er hægt að byggja á nægilega traustum grunni að þeirra dómi.

Eins og hv. alþm. muna, var l. um búreikningaskrifstofu breytt á þessu ári, í byrjun þessa árs. Búreikningaskrifstofan var endurskipulögð frá grunni og ráðinn til hennar ungur og efnilegur rekstrarhagfræðingur. Hjá búreikningaskrifstofunni liggja nú 46 búreikningar yfir fyrri hluta þessa árs, en að sjálfsögðu ekki yfir allt árið. Búreikningarnir eiga í framtíðinni að verða hjálpartæki, ekki aðeins fyrir bændur, heldur einnig fyrir neytendur til þess að finna út sanngjarnt og eðlilegt búvöruverð. En þegar ekki liggja nú fyrir að þessu sinni nema 46 búreikningar fyrir 1/2 ár, er það náttúrlega ekki nóg til þess að byggja á verðgrundvöll til tveggja ára. Af þessum ástæðum hafa fulltrúar neytenda og framleiðenda í Sexmannanefnd talið eðlilegt, að að þessu sinni verði verðlagt aðeins til eins árs, þótt löggjöfin geri ráð fyrir, að það verði framvegis til tveggja ára, eftir að vinnumælingum er lokið og búreikningar liggja fyrir.

Í rauninni er ekki meira um þetta mál að segja. Ég legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.