16.10.1967
Efri deild: 3. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta var samþ. á síðasta Alþ., og í kosningunum í sumar varð ekki vart neins ágreinings um efni þess. Má því telja ljóst, að kosningarnar hafi sýnt þann þjóðarvilja, að sú breyting á stjórnarskránni skuli ná fram að ganga, sem í frv. felst.

Ég tel því sjálfsagt, að frv. verði samþ. á því Alþ., sem nú er hafið. Ég legg til, að frv. verði að aflokinni 1. umr. vísað til hv. allshn. Það er ljóst, að í kjölfar þessa frv. verður að fara fram bæði breyting á kosningalögum og eins nokkrum öðrum lögum varðandi stöðu ungs fólks. Óeðlilegt er að veita þeim kosningarrétt, nema aldurshámark sé lækkað í nokkrum öðrum tilfellum, og er það til athugunar í ríkisstj. að semja slík frv. og bera þau fram, jafnskjótt og tími vinnst til.